Það
verður seint sagt um mig að ég sé mikil áhugamanneskja um tónlist. Á
unglingsárunum var ég sein að tileinka mér nýjustu straumana í tónlist sem þá
voru að ryðja sér til rúms, Bítlana, Rolling Stones og þær hljómsveitir sem
komu í kjölfar þeirra þegar leið á sjöunda áratuginn og ég fór hvorki á
tónleika Kinks né Led Zeppelin. Ekki bætti úr skák að fljótlega eftir að ég
byrjaði til sjós varð ég fyrir varanlegum heyrnarskemmdum vegna vinnu í
vélarúmi og ég hefi aldrei beðið þess bætur.
Það breytir ekki því að ég hefi löngum getað notið góðrar tónlistar. Ég
hefi þó ákveðnar reglur í heiðri. Ég kaupi tónlistina sem ég hlusta á, fáu er
stolið og tónlistarfólkið fær sitt frá mér. Kannski þess vegna sem ég hefi ekki
efni á að fara á tónleika.
Ég heyrði fyrst í Neil Young á árunum eftir 1970 þegar ég sigldi fyrst til
Bandaríkjanna og hann var ungur og myndarlegur og söng Heart of Gold og fleiri
dásemdir. Hann var þó ekki einn um hituna á þeim tíma og margir tónlistarmenn
og konur dreifðu athygli minni á milli sín, evrópskir jafnt og bandarískir, en
framar Young voru þó þeir fyrrum félagarnir Lennon og McCartney sem gerðu
dásamlega hluti á áttunda áratugnum auk fjölda frábærra söngvara og hljómsveita
á borð við Chicago, Mike Oldfield, Queen og flottasta band allra tíma, Pink
Floyd.
Árið 2006 kom fyrrum forsprakki Pink
Floyd til Íslands og glöð greiddi ég 9500 krónur fyrir að standa upp á endann í
fleiri klukkutíma í Egilshöll. Það var
ekki boðið upp á neitt annað og þótt ég
reyndi að hvíla mig með því að vera á hreyfingu um salinn mestallan tímann var
ég hætt að njóta tónleikanna í lokin og var þeirri stundu fegnust er þeim lauk
og ég þurfti að ganga hálfa leiðina heim því engin voru bílastæðin nærri Egilshöll.
Einum tveimur árum síðar voru svo aðrir tónleikar í Egilshöll með sama sniði
þar sem Eric Clapton var í aðalhlutverki og verðið var svipað. Ég sleppti þeim
tónleikum, gat ekki hugsað mér að standa upp á endann í fleiri klukkutíma. Um
svipað leyti var Mark Knopfler með tónleika í Berlín og ég var í Berlín á sama
tíma. Verðið fyrir dýrustu sæti með þjónustu á þá tónleika var svipað og að
standa upp á endann í Egilshöll. Ekki datt mér til hugar að taka Eric Clapton
framyfir Mark Knofler.
Fyrir tveimur eða þremur árum síðan var ég á tónleikum Cyndi Lauper í Hörpu.
Enn og aftur var miðaverðið innan við tíu þúsund krónur, en nú á besta stað í
salnum og í þægilegu sæti rétt hjá sviðinu og er söngdívan kom fram í sal fór
hún upp á sætið einum metra fyrir framan mig og söng og nær frábærri söngkonu
verður varla komist.
Nú er boðið upp á að kaupa miða á Neil Young þar sem einvörðungu er boðið upp á
standandi pláss á 17.900 krónur hvern miða. Þetta er nærri 90% dýrara en Roger
Waters kostaði mig árið 2006, en einn er þó munur á. Launin mín hafa ekki
hækkað um 90% á þessum tíma, aðeins um rúmlega 50% þótt allt hafi hækkað mun
meira. Fátt hefur þó hækkað jafnmikið og verðið fyrir tónleika.
Það er of mikið að greiða 17.900 fyrir tónleika með Neil Young og ég læt mér
nægja að setja disk með kappanum undir geislann og njóta þess að hlusta á
Harvest og Heart of gold og fleiri góð lög með honum og aurarnir fara ekkert
frá mér.
mánudagur, febrúar 10, 2014
10. febrúar 2014 - Neil Young
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli