föstudagur, janúar 17, 2014

17. janúar 2014 - Eimskipafélag Íslands 100 ára



Ætli það hafi ekki verið haustið 1969 sem ég gerði fyrst tilraun til þess að komast að á skipum Eimskipafélags Íslands. Ég var 17 ára og kunni ekki alveg að hegða mér að hætti fullorðinna, hvað þá að sýna ráðningastjóranum Guðjóni Einarssyni, hinum ágætasta manni og miklum KR-ing nægilega virðingu enda fékk ég ekkert starfið í það skiptið. Rúmu ári síðar var Guðjón kominn á eftirlaun og Jón Magnússon lögfræðingur (Lögfr.tal 767) tekinn við starfinu. Þá leið ekki á löngu uns ég hóf fyrst störf hjá Eimskip, til að byrja með á Lagarfossi (II), en síðar á allnokkrum skipum félagsins og má segja að ég hafi lengstum haft einhver tengsl við félagið, sem dagmaður í vél, smyrjari, aðstoðarvélstjóri og vélstjóri allt frá 4. vélstjóra til yfirvélstjóra, en auk þess starfsmaður við eftirlit með frystigámum, á verkstæði og á skrifstofum.

Þótt ég hafi ekki verið samfellt hjá félaginu, fremur öðru hverju í gegnum árin, þá hafa tilfinningaleg tengsl við félagið og starfsfólk þess ávallt verið mikil sem og virðing fyrir félaginu og starfsfólki þess. Vissulega hefur ýmislegt gengið á í sögu Eimskipa og ekki alltaf jákvætt. Það má segja að ég hafi fylgst með félaginu og tekið þátt í rekstrinum er sól þess reis sem hæst, en fylgst með því úr fjarlægð með sorg í hjarta er niðurlægingin varð sem verst fyrir fáeinum árum síðan. Um leið var ég aldrei sátt við útflöggun skipanna, en þar var ekki einvörðungu Eimskip um að kenna, fremur klaufaskap íslenskra verkalýðsfélaga og  Alþingis.

Að morgni 100 ára afmælis Eimskipafélags Íslands skrifaði ég status á Facebook þar sem ég óskaði Eimu gamla til hamingju með 100 ára afmælið. Ég var samstundis skotin í kaf eins og tvö skip Eimskipafélagsins í lok seinni heimstyrjaldar og menn mótmæltu mér harðlega þar sem félagið væri í raun nýtt eftir endurskipulag þess fyrir fáeinum árum, einn þeirra góður félagi sem sigldi með mér á Bakkafossi (II) jólin 1976. Ég er þessum mönnum ósammála. Ný kennitala er engan veginn nægileg ástæða til að afskrifa eitt fyrirtæki og sögu þess. Við vitum mörg dæmi um nýjar kennitölur án nokkurra breytinga í fyrirtækjum og stofnunum, stofnanir og fyrirtæki á borð við Landsbankann, Ríkisútvarpið og jafnvel Orkuveituna sem var sameinuð úr þremur stofnunum sem allar áttu sína merkilegu sögu hver fyrir sig. Eimskip var upphaflega stofnað til að annast flutninga til og frá útlöndum og sinnir þessu hlutverki sínu vel enn í dag. Starfsfólkið er hið sama áratug eftir áratug og þegar ég hefi leyst af á skipum félagsins á undanförnum árum hefi ég hitt fyrir fjölda fólks sem ég starfaði með á upphafsárum mínum hjá Eimskip fyrir rúmum fjórum áratugum og starfa þar enn, sum við sömu störf og forðum, vissulega eldri og reyndari. Hliðarspor í eigendasögunni koma þessu máli ekkert við, né heldur græðgisvæðingin sem heltók íslensku þjóðina um miðjan síðasta áratug. Starfsfólk Eimskips hélt áfram að vinna sína vinnu af trúmennsku og dugnaði eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir alvarleg áföll í stjórn félagsins.


Á hundrað ára afmælinu er framtíðin ljós. Tvö ný skip eru í smíðum og verða afhent á þessu ári, vonandi koma tvö önnur skip og mun stærri fljótlega til að leysa af Goðafoss og Dettifoss enda eru þau farin að láta á sjá eftir barninginn í Norður-Atlantshafi síðasta áratuginn rétt eins og Selfoss og Brúarfoss sem senn verða leyst af af nýju skipunum. Annað mjög jákvætt við Eimskip er endurnýjun merkisins E með Í í gegnum í stað hakakrossins sem fylgdi félaginu frá upphafinu árið 1914 til tíunda áratugar síðustu aldar er tvö E og annað öfugt voru tekin upp sem merki félagsins. Megi merkið sem mun prýða stefni nýju skipanna verða leiðandi merki Eimskipafélags Íslands um ókomna tíð.


mánudagur, janúar 13, 2014

13. janúar 2014 - Risaskip



Ég verð að játa að ég er með örlítið blæti fyrir hinum glæsilega skipaflota Mærsk skipafélagsins og hefur svo verið í fjölda ára þótt ég hafi aldrei komið um borð í neitt skipa þeirra, þó að því frátöldu að ég datt einu sinni í það með nokkrum köfurum og vélstjórum á þjónustuskipi Mærsk í Esbjerg fyrir meira en hálfum fjórða áratug síðan. Það skip var með fjórar aðalvélar frá MaK og aðbúnaður áhafnar með eindæmum á þeim tíma þótt mörg skip séu með svipaðan aðbúnað í dag.

Það fer aldrei á milli mála þegar skipin frá Mærsk eru á ferðinni. Himinblár liturinn á skrokknum og rjómagul yfirbyggingin fara ekkert á milli mála né heldur sjöarma stjarnan í skorsteininum.


Með tilkomu netsins var auðveldara að fylgjast með þróun þessa  skipafélags og hvernig þau voru í fararbroddi skipafélaga í smíði risastórra gámaskipa sem báru nærri tíu þúsund gámaeiningar (teu´s) hvert á árunum kringum 2004 og síðan enn stærri skip sem voru skráð geta borið 11.000 teu´s en gátu borið í reynd yfir 15.500 teu´s. Þessi glæsilegustu flutningaskip heimshafanna voru jafnframt síðustu risaskipin sem voru smíðuð í Danmörku þar sem óhappaskipið Emma Mærsk sem hét eftir nýlátinni eiginkonu stjórnarformanns Mærsk skipafélagsins var fyrst í röðinni árið 2006. Ég segi óhappaskip því meðan á smíðinni stóð varð alvarlegur bruni í yfirbyggingu skipsins  með þeim afleiðingum að skipta þurfti um stóran hluta yfirbyggingarinnar, en auk þess gaf sig ásþetti með skrúfu skipsins fyrir tæpu ári síðan í Suezskurði með þeim afleiðingum að skipið var úr rekstri í marga mánuði vegna viðgerðar á skipinu. Það var þó ekki manntjón frekar en þegar kviknaði í skipinu.


Skipin af fyrri E-gerðinni, en öll heita þau nöfnum sem byrja á E urðu átta. Þau voru notuð til flutninga á milli Evrópu og Austur-Asíu, en þessi risaskip komast ekki í gegnum Panamaskurðinn, en eru hentug fyrir langsiglingarnar í austurveg.  Í framhaldinu voru smíðuð nokkur minni skip af G-gerð en síðan lagðist stórskipasmíðin af í Mönkebo í Óðinsvéum.


Það var samt áfram þörf fyrir risaskip þótt Danir væru ekki lengur samkeppnishæfir við Austur-Asíu í smíði risaskipa: Þeir skoðuðu skipasmíðar í Kína, en töldu skipasmíðar þeirra ekki nógu góðar, en Kóreumenn virtust hafa tæknikunnáttuna sem þurfti og því fékk Daewoo skipasmíðastöðin það mikla verkefni að smíða tíu risaskip (síðar var samið um tíu skip til viðbótar) fyrir Mærsk sem geta borið yfir 18.270 teu´s hvert og var samningurinn gerður á svipuðum tíma og Eimskip samdi um tvö skip í Kína. Þess má geta að skipin sem Mærsk samdi um eru tæplega 400 metrar á lengd og 60 metrar á breidd og bera eins og áður er sagt, um 18270 teu´s en nýju skipin hjá Eimskip eru 140 metrar á lengd, 23 metrar á breidd og munu bera allt að 875 teu´s.


Reikna má með því að fyrra skipið hjá Eimskip verði afhent formlega einhvern næstu daganna, en þegar er búið að afhenda sex fyrstu skipin hjá Mærsk, þar af fimm sem eru komin í rekstur, en sjötta skipið, Magleby Mærsk var afhent í byrjun janúar 2014 eftir nokkra seinkun og á eftir að fara í gegnum viðamiklar reynslusiglingar áður en það fer í rekstur í næsta mánuði, en sjöunda skipið, Maribu Mærsk á að afhendast í næsta mánuði.


Ég sem fyrrum vélstjóri hjá Eimskip til margra ára er vissulega stórhrifin af þessum nýju skipum Eimskipafélagsins sem ég þjónaði í mörg ár, en hefði viljað sjá þau smíðuð á betri stað en í Kína, t.d. í Suður-Kóreu þar sem tæknikunnáttan er mun betri en í Kína. Þetta mun kosta mikla vinnu vélstjóranna fyrstu mánuðina, en vonandi ekki til framtíðar. 

P.s. Meðfylgjandi mynd er frá Wikipedia.



laugardagur, janúar 11, 2014

11. janúar 2014 - Næturvaktin á Rás 2


Það er föstudagskvöld. Það er samt engin næturvakt á Rás 2. Guðni Már situr heima atvinnulaus og spilaður er eldgamall útvarpsþáttur um eina hljómplötu, vissulega góður þáttur sem ég hafði gaman af á sínum tíma, en enganveginn sá gagnvirki útvarpsþáttur sem næturvaktin var.

Nú er næturvaktin á Rás 2 hætt, kannski að fullu og öllu, kannski þar til við fáum nýjan útvarpsstjóra. Ég er ekki ánægð með þessa nýju tilhögun. Ég borga mitt útvarpsgjald sem hækkaði um áramótin og ég er ósátt við að þeir fjármunir renni ekki allir til útvarpsins, til Rásar 1, til Rásar 2, til sjónvarpsins.

Nokkru fyrir jól tilkynnti þáverandi útvarpsstjóri þá ákvörðun sína að segja upp mörgum starfsmönnum RÚV þar á meðal þeim sem ég þekkti örlítið meira en í gegnum RÚV einvörðungu, fólk á borð við Lindu Blöndal og Guðna Má Henningsson sem jafnframt voru uppáhaldsútvarpsfólkið mitt. Linda hvarf á braut sama dag og hún fékk uppsagnarbréfið, en Guðni Már fékk að vinna hluta uppsagnarfrestsins.

Það er skelfilegt að lenda í uppsögnum af þessu tagi sem fyrrum starfsfólk RÚV varð fyrir. Svipuð uppsagnahrina átti sér stað á mínum vinnustað fyrir fáeinum árum. Það var ekkert farið eftir starfsreynslu hjá fyrirtækinu. Þetta starf var lagt niður, þessi starfsmaður hafði verið ókurteis við viðskiptavinina, þessi var oft veikur.  Sumir fengu nýja vinnu strax, aðrir ganga enn um atvinnulausir. Þarna hurfu margir vinnufélagarnir á brott frá fyrirtækinu, sumir eftir fleiri áratuga þjónustu við íbúa Reykjavíkur. Nú er leiðin upp á við hjá okkur en erfiður var þessi tími. Nú horfum við á svipaða uppsagnahrinu hjá RÚV.

Í mörg ár hefur Guðni Már verið næturvaktin á Rás 2. Hann hefur staðið vaktina á föstudagskvöldum, en ýmsir hafa sinnt næturvaktinni á laugardagskvöldum þar á meðal hin mjög svo geðþekka Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun), en síðustu árin hefur Ingi Þór Ingibergsson séð um þá vakt. Flest eða öll hafa verið sérlega þægileg, en Guðni Már, sem er gamall félagi minn frá fyrri tíð, þeirra bestur.

Þessi útvarpsþáttur var slíkur að hann jók á tekjur útvarpsins á öðrum tímum því fólk er ekki sífellt að skipta um útvarpsstöðvar. Það heldur tryggð við sína útvarpsstöð og auglýsendur skilja slíkt og veðja á frábæra þáttastjórnendur á borð við Guðna Má, Lindu Blöndal og Guðfinn Sigurvinsson. Nú hefur öllum verið hent út og íslenska þjóðin er fátækari á eftir.

Að þessum persónum hefur verið sagt upp er ekki spurning um sparnað. Það er verið að sökkva Ríkisútvarpinu af ásettu ráði. Einkavæðingin stjórnar nýrri ríkisstjórn og RÚV er sett á brennuna. Þess vegna var útvarpsstjóranum gerð grein fyrir því að hann væri ekki velkominn um borð um leið og hann hafði unnið skítverkið fyrir hina nýju stjórn RÚV.

Til íslenskra kjósenda segi ég bara. Þetta kusuð þið yfir ykkur og skammist ykkar.

föstudagur, janúar 10, 2014

10. janúar 2014 - Nýir kjarasamningar?


Ég var á fundi um kjarasamninga hjá VM á fimmtudagskvöldið, en samkvæmt venju hafði ég mig lítið í frammi, en hlustaði þess meira.

Á síðastliðnu hausti var sú stefna mörkuð með miklum meirihluta atkvæða félagsmanna hjá Félagi vélstjóra og járniðnaðarmanna (VM) að vera ekki með í samræmdum launaviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Þessi samstaða félagsmanna er eðlileg. Á sínum tíma þegar Vélstjórafélag Íslands og Félag járniðnaðarmanna sameinuðust var mikil andstaða við sameininguna meðal vélstjóra og vélfræðinga við inngöngu hins nýja félags í Alþýðusamband Íslands og eftir sameiningu hafa vélstjórar og vélfræðingar dregist verulega aftur úr sambærilegum stéttum í kjörum með samræmingu við kjör innan Alþýðusambandsins. Mikill fjöldi vélstjóra hafa farið á skip erlendis þar sem kjörin eru langtum betri en þekkjast á Íslandi, en þeir sem sitja eftir eru orðnir láglaunahópur með 200-350 þúsund krónur í grunnlaun eftir sjö til átta ára nám auk minnst þriggja ára þjálfunartíma til að öðlast full réttindi sem vélfræðingar. Því kom það okkur gjörsamlega í opna skjöldu er við fréttum um jólin að við værum með í þessum láglaunapakka ASÍ með 2,8% launahækkun í krónum talið en kjararýrnun í reynd.

Fyrir ári síðan hélt formaður okkar því fram, þegar bráðabirgðasamningar til eins árs voru til umræðu, að verið væri að endurskoða launakerfið. Nú ári og nýjum árssamningi síðar fáum við enn og aftur að heyra að það sé verið að endurskoða launakerfið og í reynd þurfi að hækka grunnlaunin um 63% en ekki 2,8% svo réttlætinu verði náð og samt er ætlast til þess að við samþykkjum samningana vegna þessarar baráttu.

Ég er kannski svo heimsk að sjá ekki flísina í auganu, en ég sé bjálkann í auga samninganefndarinnar og ég get ekki með nokkru móti séð að ég eigi að samþykkja þessa samninga.  Fundur sem var haldinn hjá VM um samningana hjálpaði mér ekkert til að öðlast skilning á því að samþykkja samningana.

Þvert á móti sannfærðist ég enn frekar um nauðsyn þess að fella þessa samninga, en set spurningamerki um það hvort samninganefnd okkar hafi verið starfi sínu vaxin til að taka þátt í samningaferlinu. Þetta mun ráða afstöðu minni við næstu stjórnarkjör innan félagsins  auk þess sem ég mun segja nei við samningunum.