mánudagur, febrúar 03, 2014

3. febrúar 2014 - Leit á sjó


Ég lenti í útkalli á björgunarskipi á sunnudag sem væri vart til frásagnar nema vegna þeirra aðstæðna sem boðið er upp á við leit á sjó.

Þarna er farið á sjó í leiðindaveðri í leit að horfnum bát. Björgunarskipið ýmist veltur eins og korktappi eða lemur í ölduna (stampar) eftir því hvernig keyrt er í ölduna. Menn (og konur) standa útkíkk og reyna að greina hvort eitthvað sé í yfirborðinu á milli öldutoppanna og ískaldur sjórinn pusar reglulega yfir fólkið á útkíkkinu. Það er ekki stætt á dekkinu og fólkið skorðar sig niður með böndum til að kastast ekki á næsta bita og marblettunum fjölgar eftir því sem líður á leitina. Auk okkar báts taka aðrir svipaðir bátar þátt í leitinni, auk minni báta allt niður í slöngubáta og þyrlur sveima yfir í von um að sjá eitthvað. Á slöngubátunum er ástandið enn verra en hjá okkur.  Þar er enginn möguleiki á að komast í skjól fyrr en komið er til hafnar að nýju.

Ekki eru þetta allt vanir sjómenn og ein og ein gusa kemur frá sumum sjálfboðaliðunum sem reyna að bera sig mannalega og halda áfram að rýna út í hafið í von um að sjá eitthvað á sjónum  þótt líkurnar fyrir því að finna eitthvað séu ekki meiri en að finna nál í heystakki.  Margir verða samt þeirri stundu fegnastir þegar komið er til hafnar og skipt um áhöfn og þeir komast frá volkinu um stund.  Við næsta útkall eru þessir sömu sjálfboðaliðar fyrstir á staðinn og tilbúnir í nýja svaðilför, jafnvel strax við næstu áhafnarskipti nokkrum klukkustundum síðar því að sjálfsögðu er hvíldaraðstaðan lítil eða engin um borð í litlu björgunarskipi.

Þetta fólk sem leggur alla þessa vinnu á sig í sjálfboðavinnu á alla mína aðdáun.  Það mætir aftur og aftur og gjarnan þegar aðstæður eru sem verstar í von um að geta bjargað mannslífum og jafnvel þótt björgunin takist verður þakklætið oft lítið, kannski sneið af flatböku eftir að verkefninu lýkur, stundum ekkert.

Á sunnudag voru t.d. tveir piltar sem voru með í erfiðu verkefni á síðastliðnu sumri og maður velti fyrir sér eftir þá ferð hvort þeir hefðu ekki fengið nóg af sjómennskunni. Í gær voru þeir komnir aftur einu sinni enn eins og svo oft í millitíðinni. 
 
Ekki má heldur gleyma því að andinn í björgunarsveitunum er mjög góður og fordómar ekki leyfilegir í hópnum. Þetta eru einfaldlega sannar hetjur.

8 ummæli:

  1. Mér finnst björgunarsveitarfólk vera rosalega duglegt fólk.

    SvaraEyða
  2. Góð grein og við meigum ekki gleyma því hvað við erum lánsöm að eiga okkar frábæru björgunarsveitir :)
    Kv. Hanna

    SvaraEyða
  3. Góð grein , gott að eiga svona fólk að og þörf ámining um það að þarna er lifandi fólk á ferð til að bjarga öðrum i neyð í öllum veðrum og aðstæðum.
    kv. Guðrún

    SvaraEyða
  4. Mjög góð grein- lýsir aðstæðum vel. Styðjum okkar frábæra björgunarsveitafólk.

    SvaraEyða
  5. Já sko og allt í sjálfboðavinnu Þetta eru svo miklar hetjur að ég varð því fegnust þegar sett var á laggirnar BAKVARÐARSVEITIN sem ég er meðlimur í og það veitir mér svo mikla gleði að ég get vart lýst því. Þrefalt HÚRRA fyrir öllum sem að björgunarsveitunum koma.

    SvaraEyða
  6. Björgunarsveitafólk og sjálfboðaliðar við leitir á sjó og landi á allt lof skilið.

    SvaraEyða
  7. Þetta fólk á mína virðingu.Við vorum 10 m NW af Garðskaga á leið til Hafnarfjarðar þegar tilkynning um neyðarkallið kom.Og heyrðum í talstöðinni þegar hver björgunarbáturinn af öðrum tilkynnti sig út og bað um fyrirmæli um hvert þeir skyldu halda í þessu skíta veðri sem var og þau á smábátum. Þetta gerir bara úrvalsfólk sem fórnar sínum þægindahring til að hjálpa fólki í neyð.

    SvaraEyða
  8. Þessi umræða er alltaf þörf. Þetta eru hetjur sem eru í björgunarsveitunum og mér finnst að það þurfi að gera vel við fólkið í björgunarsveitunum. Hvað t.d. með fálkaorður. Væri ekki nær að veita þessu fólki fálkaorður en fólki sem vinnur sér það eitt til frægðar að mæta í vinnuna.

    SvaraEyða