Með umræðum undanfarinna daga hefur nokkuð verið fjallað um Höfðaborgina
sem sumsstaðar hefur verið kölluð versta slöm Reykjavíkur á sínum tíma sem er
nokkuð ýkt þó ekki vilji ég fara að gera veg Höfðaborgarinnar meiri en raunin
var. Höfðaborgin var hvorki betri né verri en mörg eldri hús í Reykjavík og mun
skárri en braggahverfin svo ekki sé talað um Selbúðirnar eða Pólana, en í
síðastnefndu húsaþyrpingunni voru sameiginlegir útikamrar til nota fyrir íbúana,
en það eru óþægilegar lýsingar á Pólunum í bók Sigurðar A. Magnússonar, Undir kalstjörnu.
Þá voru braggahverfin misjöfn að gæðum, bresku braggarnir mun verri en þeir
bandarísku. Það verður þó að minnast þess að Pólarnir voru rifnir um miðjan
sjöunda áratuginn en stærstu braggahverfin hurfu um svipað leyti eða eitthvað
fyrr sbr Trípolíkamp og Camp Knox um leið og ráðist var í stórfelldar
byggingaframkvæmdir í Vogahverfi, Álftamýri og víðar, síðar með
Breiðholtshverfum og Árbæjarhverfi.
Höfðaborgin samanstóð af 104 eins eða tveggja herbergja íbúðum. Minni íbúðirnar
voru 31 fermetri en þær stærri voru 39 fermetrar. Sjálf fæddist ég nokkurn
veginn þar sem Sparisjóður vélstjóra var síðar í 39 fermetra íbúð og við vorum
átta í heimili. Pabbi breytti lítilli geymslukompu í herbergi fyrir stelpurnar
þannig að það varð aðeins kynjaskipt, en risið nýtt sem geymsla. Húsin voru
kolakynt þar sem ekki þótti svara því að leggja hitaveitu í hús sem byggð höfðu
verið til bráðabirgða þegar fólksflutningarnir til Reykjavíkur voru sem mestir
í upphafi styrjaldarinnar en hverfið var rifið í lok sjöunda áratugarins eða
byrjun hins áttunda. Húsin voru illa einangruð og einfalt gler í gluggum, en
hver íbúð hafði lítinn garð á bakvið húsið en svo var sameiginlegt þvottahús
fyrir hverfið. Baðaðstaða var engin, einungis vaskur með köldu vatni á litlu salerninu,
en gömlu Sundlaugarnar nýttar þess betur. Foreldrar mínir voru með þeim síðustu
að yfirgefa Höfðaborgina 1970, en við systkinin vorum þá flest flutt í burtu
fyrir löngu.
Ég hefi oft hugsað til áranna í Höfðaborginni, fæ jafnvel enn martraðir þar sem
mér finnst ég vera föst á þessum stað, en það er óþarfi. Höfðaborgin er farin
og sömu sögu má segja um gömlu fátækrahverfin, braggana, Pólana og Selbúðirnar,
en Bjarnaborgin hefur fengið nútímalegra hlutverk. Að auki er ég of snobbuð til
að vilja rifja upp minningarnar frá Höfðaborginni meira en nauðsyn þykir og
hefi því aldrei tekið þátt í samkomum þeim sem börn sem ólust upp í Höfðaborg
hafa haldið til minningar um uppeldið á þessum stað. Mitt æskuheimili var barnaheimilið
að Reykjahlíð og þangað sæki ég góðu minningarnar.
Nú eru íslenskir gróðapungar komnir með ný viðskiptatækifæri, að reisa ný
gámahverfi sem samanstanda af 40 feta gámum og leigja þá fyrir 80 þúsund á
mánuði. Það á einfaldlega að byggja nýja Höfðaborg fyrir þá sem verr standa í
samfélaginu. Það eru þegar nokkur dæmi um slíkt. Vestur á Granda eru nokkrir
íbúðagámar fyrir fólk sem hefur glatað sjálfsvirðingunni í neyslu áfengis og
fíkniefna, en eftir gosið í Vestmannaeyjum voru einnig fengnir nokkrir svokallaðir
teleskopegámar frá Svíþjóð til bráðabirgðanota fyrir Eyjamenn. Þeir voru
hinsvegar allir fjarlægðir og seldir sem sumarbústaðir um 1980. Þeir voru
ágætir til bráðabirgða en alls ekki sem langtímabústaðir.
Það er búið að útrýma heilsuspillandi húsnæði í Reykjavík og það er engin
ástæða til að búa til ný hverfi af sama tagi. Slíkt skapar bara nýja
stéttaskiptingu. Það að fólk telji sig þurfa að búa í slíku húsnæði, einnig
herbergjum í iðnaðarhverfum er ekki ásættanlegt. Það segir okkur að vitlaust sé
gefið, að launin séu of lág.
Það er kominn tími til að íslensk alþýða rísi upp á afturlappirnar, reki
slyðruorðið af höndum sér og fari að sýna yfirvöldunum sinn raunverulega samtakamátt.
Hvar eru verkalýðsfélögin?
http://www.dv.is/neytendur/2014/3/7/haettan-er-fataekrahverfi-i-anda-braggahverfanna-1FXJ7T/
laugardagur, mars 08, 2014
8. mars 2014 - Ný Höfðaborg?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:23
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Vel mælt.
SvaraEyðaMikið rétt.
SvaraEyða