Síðustu dagana hefur mikið verið rætt um Laugarnesskóla og ætlað
barnaníð eins kennara þar eftir að út kom bókin Hljóðið í nóttinni eftir Björg
Guðrúnu Gísladóttur. Ég hefi enn ekki lesið bókina en mun örugglega gera það
enda er málið mér skylt.
Fleiri manns hafa tjáð sig um bókina og
umræðurnar, Ragnar Stefánsson minnist Skeggja Ásbjarnarsonar með hlýleika, en
Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri Reykjavíkur talaði mjög faglega um
Laugarnesskóla og þessa atburði eins og ábyrgum embættismanni sæmir þótt honum
hafi vafalaust verið vel kunnugt um ástandið sem fyrrum nemandi í skólanum allt
skyldunámið, en við vorum bekkjarfélagar í Laugarnesskóla í þrjá vetur að
þremur vikum undanskildum.
Já, að þremur vikum undanskildum! Þessar
þrjár vikur var ég nefnilega í tossabekk, kannski ekki versta tossabekk sem aðallega var ætlaður börnum úr Höfðaborginni, Múlakamp og Laugarneskamp, heldur
þeim næstversta og aðalkennarinn hét Skeggi Ásbjarnarson. Þó átti ég heima í
Höfðaborg 65.
Haustið 1963 yfirgaf ég barnaheimilið að Reykjahlíð í Mosfellssveit og fór til
foreldra minna í Reykjavík. Ég hafði þvælst á milli barnaheimila stóran hluta
bernskunnar á milli þess sem ég var hjá foreldrum mínum í Höfðaborginni, en frá
sjö ára aldri til tólf ára aldurs var ég á barnaheimilinu að Reykjahlíð við
gott atlæti og gekk í skóla að Brúarlandi og síðast í Varmárskóla. Í litlum
sveitaskóla var enginn munur gerður á börnum af hálfu kennara eða annarra
nemenda þótt vissulega hafi verið alvarleg togstreita á milli skólayfirvalda í
Mosfellssveit og stjórnenda barnaheimilisins sem greiddu engin gjöld til
skólans en vildu fá sömu þjónustu fyrir börnin og önnur börn í
Mosfellssveitinni fengu. Þarna var ég með góða kennara og hin börnin voru (og
eru enn í dag) góðir vinir mínir. Við þessar aðstæður fékk ég að njóta mín og
fékk góðar einkunnir í skóla og mér leið vel á barnaheimilinu.
Eftir að foreldrar mínir höfðu lofað bót og betrum varðandi uppeldið var ákveðið
að senda okkur, mig og bróður minn til Reykjavíkur og við fórum í Laugarnesskóla.
Ég var með góðar einkunnir frá Mosfellssveit og lenti því í næstversta bekk, en
einkunnir bróður míns voru eitthvað lakari enda var hann með lesblindu og hann
fór rakleiðis í tossabekkinn í sínum árgangi þar sem hann var það sem eftir
lifði skólagöngunnar.
Ég var þarna komin í C-bekk. Aðalkennarinn var Skeggi Ásbjarnarson. Hann kunni
að hrósa nemendum og á hverjum degi hrósaði hann mér í hástert fyrir færni
mína. Eftir tvær vikur var haldið skyndipróf í reikningi og ég fékk tíu í
einkunn enda prófið létt. Skeggi lýsti því þá yfir frammi fyrir öllum
nemendunum að ég ætti ekki heima í þessum bekk. Nokkrum dögum síðar var haldið
annað skyndipróf og aftur var ég langefst í bekknum. Daginn eftir var ég færð
yfir í A-bekk þar sem á meðal samnemenda minna var Ragnar Þorsteinsson
núverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.
Í A-bekk fékk ég nýjan hóp samnemenda og nýjan aðalkennara. Nýi aðalkennarinn
sparaði hrósið mun betur en Skeggi og eitt sinn er ég var lasin heima hélt hann
langa tölu yfir hópnum þess efnis að ég ætti ekkert heima í A-bekk frekar en
önnur börn úr Höfðaborginni. Hinir krakkarnir voru fljótir að segja mér hvað
hann hefði sagt daginn eftir er ég mætti aftur í skólann og það tókst aldrei
vinátta á milli mín og umrædds kennara, en það leystist er komið var í
gagnfræðaskóla og hinn ágæti kennari Ásmundur Kristjánsson tók við hópnum það sem
eftir lifði skólaskyldunnar.
Hvað Skeggja snertir, þá reyndist hann mér vel og aldrei sýndi hann af sér
neina óeðlilega hegðun í minn garð og ég mun ávallt minnast hans með hlýju
fyrir góðmennsku hans í minn garð, en um leið get ég ekki svarað fyrir það að
hann hafi hegðað sér öðruvísi gagnvart öðrum börnum. Þannig ætla ég ekki að ganga
út og mótmæla ónefndum félaga mínum sem hefur aðra og verri reynslu af Skeggja
en ég hafði.
Með flutningi mínum úr C-bekk í A-bekk var ég kannski hólpin, en samt ekki alveg
hólpin. Skólastofa D-bekksins, það er versta tossabekkjarins var við hliðina á
skólastofu A-bekkjarins. Við þurftum alltaf að stilla okkur upp fyrir framan
skólastofuna áður en gengið var inn og ég var þarna með börnum ritstjóra, alþingismanna
og lögfræðinga, en einnig alþýðufólks á borð við Ragnar síðar fræðslustjóra sem
er sonur járnsmiðs, en fyrir framan næstu kennslustofu voru félagar mínir úr
Höfðaborginni, börn ekkna, sjómanna,
drykkjusvola og hermanna. Og mér leið illa yfir þessu. Þarna var
stéttaskiptingin algjör. Þarna var búið að skipuleggja framtíðina fyrir börnin
og ég var oft eins og illa klemmdur hlutur á milli stétta, komin af
óregluheimili og átti stundum ekki fyrir nesti í skólanum en samt í besta bekk
með yfirstéttarbörnunum.
Ég ætla ekki að kenna Skeggja Ásbjarnarsyni um slæman aðbúnað minn í
Laugarnesskóla og engum öðrum kennurum þrátt fyrir óvild einstöku kennara í
minn garð. Það var skipulag Laugarnesskóla sem var til skammar á þeim tíma. Ég
vona að það hafi breyst til batnaðar og trúi því að svo sé með hæfileikafólki á
borð við Ragnar Þorsteinsson bekkjarfélaga minn í Laugarnesskóla sem nú er
fræðslustjóri Reykjavíkur.
föstudagur, mars 07, 2014
7. mars 2014 - Laugarnesskóli
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli