Ætli það hafi ekki verið haustið 1969 sem ég gerði fyrst tilraun til þess að komast að á skipum Eimskipafélags Íslands. Ég var 17 ára og kunni ekki alveg að hegða mér að hætti fullorðinna, hvað þá að sýna ráðningastjóranum Guðjóni Einarssyni, hinum ágætasta manni og miklum KR-ing nægilega virðingu enda fékk ég ekkert starfið í það skiptið. Rúmu ári síðar var Guðjón kominn á eftirlaun og Jón Magnússon lögfræðingur (Lögfr.tal 767) tekinn við starfinu. Þá leið ekki á löngu uns ég hóf fyrst störf hjá Eimskip, til að byrja með á Lagarfossi (II), en síðar á allnokkrum skipum félagsins og má segja að ég hafi lengstum haft einhver tengsl við félagið, sem dagmaður í vél, smyrjari, aðstoðarvélstjóri og vélstjóri allt frá 4. vélstjóra til yfirvélstjóra, en auk þess starfsmaður við eftirlit með frystigámum, á verkstæði og á skrifstofum.
Þótt ég hafi ekki verið samfellt hjá félaginu, fremur öðru hverju í gegnum árin, þá hafa tilfinningaleg tengsl við félagið og starfsfólk þess ávallt verið mikil sem og virðing fyrir félaginu og starfsfólki þess. Vissulega hefur ýmislegt gengið á í sögu Eimskipa og ekki alltaf jákvætt. Það má segja að ég hafi fylgst með félaginu og tekið þátt í rekstrinum er sól þess reis sem hæst, en fylgst með því úr fjarlægð með sorg í hjarta er niðurlægingin varð sem verst fyrir fáeinum árum síðan. Um leið var ég aldrei sátt við útflöggun skipanna, en þar var ekki einvörðungu Eimskip um að kenna, fremur klaufaskap íslenskra verkalýðsfélaga og Alþingis.
Að morgni 100 ára afmælis Eimskipafélags Íslands skrifaði ég status á Facebook þar sem ég óskaði Eimu gamla til hamingju með 100 ára afmælið. Ég var samstundis skotin í kaf eins og tvö skip Eimskipafélagsins í lok seinni heimstyrjaldar og menn mótmæltu mér harðlega þar sem félagið væri í raun nýtt eftir endurskipulag þess fyrir fáeinum árum, einn þeirra góður félagi sem sigldi með mér á Bakkafossi (II) jólin 1976. Ég er þessum mönnum ósammála. Ný kennitala er engan veginn nægileg ástæða til að afskrifa eitt fyrirtæki og sögu þess. Við vitum mörg dæmi um nýjar kennitölur án nokkurra breytinga í fyrirtækjum og stofnunum, stofnanir og fyrirtæki á borð við Landsbankann, Ríkisútvarpið og jafnvel Orkuveituna sem var sameinuð úr þremur stofnunum sem allar áttu sína merkilegu sögu hver fyrir sig. Eimskip var upphaflega stofnað til að annast flutninga til og frá útlöndum og sinnir þessu hlutverki sínu vel enn í dag. Starfsfólkið er hið sama áratug eftir áratug og þegar ég hefi leyst af á skipum félagsins á undanförnum árum hefi ég hitt fyrir fjölda fólks sem ég starfaði með á upphafsárum mínum hjá Eimskip fyrir rúmum fjórum áratugum og starfa þar enn, sum við sömu störf og forðum, vissulega eldri og reyndari. Hliðarspor í eigendasögunni koma þessu máli ekkert við, né heldur græðgisvæðingin sem heltók íslensku þjóðina um miðjan síðasta áratug. Starfsfólk Eimskips hélt áfram að vinna sína vinnu af trúmennsku og dugnaði eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir alvarleg áföll í stjórn félagsins.
Á hundrað ára afmælinu er framtíðin ljós. Tvö ný skip eru í smíðum og verða afhent á þessu ári, vonandi koma tvö önnur skip og mun stærri fljótlega til að leysa af Goðafoss og Dettifoss enda eru þau farin að láta á sjá eftir barninginn í Norður-Atlantshafi síðasta áratuginn rétt eins og Selfoss og Brúarfoss sem senn verða leyst af af nýju skipunum. Annað mjög jákvætt við Eimskip er endurnýjun merkisins E með Í í gegnum í stað hakakrossins sem fylgdi félaginu frá upphafinu árið 1914 til tíunda áratugar síðustu aldar er tvö E og annað öfugt voru tekin upp sem merki félagsins. Megi merkið sem mun prýða stefni nýju skipanna verða leiðandi merki Eimskipafélags Íslands um ókomna tíð.
0 ummæli:
Skrifa ummæli