Það hefur
löngum þótt tilhlýðilegt fyrir gamla sjómenn að halda upp á sjómannadaginn og
svo er einnig með mig. Þó hefi ég oftar en ekki verið fjarverandi á þessum degi
eða þá eftir að ég hætti til sjós, bundin af vaktinni í landi. Reyndar var
sjómannadeginum sýnd svo lítil virðing í mörg ár í útgerðarbænum Reykjavík að
haldið var upp á daginn í Nauthólsvík. Þau árin kom ég ekki nálægt hátíðarhöldum
sjómannadagsins þótt ég væri í Reykjavík og í fríi, enda voru hátíðarhöldin þá
eins og hver önnur niðurlæging. Sem betur fer höfðu menn rænu á að flytja
hátíðarhöldin aftur niður að gömlu höfn og síðan hafa þau bara aukist ár frá
ári og frá því fyrir fimmtán árum orðið að tveggja daga hátið með Hátíð hafsins
á laugardeginum.
Hátíðarhöldin aukast enn þetta árið með því að Landsbjörg „þjófstartar“ með
fjáröflunardagskrá í sjónvarpi og er það vel að tengja hana við hátíðarhöld
sjómannadagsins, en sjálf mun ég byrja á hádegi á föstudag með verkefni á vegum
Slysavarnaskóla sjómanna. Þar sem mikið af þeim verkefnum sem björgunarsveitirnar
munu sinna sjómannadagshelgina voru löngu skipulögð, var ég búin að skrá mig
til vinnu á björgunarskipið Ásgrím S. Björnsson alla helgina eftir því sem
báturinn verður í notkun. Fyrir rúmri viku síðan fékk ég beiðni um vaktstöðu um
borð í Óðni þessa sömu helgi því þá er stöðugur gestagangur um skipið og
Hollvinasamtök Óðins sjá um að sýna gestunum skipið, en því miður. Ég var búin
að lofa mér til vinnu á björgunarskipið þessa helgi og get því einungis
aðstoðað við gæsluna um borð í Óðni að verkefnunum á Ásgrími verði lokið.
Ég var varla búin að gefa kannski-kannski ekki svarið til Sjóminjasafnsins og
Óðins að ég fékk símtal. Það er nefnilega þjóðfundur hinsegin fólks í Ráðhúsinu
í Tjörninni eftir hádegi á laugardag. Síðan þá hefi ég fengið skeyti, bréf og
beiðnir á Facebook um að mæta á þjóðfundinn, en betra er að segja nei en að
segja kannski þegar vitað er að ég kemst ekki. Næsta beiðni kom frá Íslandsdeild
Amnesty International. Það á að vera uppákoma til stuðnings Rómafólki á
Ingólfstorgi eftir hádegi, jú getið hvenær, eftir hádegi laugardaginn 1. júní.
Ég svaraði eins og áður, búin að lofa mér í annað og kemst ekki. Á þriðjudag
kom svo enn ein tilkynningin. Það er flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar í
Reykjavík laugardaginn 1. júní klukkan 10.00 - 16.00. Ofaná allt átti að halda
einhvern samevrópskan símafund, aukaaðalfund Evrópsku transgendersamtakanna
þessa sömu daga, en af einhverri þrjósku hefi ég ekki einu sinni lesið póstana
mína, enda verð ég að sleppa því að taka þátt í gagnrýni á sjálfa mig og aðra
eftir að ég neitaði að undirrita ársreikningana í haust sem leið.
Nú vantar ekkert nema kröfu um að mæta á aukavakt í vinnunni til að fullkomna
dæmið. Ég hafði fengið kröfu um skyldumætingu á vinnustaðarfund á föstudag, en
sökum þess að ég er í sumarleyfi er ég undanþegin kröfunni þótt mælst sé til
þess að ég mæti og sem ég hefði gert annars.
Benda allar þessar óskir til þess að ég sé búin að gefa mig út í alltof mörg
félagsmálastörf eða er ég kannski bara gamalt fífl sem kann ekki að segja nei?
Ég hallast æ meira að þessu síðarnefnda, en það er bara svo gaman að þessu öllu.
miðvikudagur, maí 29, 2013
29. maí 2013 - Fíflið ég og sjómannadagshelgin
29. maí 2013 - Ég er virkjanasinni og umhverfissóði
Á þriðjudag
mætti ég fyrir framan Stjórnarráð Íslands til að lýsa yfir samstöðu með þeim
sem tóku þátt í hófsamri aðgerð þar sem fáránlegum ummælum hins nýja
forsætisráðherra um mótmæli gegn virkjanaframkvæmdum var mótmælt. Fólk kann að
furða sig yfir mætingu minni á þennan fund, en þarna var ég af öllu mínu
hjarta. Ég gætti þess þó vandlega að afþakka boð um að halda á lofti hinum
græna fána Lýbíu frá dögum Gaddafis og klappaði hóflega fyrir góðu ræðufólki.
Þar stóð sig betur lítil tík í eigu dýralæknis kattanna minna, en hún gelti
ákaflega í hvert sinn sem fólk klappaði og eingöngu þá. Hún kunni sig betur en
ég.
Það er alveg rétt. Ég hefi löngum verið stimpluð álverssinni og virkjanasinni
og hefi unnið vel fyrir því orðspori. Ég hefi aldrei tekið til baka þau orð mín
um að ál er hið besta mál, umhverfisvænn málmur sem gerir okkur kleyft að
ferðast ódýrt og er einn af mörgum undirstöðum undir velferðarsamfélag
nútímans. Ég ætla heldur ekki að taka
til baka þau orð mín núna. Ég var stuðningsaðili Fljótdalsvirkjunar og
framkvæmda við Kárahnúka rétt eins og meginþorri Austfirðinga vina minna. Ég
hefi heldur ekki bakkað frá þeirri skoðun minni, en viðurkenni jafnframt að í
blindni minni gerði ég mér ekki grein fyrir afleiðingunum á lífríki
Lagarfljótsins þótt mér hefði átt að vera ljóst að mikið magn af jökulárleir
færi ekki vel í bergvatnsána Lagarfljót.
En það er mín heimska.
Um leið er ég ekki reiðubúin að bakka með þá skoðun mína að hækkun
Þingvallavatns um hálfan metra á árunum fyrir 1960 hafi ekki verið umhverfisslys.
Dæling á óhemjumagni af skordýraeitri á bakka Þingvallavatns árin eftir 1960 að
kröfu sumarbústaðaeigenda voru hinsvegar umhverfisslys og hafa frekar en allt
annað útrýmt stórurriðanum að mestu. Þá vil ég meina að virkjun Blöndu hafi
einungis verið af hinu góða þar sem með Blönduvirkjun tókst að koma böndum á
Blöndu og gera áraurana í Langadalnum byggilega. Ég er einnig sammála þeim
rökum að án virkjunar Elliðaánna væru árnar stjórnlausar og hættulegar.
Núverandi ástand gerir árnar lífvænlegar og á hverju sumri sé ég gnótt fiskjar
í ánum sem annars væru í mjög sveiflukenndu ástandi.
Á sama hátt reyni ég að meta afstöðu mína útfrá þekkingu íbúa viðkomandi
landssvæðis. Ég fylltist hrifningu af baráttu Þingeyinga er þeir sprengdu
stífluna í Laxá 1970, en ég fylltist einnig hrifningu yfir baráttu Austfirðinga
fyrir sinni virkjun. Ég mun einnig halda áfram að styðja baráttu heimamanna
fyrir sínum málstað í framtíðinni þótt deila megi um málstaðinn. Þeir þekkja
best sitt land.
Og þá er komið að stóra vandamálinu. Hengilssvæðinu. Reykjavíkurborg keypti landssvæði
og vatnsréttindi á Hengilssvæðinu fyrir löngu. Það var ljóst að sú orka sem
fékkst frá borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ nægði engan veginn til framtíðar
til tryggingar hitaveitukerfi Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga og það
þurfti að grípa til róttækra aðgerða til að tryggja hitaveituna til
framtíðar. Nesjavallavirkjun komst í
gagnið 1990 og það var unaðslegt að skoða í töflum og tölum hve virkjunin létti
á heitavatnsforðabúum Reykjavíkur og
Mosfellsbæjar. Eftir of mikla dælingu á heitu vatni nægði heita vatnið frá
Nesjavöllum til að fá heitu svæðin í Reykjavík og Mosfellsbæ til að jafna sig á
skömmum tíma og ná fyrri styrk og í dag tökum við ekki meiri orku úr þessum
forðabúum en krefst til að viðhalda náttúrulegu jafnvægi. Rafmagnsframleiðsla á
Nesjavöllum breytti heldur ekki miklu er hún hófst haustið 1998. Þarna var
verið að nýta toppinn af gufuþrýstingnum til rafmagnsframleiðslu en eftir var
samt nægileg orka til heitavatnsframleiðslu og sama gilti er þriðja túrbínan
bættist við.
Síðan þá hefur mikið breyst. Með fjórðu túrbínunni á Nesjavöllum og síðan Hellisheiðarvirkjun
kom nýtt viðmót, gróðasjónarmiðið. Allt í einu
hætti heitavatnsframleiðslan fyrir höfuðborgarsvæðið að vera aðalatriðið
og rafmagnið og gróðasjónarmiðið tóku við og í Hellisheiðarvirkjun bættust við 300
MW sem kostuðu óhemjumikla orku sem var puðrað út í andrúmsloftið eftir
rafmagnsframleiðsluna með hæfilegum skammti af brennisteinsvetni, en með
sáralítilli heitavatnsframleiðslu til hagsbóta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Ég var hlynnt þessum framkvæmdum, en ekki lengur. Sem betur fer er búið að
stoppa af brjálæðið um sinn. En hversu lengi?
Orkuveita Reykjavíkur tók þátt í brjálseminni og var nánast gjaldþrota á
eftir, eftir að hafa selt rafmagn í heildsölu á útsöluverði. Eigum við að þurfa að horfa á áframhaldandi
virkjanaframkvæmdir þar sem meirihluta orkunnar er veitt beint út í
andrúmsloftið til skaða fyrir alla eða verður skynseminni beitt þar sem ekki
er virkjað meira en nægir til að nýta affallið til heitavatnsframleiðslu, öllum
til hagsbóta? Hvað tekur við eftir nokkur ár ef raforkuframleiðslan verður til
að forðabú Hengilssvæðisins tæmist á næstu tuttugu árum? Það væri gott fyrir
fólk að lesa ævisögu Jóhannesar heitins Zoëga, hitaveitustjóra Reykjavíkur
1962-1988 og velta fyrir sér þeim vandamálum sem geta blasað við ef við göngum
of nærri þeim möguleikum sem finnast á Hengilssvæðinu.
Ég reyni ekki að véfengja þá skoðun fólks á mér að ég sé virkjanasinni og umhverfissóði.
En um leið veit ég hvað mér finnst um
frekari virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði. Því segi ég stopp við frekari framkvæmdum
við rafmagnsframleiðslu á Hellisheiði!
þriðjudagur, maí 28, 2013
28. maí 2013 - Að bera virðingu fyrir fólki
Síðustu
dagana hefur mikill persónulegur áróður verið í gangi gegn Vigdísi Hauksdóttir
alþingimanni á Facebook og kannski víðar, nú síðast eftir mjög ljótt orðbragð
af hálfu manns sem siglir undir fölsku flaggi á Facebook og fleiri nafngreindir
einstaklingar, þar með taldir nokkrir fésbókarvinir mínir, voru sömuleiðis með leiðindi gegn Vigdísi
persónulega á Facebook, reyndar ekki jafnharkaleg og dularfulli „verkfræðingurinn“
sem á tvífara í norskum píanóleikara.
Ég hefi aldrei talist stuðningsmanneskja Vigdísar Hauksdóttur í pólitík. Við
erum pólitískir andstæðingar í flestum málum enda erum við í sinnhvorum stjórnmálaflokknum
og á sinnhvorum vængnum í íslenskri póltík. Það breytir ekki því að ég tel að
sérhver manneskja eigi skilið fulla virðingu sem manneskja og þá ekki síður
Vigdís en aðrar manneskjur. Ég hefi vissulega oft brosað að ummælum hennar eða
jafnvel hneykslast á þeim, en ég mun samt halda áfram að bera virðingu fyrir
Vigdísi eins og öðru fólki. Að auki hefi ég heyrt frá samflokksfólki mínu á
Alþingi að Vigdís sé skemmtileg í hópi félaga sinna á Alþingi og mitt
samflokksfólk myndi ekki halda slíku fram nema vegna þess að það sé sannleikskorn
í slíku.
Ég hefi lært það af rúmlega sex áratugum af fátækt, einelti, fordómum og ofbeldi
að persónuleg virðing gagnvart öðru fólki sé hið einasta sem getur leitt til
betra ástands í samfélaginu. Barátta samkynhneigðra fyrir mannréttindum á
Íslandi á síðasta fjórðungi síðustu
aldar var ekki háð með ofbeldi heldur virðingu fyrir andstæðingunum og
ofbeldinu var sömuleiðis svarað með virðingu fyrir þeim persónum sem áttu hlut
að máli. Sjálf hefi ég reynt að læra af baráttu og reynslu samkynhneigðra og
reyni að forðast persónulegt og nafngreint níð í eigin baráttu fyrir réttlæti,
en það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Stundum hefi ég misst eitt og annað
útúr mér gagnvart hópi manna en sjaldnast gegn einstaklingum nema ég viti á þá
skömmina og jafnvel þá hefi ég forðast persónulegt níð. Ég skal þó játa að ég á það til að bölva
hressilega þeim sem koma illa fram gagnvart mér, gagnvart öðru fólki eða
gagnvart umhverfi sínu að mínu mati. Þannig fá íbúarnir við Rituhóla gjarnan
hiksta þegar ég geng göngustíginn neðan við Rituhólana, en þeir sem kunna ekki
á stefnuljósin á bílum sínum eða tala í síma í akstri fá sömuleiðis bölbænir frá mér, en þær eru venjulega
gleymdar daginn eftir, en bölbænir gagnvart íbúum Rituhóla rifjast alltaf upp
næst þegar ég geng stíginn milli eyðilagðra trjánna.
Sem andstæðingur núverandi ríkisstjórnar mun ég nota hvert tækifæri til að
bölva stjórnarflokkunum og nýjum meirihluta á Alþingi. En það verður að vera
málefnalegt og má ekki vera of persónulegt. Mér myndi til dæmis aldrei koma til
hugar að gefa Ásmundi Einari á lúðurinn ef ég mætti honum á götu þótt ég fyrirlíti
skoðanir hans gegn samvinnu þjóða og Evrópusambandinu. Þvert á móti læri ég af
neikvæðni hans hve Vigdís Hauksdóttir er í raun skemmtilegur karakter.
En ég mun aldrei kjósa þau, ekki frekar en fyrri daginn.
sunnudagur, maí 26, 2013
26. maí 2013 - Um skerðingar ellilífeyrisgreiðslna
Nú hefur Landssamband eldri
borgara ferið fram á það við hina nýju ríkisstjórn að hún afnemi tekjutengingar
þær sem síðasta ríkisstjórn setti á 2009 þegar ríkissjóður var nánast
gjaldþrota eftir hrunið. Ekki þekki ég mjög vel til þessara tekjutenginga en
ein þeirra er sú að sett var þak grunnlífeyri þannig að hann var afnuminn við
vissar tekjur, en í dag er grunnlífeyrinn 34.053 krónur á mánuði, en hann
fellur niður ef lífeyrisgreiðslur og aðrar tekjur ellilífeyrisþegans eru yfir
350.814 krónum á mánuði.
Ég viðurkenni alveg að 350.814 krónur á mánuði er ekkert til að hrópa húrra
fyrir, en um leið ber að hafa í huga að margir eldri borgarar eru með miklu
hærri tekjur en þetta. Um leið eru margir með miklu lægri tekjur en þessu nemur.
Þeir einstaklingar fá enga leiðréttingu á skerðingunni. Það þýðir að
leiðréttingin á skerðingunni kemur einungis betur stöddum lífeyrisþegum til
góða, alls ekki þeim sem verst eru staddir.
Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema hátekjuskattinn, Framsóknarflokkurinn vill
afnema skerðingu eftirlaunagreiðslna. Jóhanna Sigurðardóttir fær þá talsverðar
leiðréttingar á eftirlaunum sínum væntanlega gegn eigin vilja þar sem hún gerði
sér grein fyrir miklum vanda ríkissjóðs á sínum tíma og studdi þær skerðingar á
lífeyrisgreiðslum sem gerðar voru og hún studdi sömuleiðis hátekjuskattinn.
Þótt staða ríkissjóðs hafi lagast verulega undir stjórn Jóhönnu þá er hún enn óásættanleg.
og því mikil dirfska að ráðast þegar í verulegar breytingar á skatt- og
eftirlaunakerfinu í þá veru að einungis hinir efnaðri hagnist á því.
Ef hinsvegar verður ráðist í að hækka skattleysismörkin kemur það öllum til
góða, líka þeim fátækari. Nær væri fyrir hina nýju ríkisstjórn að fara frekar
þá leið sem leiðir til jafnaðar en að verðlauna einungis þá ríku.