Ég var
á fundi um kjarasamninga hjá VM á fimmtudagskvöldið, en samkvæmt venju hafði ég
mig lítið í frammi, en hlustaði þess meira.
Á síðastliðnu hausti var sú stefna mörkuð með miklum meirihluta atkvæða
félagsmanna hjá Félagi vélstjóra og járniðnaðarmanna (VM) að vera ekki með í
samræmdum launaviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Þessi
samstaða félagsmanna er eðlileg. Á sínum tíma þegar Vélstjórafélag Íslands og Félag
járniðnaðarmanna sameinuðust var mikil andstaða við sameininguna meðal
vélstjóra og vélfræðinga við inngöngu hins nýja félags í Alþýðusamband Íslands
og eftir sameiningu hafa vélstjórar og vélfræðingar dregist verulega aftur úr sambærilegum
stéttum í kjörum með samræmingu við kjör innan Alþýðusambandsins. Mikill fjöldi
vélstjóra hafa farið á skip erlendis þar sem kjörin eru langtum betri en
þekkjast á Íslandi, en þeir sem sitja eftir eru orðnir láglaunahópur með
200-350 þúsund krónur í grunnlaun eftir sjö til átta ára nám auk minnst þriggja
ára þjálfunartíma til að öðlast full réttindi sem vélfræðingar. Því kom það
okkur gjörsamlega í opna skjöldu er við fréttum um jólin að við værum með í
þessum láglaunapakka ASÍ með 2,8% launahækkun í krónum talið en kjararýrnun í
reynd.
Fyrir ári síðan hélt formaður okkar því fram, þegar bráðabirgðasamningar til
eins árs voru til umræðu, að verið væri að endurskoða launakerfið. Nú ári og
nýjum árssamningi síðar fáum við enn og aftur að heyra að það sé verið að
endurskoða launakerfið og í reynd þurfi að hækka grunnlaunin um 63% en ekki 2,8%
svo réttlætinu verði náð og samt er ætlast til þess að við samþykkjum
samningana vegna þessarar baráttu.
Ég er kannski svo heimsk að sjá ekki flísina í auganu, en ég sé bjálkann í auga
samninganefndarinnar og ég get ekki með nokkru móti séð að ég eigi að samþykkja
þessa samninga. Fundur sem var haldinn
hjá VM um samningana hjálpaði mér ekkert til að öðlast skilning á því að
samþykkja samningana.
Þvert á móti sannfærðist ég enn frekar um nauðsyn þess að fella þessa samninga,
en set spurningamerki um það hvort samninganefnd okkar hafi verið starfi sínu
vaxin til að taka þátt í samningaferlinu. Þetta mun ráða afstöðu minni við
næstu stjórnarkjör innan félagsins auk
þess sem ég mun segja nei við samningunum.
föstudagur, janúar 10, 2014
10. janúar 2014 - Nýir kjarasamningar?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Sæl Anna , Er algjörlega sammála þér. Það voru, að mínu mati, mikil mistök að sameina þessi félög, Vm er komið úr öllum tengslum við þá sem starfa við fiskveiðar. Sagði mig úr félaginu í haust og ætla ekki að vera í verkalýðsfélagi fyrr en stofnað verður nýtt félag allra sjómanna á fiskiskipum. Kv Samúel Sigurjónsson
SvaraEyða