Ég hefi aldrei litið á sjálfa mig sem neinn andstæðing hvalveiða. Í mínu
ungdæmi var hrefnukjötið eins og nautakjöt fátæka fólksins. Það var mjög ódýrt
og notað í gúllas og aðra kjötrétti þegar peningana skorti fyrir gæðakjötinu. Þótt
kjöt af stórhval væri öllu minna áberandi á markaðnum smakkaði maður það samt
stöku sinnum þótt það minnti kannski meira á hrossakjöt eftir rétta meðhöndlun
þeirra sem vit höfðu á.
Ástæða þess að ég fer að rifja þetta upp hér og nú er einkennileg flutningsleið
á hvalkjöti þessa dagana. Þegar japönsku togararnir komu heim frá Japan fóru
þeir yfir Kyrrahaf og í gegnum Panamaskurð á leið sinni til Íslands. Ástæða
þess var að Suezskurðurinn var lokaður vegna styrjaldarástandsins fyrir botni
Miðjarðarhafsins og því valin næststysta leiðin frá Japan. Á þeim tíma voru
byggð nokkur risaskip til flutninga á olíu frá Persaflóa suður fyrir Afríku og
til Evrópu, en eftir að Suezskurðurinn var opnaður aftur urðu þessi risaskip
úrelt og voru flest rifin eftir örfá ár í rekstri. Eftir það lögðust
flutningarnir suður fyrir Afríku af að mestu, en þó var eitt og eitt skip sem
valdi þessa leið til að forðast athygli, t.d. vopnaflutningaskip og skip sem
fluttu kjarnorkuúrgang til eyðingar.
Fyrir tæpri viku síðan lagði frystiskipið Alma sem skráð er á Kýpur úr höfn í
Hafnarfirði áleiðis til Japan. Þeir þorðu ekki að fara í gegnum Suez og alls
ekki í gegnum Panama. Yfirvöld í Egyptalandi og Panama eru sennilega talin vera á móti flutningum á hvalkjöti um þeirra yfirráðasvæði. Ákvörðunarhöfnin er ekki gefin upp, en skipið siglir
suður með ströndum Afríku og var á fimmtudagskvöldið á siglingu vestan
Kanaríeyja. Þess var vandlega gætt að breyta stefnunni svo skipið færi ekki inn
fyrir 12 mílna landhelgina, en um leið og komið var framhjá eyjunum var stefnunni
breytt örlítið og farið nær ströndum Afríku á leiðinni í hitabeltið. Það lítur
út fyrir að farmurinn sé stórhættulegur, geislavirkur eða eitthvað enn verra.
Það er þó ekki svo. Farmurinn er hvalkjöt. Þarf virkilega að flytja hvalkjöt
fleiri þúsund aukalega kílómetra til að koma því á markað í Japan? Skipið er látið sigla í gegnum hitabeltið, yfir
miðbaug og suður fyrir Góðrarvonarhöfða og síðan aftur yfir miðbaug á leiðinni
yfir Indlandshafið. Það er engum að treysta og þar eru spönsk og egypsk yfirvöld
meðtalin. Eins gott að ekkert bili í frystikerfum skipsins á þessari sjóðheitu siglingaleið.
Menn læðast eins og þjófar á nóttu eftir krókaleiðum yfir hálfa jörðina til
þess eins að kasta hvalkjöti fyrir hunda í Japan. Miðað við þessa flutningaleið held ég að það
sé ljóst að íslensk yfirvöld og fulltrúar hvalveiðimanna hafa tapað
áróðursstríðinu og einungis spurning hvenær veiðar á stórhval leggjast af.
Sennilega er það best að hætta þessu hið fyrsta og áður en Íslendingar verða
sér enn frekar til minnkunar í umhverfis- og náttúruvernd gagnvart þjóðum
heimsins.
föstudagur, mars 28, 2014
28. mars 2014 - Eins og þjófar á nóttu
fimmtudagur, mars 13, 2014
13. mars 2014 - Enn um Laugarnesskóla og nám mitt þar.
Þótt margt megi segja um Laugarnesskóla, bæði jákvætt og neikvætt verður
ekki af skólanum tekið það sem vel var gert.
Tónlistarkennsla var þar í miklum hávegum framan af undir stjórn
brautryðjandans Ingólfs Guðbrandssonar og síðar hinnar ágætu Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur sem
kenndi þar þegar ég kom í skólann í 12 ára bekk. Vafalaust hefur svo verið
lengi og er tónlistin kannski enn í hávegum þótt ekki hafi ég fylgst mikið með
skólanum undanfarna áratugi.
Sjálf kom ég úr öðrum skóla sem síðar varð landsfrægur fyrir mikla og góða
tónlistarkennslu, en hún var ekki komin almennilega í gang á þeim tíma sem ég
var í Brúarlandsskóla/Varmárskóla. Þá var það Óli fiðla sem spilaði á fiðluna
sína og ætlaðist til að krakkarnir syngju með á milli þess sem hann sagði okkur
velvaldar togarasögur af sjálfum sér. Við þessar aðstæður var lítið spáð í
vandaða tónlistarfræðslu í Mosfellssveit. Þegar ég kom í tónlistartíma hjá Guðfinnu í 12 ára bekk stóð
ég því langt að baki hinum krökkunum sem flest eða öll höfðu fleiri ára nám að
baki í tónlist.
Haustið 1963 var haldið eitt skyndipróf í tónlist hjá Guðfinnu. Ekki man ég
hvað ég fékk í einkunn, en það var lágt og vafalaust einvörðungu fyrir
viðleitni. Ekkert miðsvetrarpróf var haldið. Guðfinna var ung og lofuð og er
enn hamingjusamlega gift Rúnari Einarssyni rafvirkja, en þegar leið nærri jólum
1963 varð hún að hætta kennslu enda þunguð af frumburði sínum og enginn
tónlistarkennari fékkst í hennar stað í skólanum það sem eftir lifði vetrar.
Það er ástæða til að geta þess nú því þann 14. mars 2014 eru liðin 50 ár frá því
Hildigunnur Rúnarsdóttir tónlistarkennari og tónskáld fæddist, en það var
einmitt hún sem bjargaði mér frá falli í skóla með fæðingu sinni fyrir hálfri
öld.
laugardagur, mars 08, 2014
8. mars 2014 - Ný Höfðaborg?
Með umræðum undanfarinna daga hefur nokkuð verið fjallað um Höfðaborgina
sem sumsstaðar hefur verið kölluð versta slöm Reykjavíkur á sínum tíma sem er
nokkuð ýkt þó ekki vilji ég fara að gera veg Höfðaborgarinnar meiri en raunin
var. Höfðaborgin var hvorki betri né verri en mörg eldri hús í Reykjavík og mun
skárri en braggahverfin svo ekki sé talað um Selbúðirnar eða Pólana, en í
síðastnefndu húsaþyrpingunni voru sameiginlegir útikamrar til nota fyrir íbúana,
en það eru óþægilegar lýsingar á Pólunum í bók Sigurðar A. Magnússonar, Undir kalstjörnu.
Þá voru braggahverfin misjöfn að gæðum, bresku braggarnir mun verri en þeir
bandarísku. Það verður þó að minnast þess að Pólarnir voru rifnir um miðjan
sjöunda áratuginn en stærstu braggahverfin hurfu um svipað leyti eða eitthvað
fyrr sbr Trípolíkamp og Camp Knox um leið og ráðist var í stórfelldar
byggingaframkvæmdir í Vogahverfi, Álftamýri og víðar, síðar með
Breiðholtshverfum og Árbæjarhverfi.
Höfðaborgin samanstóð af 104 eins eða tveggja herbergja íbúðum. Minni íbúðirnar
voru 31 fermetri en þær stærri voru 39 fermetrar. Sjálf fæddist ég nokkurn
veginn þar sem Sparisjóður vélstjóra var síðar í 39 fermetra íbúð og við vorum
átta í heimili. Pabbi breytti lítilli geymslukompu í herbergi fyrir stelpurnar
þannig að það varð aðeins kynjaskipt, en risið nýtt sem geymsla. Húsin voru
kolakynt þar sem ekki þótti svara því að leggja hitaveitu í hús sem byggð höfðu
verið til bráðabirgða þegar fólksflutningarnir til Reykjavíkur voru sem mestir
í upphafi styrjaldarinnar en hverfið var rifið í lok sjöunda áratugarins eða
byrjun hins áttunda. Húsin voru illa einangruð og einfalt gler í gluggum, en
hver íbúð hafði lítinn garð á bakvið húsið en svo var sameiginlegt þvottahús
fyrir hverfið. Baðaðstaða var engin, einungis vaskur með köldu vatni á litlu salerninu,
en gömlu Sundlaugarnar nýttar þess betur. Foreldrar mínir voru með þeim síðustu
að yfirgefa Höfðaborgina 1970, en við systkinin vorum þá flest flutt í burtu
fyrir löngu.
Ég hefi oft hugsað til áranna í Höfðaborginni, fæ jafnvel enn martraðir þar sem
mér finnst ég vera föst á þessum stað, en það er óþarfi. Höfðaborgin er farin
og sömu sögu má segja um gömlu fátækrahverfin, braggana, Pólana og Selbúðirnar,
en Bjarnaborgin hefur fengið nútímalegra hlutverk. Að auki er ég of snobbuð til
að vilja rifja upp minningarnar frá Höfðaborginni meira en nauðsyn þykir og
hefi því aldrei tekið þátt í samkomum þeim sem börn sem ólust upp í Höfðaborg
hafa haldið til minningar um uppeldið á þessum stað. Mitt æskuheimili var barnaheimilið
að Reykjahlíð og þangað sæki ég góðu minningarnar.
Nú eru íslenskir gróðapungar komnir með ný viðskiptatækifæri, að reisa ný
gámahverfi sem samanstanda af 40 feta gámum og leigja þá fyrir 80 þúsund á
mánuði. Það á einfaldlega að byggja nýja Höfðaborg fyrir þá sem verr standa í
samfélaginu. Það eru þegar nokkur dæmi um slíkt. Vestur á Granda eru nokkrir
íbúðagámar fyrir fólk sem hefur glatað sjálfsvirðingunni í neyslu áfengis og
fíkniefna, en eftir gosið í Vestmannaeyjum voru einnig fengnir nokkrir svokallaðir
teleskopegámar frá Svíþjóð til bráðabirgðanota fyrir Eyjamenn. Þeir voru
hinsvegar allir fjarlægðir og seldir sem sumarbústaðir um 1980. Þeir voru
ágætir til bráðabirgða en alls ekki sem langtímabústaðir.
Það er búið að útrýma heilsuspillandi húsnæði í Reykjavík og það er engin
ástæða til að búa til ný hverfi af sama tagi. Slíkt skapar bara nýja
stéttaskiptingu. Það að fólk telji sig þurfa að búa í slíku húsnæði, einnig
herbergjum í iðnaðarhverfum er ekki ásættanlegt. Það segir okkur að vitlaust sé
gefið, að launin séu of lág.
Það er kominn tími til að íslensk alþýða rísi upp á afturlappirnar, reki
slyðruorðið af höndum sér og fari að sýna yfirvöldunum sinn raunverulega samtakamátt.
Hvar eru verkalýðsfélögin?
http://www.dv.is/neytendur/2014/3/7/haettan-er-fataekrahverfi-i-anda-braggahverfanna-1FXJ7T/
föstudagur, mars 07, 2014
7. mars 2014 - Laugarnesskóli
Síðustu dagana hefur mikið verið rætt um Laugarnesskóla og ætlað
barnaníð eins kennara þar eftir að út kom bókin Hljóðið í nóttinni eftir Björg
Guðrúnu Gísladóttur. Ég hefi enn ekki lesið bókina en mun örugglega gera það
enda er málið mér skylt.
Fleiri manns hafa tjáð sig um bókina og
umræðurnar, Ragnar Stefánsson minnist Skeggja Ásbjarnarsonar með hlýleika, en
Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri Reykjavíkur talaði mjög faglega um
Laugarnesskóla og þessa atburði eins og ábyrgum embættismanni sæmir þótt honum
hafi vafalaust verið vel kunnugt um ástandið sem fyrrum nemandi í skólanum allt
skyldunámið, en við vorum bekkjarfélagar í Laugarnesskóla í þrjá vetur að
þremur vikum undanskildum.
Já, að þremur vikum undanskildum! Þessar
þrjár vikur var ég nefnilega í tossabekk, kannski ekki versta tossabekk sem aðallega var ætlaður börnum úr Höfðaborginni, Múlakamp og Laugarneskamp, heldur
þeim næstversta og aðalkennarinn hét Skeggi Ásbjarnarson. Þó átti ég heima í
Höfðaborg 65.
Haustið 1963 yfirgaf ég barnaheimilið að Reykjahlíð í Mosfellssveit og fór til
foreldra minna í Reykjavík. Ég hafði þvælst á milli barnaheimila stóran hluta
bernskunnar á milli þess sem ég var hjá foreldrum mínum í Höfðaborginni, en frá
sjö ára aldri til tólf ára aldurs var ég á barnaheimilinu að Reykjahlíð við
gott atlæti og gekk í skóla að Brúarlandi og síðast í Varmárskóla. Í litlum
sveitaskóla var enginn munur gerður á börnum af hálfu kennara eða annarra
nemenda þótt vissulega hafi verið alvarleg togstreita á milli skólayfirvalda í
Mosfellssveit og stjórnenda barnaheimilisins sem greiddu engin gjöld til
skólans en vildu fá sömu þjónustu fyrir börnin og önnur börn í
Mosfellssveitinni fengu. Þarna var ég með góða kennara og hin börnin voru (og
eru enn í dag) góðir vinir mínir. Við þessar aðstæður fékk ég að njóta mín og
fékk góðar einkunnir í skóla og mér leið vel á barnaheimilinu.
Eftir að foreldrar mínir höfðu lofað bót og betrum varðandi uppeldið var ákveðið
að senda okkur, mig og bróður minn til Reykjavíkur og við fórum í Laugarnesskóla.
Ég var með góðar einkunnir frá Mosfellssveit og lenti því í næstversta bekk, en
einkunnir bróður míns voru eitthvað lakari enda var hann með lesblindu og hann
fór rakleiðis í tossabekkinn í sínum árgangi þar sem hann var það sem eftir
lifði skólagöngunnar.
Ég var þarna komin í C-bekk. Aðalkennarinn var Skeggi Ásbjarnarson. Hann kunni
að hrósa nemendum og á hverjum degi hrósaði hann mér í hástert fyrir færni
mína. Eftir tvær vikur var haldið skyndipróf í reikningi og ég fékk tíu í
einkunn enda prófið létt. Skeggi lýsti því þá yfir frammi fyrir öllum
nemendunum að ég ætti ekki heima í þessum bekk. Nokkrum dögum síðar var haldið
annað skyndipróf og aftur var ég langefst í bekknum. Daginn eftir var ég færð
yfir í A-bekk þar sem á meðal samnemenda minna var Ragnar Þorsteinsson
núverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.
Í A-bekk fékk ég nýjan hóp samnemenda og nýjan aðalkennara. Nýi aðalkennarinn
sparaði hrósið mun betur en Skeggi og eitt sinn er ég var lasin heima hélt hann
langa tölu yfir hópnum þess efnis að ég ætti ekkert heima í A-bekk frekar en
önnur börn úr Höfðaborginni. Hinir krakkarnir voru fljótir að segja mér hvað
hann hefði sagt daginn eftir er ég mætti aftur í skólann og það tókst aldrei
vinátta á milli mín og umrædds kennara, en það leystist er komið var í
gagnfræðaskóla og hinn ágæti kennari Ásmundur Kristjánsson tók við hópnum það sem
eftir lifði skólaskyldunnar.
Hvað Skeggja snertir, þá reyndist hann mér vel og aldrei sýndi hann af sér
neina óeðlilega hegðun í minn garð og ég mun ávallt minnast hans með hlýju
fyrir góðmennsku hans í minn garð, en um leið get ég ekki svarað fyrir það að
hann hafi hegðað sér öðruvísi gagnvart öðrum börnum. Þannig ætla ég ekki að ganga
út og mótmæla ónefndum félaga mínum sem hefur aðra og verri reynslu af Skeggja
en ég hafði.
Með flutningi mínum úr C-bekk í A-bekk var ég kannski hólpin, en samt ekki alveg
hólpin. Skólastofa D-bekksins, það er versta tossabekkjarins var við hliðina á
skólastofu A-bekkjarins. Við þurftum alltaf að stilla okkur upp fyrir framan
skólastofuna áður en gengið var inn og ég var þarna með börnum ritstjóra, alþingismanna
og lögfræðinga, en einnig alþýðufólks á borð við Ragnar síðar fræðslustjóra sem
er sonur járnsmiðs, en fyrir framan næstu kennslustofu voru félagar mínir úr
Höfðaborginni, börn ekkna, sjómanna,
drykkjusvola og hermanna. Og mér leið illa yfir þessu. Þarna var
stéttaskiptingin algjör. Þarna var búið að skipuleggja framtíðina fyrir börnin
og ég var oft eins og illa klemmdur hlutur á milli stétta, komin af
óregluheimili og átti stundum ekki fyrir nesti í skólanum en samt í besta bekk
með yfirstéttarbörnunum.
Ég ætla ekki að kenna Skeggja Ásbjarnarsyni um slæman aðbúnað minn í
Laugarnesskóla og engum öðrum kennurum þrátt fyrir óvild einstöku kennara í
minn garð. Það var skipulag Laugarnesskóla sem var til skammar á þeim tíma. Ég
vona að það hafi breyst til batnaðar og trúi því að svo sé með hæfileikafólki á
borð við Ragnar Þorsteinsson bekkjarfélaga minn í Laugarnesskóla sem nú er
fræðslustjóri Reykjavíkur.