laugardagur, febrúar 01, 2014

1. febrúar 2014 - Mannréttindi eru ekki söluvara



Í síðustu viku janúar voru samþykkt lög frá Alþingi. Þetta voru engir lagabálkar né umfangsmiklar aðgerðir. Einu orði  var bætt inn í tvær greinar hegningarlaganna, inn í 180. grein laganna þar sem fjallað um að ekki megi mismuna fólki um þjónustu, sem  og 233a grein þar sem kveðið er á um mismunun á annan hátt. Þetta eina orð var kynvitund. Nú er óheimilt að neita fólki um þjónustu af völdum þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.  Um leið er gert refsivert að beita háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt vegna kynvitundar á sama hátt og áður var gagnvart þjóðerni, litarhætti, kynþætti, trúarbrögðum eða samkynhneigð.

Að bæta þessu eina orði inn í hegningarlögin nr 19 frá 1940 er ekki einungis mikilvægt fyrir transfólk á Íslandi heldur lífsnauðsynlegt. Svipað orðalag er þegar víða um Evrópu og talið gefa ákveðinn status um mannréttindi transfólks sem víða hefur þurft að sæta ofsóknum, misþyrmingum og jafnvel morðum. Þetta var ákvæðið sem vantaði til þess að Ísland teldist meðal fremstu þjóða Evrópu í mannréttindum transfólks en nú er það komið til allrar Guðsblessunar.

Hatursglæpir og mismunum gagnvart transfólki eru engin nýlunda í heiminum. Samkvæmt nýlegri skrá Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) hafa vel yfir þúsund transmanneskjur verið myrtar í þeim ríkjum heimsins þar sem tekist hefur að halda skrá yfir hatursglæpi á síðustu fimm árum og er þá ekki talið með hundruð þúsunda misþyrminga eða hatursglæpa af öðru tagi.


Ísland er ekkert undanskilið þegar hatursglæpir gagnvart transfólki eiga sér stað. Það hafa átt sér stað á Íslandi nokkur ljót dæmi um ofbeldi og misþyrmingar vegna kynvitundar og sjálf hefi ég ekki alveg sloppið við háðið og ofbeldið þótt það teljist vera minniháttar miðað við önnur dæmi á Íslandi. Með nýju lögunum er hinsvegar hægt að skrá slíka glæpi sem hatursglæpi og það eitt hjálpar mikið í baráttunni fyrir jafnrétti minnihlutahópa á Íslandi.


Frumvarpið var búið að vera nokkurn tíma í meðförum Alþingis. Við ræddum þessi mál ítarlega þegar við unnum að frumvarpinu að réttarstöðu transfólks sem varð að lögum 2012 og eftir lagasetninguna áttum við sem börðumst fyrir réttarbótum til handa transfólki góð samtöl við stöku alþingismenn, þar á meðal Eygló Harðardóttur núverandi félagsmálaráðherra sem lagði fram frumvarp svipaðs efnis haustið 2012 ásamt þingmönnum annarra flokka.


Það er full ástæða til að þakka það sem vel er gert, þar á meðal því ágæta fólki sem studdi þessa baráttu með vinnu sinni á Alþingi og þá sérstaklega Eygló Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Svandísi Svavarsdóttur og fleirum og á síðari stigum einnig Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem lagði málið fram öðru sinni í síðasta ári og þá sem stjórnarfrumvarp. Þá var og gleðilegt að sjá málið fá jafnvíðtækan stuðning og raun ber vitni þar sem 53 alþingismenn greiddu því atkvæði sitt en einungis þrír sátu hjá við lokaafgreiðslu frumvarpsins og ég fór að velta því fyrir mér eftir að hafa lesið athugasemdir þeirra hvort þeir teldu að mannréttindi ættu að vera söluvara.


Ég vona ekki, en orð þeirra og hjáseta særðu mig tilfinningalega, enda taldi ég þau vera baráttumanneskjur fyrir mannréttindum.


1 ummæli:

  1. Sæl, Anna.

    Í allri umræðu, bæði í nefnd og á þingfundum, þá reyndi ég við hvert fótmál að gera það fullkomlega skýrt að við studdum og styðjum 1. gr. frumvarpsins heilshugar og vildum reyndar helst ganga lengra.

    Sömuleiðis, eins og þú heyrir í eftirfarandi ræðu, þá var það ekki viðbót orðsins "kynvitund" sem við höfðum við að athuga, heldur fyrst og fremst orðalagsbreytingin.

    Síðast en ekki síst vil ég minna á að tjáningarfrelsið er ekki spurning um umburðarlyndi eða samþykki fyrir ljótum skoðunum, heldur er það forsenda þess að við getum tekist á við ljótu skoðanirnar. Hugmyndafræðileg framþróun á sér ekki stað nema þar sem réttu skoðanirnar geta tekist á við röngu skoðanirnar.

    Allavega, hér er ræða mín við atkvæðagreiðslu um frumvarpið þar sem ég reyni að útskýra á einni mínútu hvers vegna við sátum hjá.

    http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20140129T172425

    (P.S.: Þetta vekur furðu mína: "hvort þeir teldu að mannréttindi ættu að vera söluvara" - geturðu útskýrt eitthvað nánar?)

    SvaraEyða