sunnudagur, júní 29, 2014

29. júní 2014 - Um greiðslumat


Fyrir áratug síðan fékk ég gert greiðslumat fyrir mig. Ég var þá með kannski 250.000 í útborguð laun á mánuði að meðaltali, lægst um 230.000 á mánuði og útkoman var sú að ég þyldi lán upp á tæpar 16 milljónir. Í framhaldi af því keypti ég íbúð og fékk rúmar 13 milljónir að láni. Síðan er áratugurinn senn liðinn. Síðan er komið eitt fjárhagslegt hrun í samfélaginu, verulegar skattahækkanir og talsverður aukakostnaður vegna viðhalds á blokkinni. Mig minnir að þegar ég keypti íbúðina væri áætlað að ég þyrfti að greiða um 110.000 á mánuði í afborganir, vexti, hússjóð og kostnað.  Þessi upphæð hefur vissulega hækkað talsvert og ég greiði sennilega um  125.000 á mánuði í gjöld af íbúðinni. Ég á samt íbúðina ennþá og enn ekki lent í vanskilum með hana þrátt fyrir hrunið, aukalegan viðhaldskostnað og eyðslufrekan og bilunargjarnan jeppa.

Nú heyri ég af ungri kennslukonu sem getur ekki keypt sér íbúð af því að hún er ekki með nema rúmlega 260.000 í útborguð laun á mánuði og samkvæmt greiðslumatinu hefur hún ekki efni á nema 20.000 króna greiðslum í íbúð á mánuði. Það finnst mér skrýtið. Samkvæmt greiðslumatinu á hún að eyða 74.131 krónu á mánuði í kostnað við ökutæki og 38.985 á mánuði í tómstundir. Það er aldeilis lúxuslíf sem henni er ætlað að lifa. Þegar búið er að ætla henni rándýran bílinn og tómstundirnar, eitthvað af fötum og kostnað við mat og hreinlæti á hún samt 90.000 krónur á mánuði til annarra nota eins og kostnað við íbúð. Eftir útreikning íbúðarlánasjóðs verður þessi upphæð að 20.000 á mánuði.

Ég skal játa það að 260.000 á mánuði eru engin ósköp, en það er samt óþarfi að ætla henni stóran jeppa og áskriftir að öllum sjónvarpsrásum sem einhverja nauðsyn. Kannski lætur hún sér Yaris eða Micru nægja fyrstu árin, en strætó eða reiðhjól til vara og sleppa áskrift að hundrað sjónvarpsrásum með innifalinni Stöð 2.

Mig minnir að ný ríkisstjórn hafi gert kröfur til banka um hertar lánareglur fljótlega eftir að hún komst til valda síðastliðið sumar auk þess að fella niður vaxtabæturnar í síðustu fjárlögum, en samt. Svo illa þenkjandi hefur  hún varla verið þótt slæm sé.

Eitt er þó ljóst. Það er vitlaust gefið í þessu samfélagi og launin eru alltof lág. Líka fyrir kennara sem fengu þó meiri launaleiðréttingu en sumar aðrar láglaunastéttir.    


fimmtudagur, júní 26, 2014

26. júní 2014 - Faðir minn


Það er dálítið seint að byrja að rita lofgjörð um föður sinn í dag þegar komin eru nærri 18 ár síðan hann lést. En samt á hann skilið nokkur orð frá mér í tilefni af því að í dag eru liðin 100 ár síðan hann fæddist í þennan heim vestur í Stykkishólmi.

Kristján Gunnar Hildiberg Jónsson fæddist 26. júní 1914 í Jóelshúsi við Skólastíg í Stykkishólmi, nokkurn veginn þar sem nú er nýleg viðbygging við Dvalarheimili aldraðra í Hólminum, sonur Jóns Hildiberg Sigurðssonar stýrimanns, bókara og síðast kaupmanns í Stykkishólmi og Sesselju Þorgrímsdóttur konu hans, húsmóður og síðar saumakonu eftir andlát eiginmannsins.

Hann var annað barn hjónanna, en elst var Unnur Hlíf fædd 1911.  Ekki átti fyrir föður mínum að liggja að alast upp í tryggð og faðmi foreldranna því faðir hans lést úr lungnabólgu 30. janúar 1916 einungis 37 ára gamall. Jóna Sigríður systir hans fæddist svo sex mánuðum eftir andlát föðurins, en árið 1920 átti föðuramma mín fjórða barn sitt, Sigurð (Didda Odds hafnsögumann) með Sören Valentínussyni, en lést sjálf tæplega 34 ára gömul 25. febrúar 1922.

Nokkru eftir andlát föður síns var pabbi sendur í fóstur til Vigfúsar Hjaltalín  í Brokey og var því af fjórðu kynslóð í röð sem ólst upp í eynni, en faðir hans ólst einnig upp hjá Kristínu Hákonardóttur móðurömmu sinni í Brokey eftir andlát kornungra foreldra sinna sem höfðu hafið búskap sinn að Fellsenda í Miðdölum en létust bæði á þrítugsaldri.

Sjórinn var ávallt hugðarefni pabba, enda var hann alinn upp á lítilli eyju og öll samskipti við nágranna voru með bátum. Hann hélt þó ungur suður, lærði einn vetur við Íþróttaskólann á Laugarvatni, þá um tvítugt, en varð fljótt matsveinn á línuveiðurum og togurum, meðal annars á Alden og Rifsnesi.  Vélstjórinn á Rifsnesinu sá aumur yfir umkomulausum ungum manninum, bauð honum heim í mat efst á Lokastíginn og þar með voru örlög hans ráðin, hann kynntist dóttur vélstjórans og þau bjuggu saman alla tíð eftir það, giftust og eignuðust sjö börn. Elstur var Jón Sigurður, fæddur 1941, Pétur Þorbjörn fæddur 1942 og látinn 2013, Arndís Hildiberg fædd 1944, óskírð „Anna“ fædd og dáin 1947, Sesselja fædd 1948, Steinar Jakob fæddur 1950 og loks ég sjálf, fædd 1951.

Pabbi fór í land, lærði málaraiðn og vann við iðnina á meðan aldur og heilsa entust honum. Hann var mjög listfengur, en fékk aldrei að njóta sín sem skyldi, fátæktarbaslið og ómegðin tóku völdin, síðar alkóhólisminn, en lengi voru handverk hans öllum til aðdáunar, ljósakrónur sem hann smíðaði, innskotsborð, jafnvel málað „veggfóður“ í barnaherberginu á bernskuheimilinu að Höfðaborg 65. Ekki fékk ég listrænu hæfileikana í fæðingargjöf, næstelsti bróðir minn fékk þá en hann er nú látinn, sonur minn fékk þá einnig og svo virðist sem að eldri sonardóttir mín njóti sömu hæfileika.  

Faðir minn lést 19. september 1996 og var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík 3. október sama ár, kirkjunni þar sem hann hafði löngu áður verið sérstaklega kallaður til að laga gyllingarnar  vegna alkunnrar vandvirkni sinnar.

Afkomendur föður míns eru fram að þessu orðin 45, þar af 42 sem enn eru á lífi, Okkar er að minnast hans fyrir allt hið góða sem hann gaf af sér, læra af mistökum hans og færa reynslu hans og minninguna til komandi kynslóða.

þriðjudagur, júní 17, 2014

17. júní 2014 - Afturhvarf til fordóma?


Fyrir nokkru hafði kona ein samband við mig. Hún hafði farið í gegnum leiðréttingarferli á kyni fyrir um áratug síðan en tilkynnti ekki um breytta hagi sína til Íslands fyrr en á síðasta ári, enda bjó hún og býr enn erlendis. Nú var kominn tími til að skipta um vinnu þar sem hún býr í Bandaríkjum Norður-Ameríku og launagreiðandinn vildi fá fæðingarvottorð þar sem takmarkað gagn er að Social Security Number í Bandaríkjunum. Hún óskaði því eftir fæðingarvottorði til Þjóðskrár á Íslandi og fékk. Neðst í fæðingarvottorðinu var eftirfarandi athugasemd skráð:

On 11.11.2013 (nafn og kennitala), had a new gender registered in the national registry. Her previously registered gender was male.

Þar sem vinkona mín býr í sjálfu Guðseiginlandi,  gat hún gleymt öllum atvinnuumsóknum með þvílíka ferilskrá frá Þjóðskrá Íslands og var ekki sátt við þetta svokallaða fæðingarvottorð og óskaði liðsinnis míns við að fá fram réttlæti í málinu. Eins og hún sagði sjálf, svona fæðingarvottorð eru einungis gefin út í Texas og Utah, en benti einnig á að í mörgum ríkjum Bandaríkjanna er óheimilt að gefa út fæðingarvottorð þar sem svo gróflega er gengið á persónuvernd einstaklinga. 

Þetta mál kom mér gjörsamlega á óvart. Ég er vel minnug frábærrar þjónustu Þjóðskrár er ég fór í gegnum mitt ferli á tíunda áratug síðustu aldar og þá minnist ég þess að hafa séð útgefin fæðingarvottorð árið 2002 þar sem engar slíkar athugasemdir voru hafðar frammi. Ég hafði því samband við aðila sem eru lögfróðir í mannréttindamálum og í framhaldinu lagði ég fram fyrirspurn hjá Persónuvernd, en þar sem þetta var fyrirspurn en ekki formleg kæra gátu þau lítið annað gert en að vísa í lagagreinar sem styrktu málstað vinkonu minnar og skoðana minna. Það er hinsvegar erfitt að reka mál frá Bandaríkjum Norður-Ameríku og því ákvað ég að sækja sjálf um fæðingarvottorð til að flýta málinu.

Það liðu sextán dagar og í millitíðinni fékk ég tölvuskeyti frá Þjóðskrá þar sem ég var hvött til að sækja um persónuvottorð fremur en fæðingarvottorð.  Ég svaraði því til að í mörgum ríkjum er krafist fæðingarvottorðs og ég vildi fá slíkt en minnti jafnframt á 8. tölulið 2. gr. laga nr 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga.  Enn liðu nokkrir dagar og einn daginn beið ég bréfberans í von um að fá umrætt fæðingarvottorð, en ekkert kom. Seinnihluta sama dags fékk ég tölvuskeyti frá deildarstjóra hjá Þjóðskrá sem reyndi að sannfæra mig um að ég hefði engin not fyrir fæðingarvottorð, hvort ég vildi ekki heldur fá persónuvottorð?

Þetta fór að verða þreytandi. Um leið skil ég þessar persónur vel, fulltrúann og yfirmann hennar. Báðar vilja þær sýna jákvæðni í garð hinsegin fólks en gera sér grein fyrir takmörkum sínum þar sem æðra yfirvald með fordóma ræður öllu, en ákvörðun minni var ekki hnikað og ég svaraði með kvörtun yfir hve langan tíma tæki að fá fæðingarvottorð frá Þjóðskrá (Vafalaust hafa þær stöllur hjá Þjóðskrá vitað til hvers ég ætlaði að nota fæðingarvottorðið).

Enn liðu nokkrir dagar áður en ég fékk fæðingarvottorðið í hendur. Í millitíðinni fékk ég skriflegt umboð frá vinkonu minni í Bandaríkjunum í ábyrgðarpósti og því var ekkert lengur til fyrirstöðu að kæra málið án þess að blanda nýju fæðingarvottorði í málið. Ég ákvað samt að bíða eftir mínu fæðingarvottorði sem reyndist innihalda samskonar klásúlu og vottorð vinkonu minnar. Með þessi tvö fæðingarvottorð að vopni fór ég til Persónuverndar og lagði fram formlega kvörtun vegna afgreiðslu Þjóðskrár á erindum okkar og er beðið svara frá Þjóðskrá eftir óskir Persónuverndar þar um.

Fáeinum dögum eftir að ég lagði inn kvörtunina fékk ég í hendur ljósrit af fæðingarvottorði annarrar vinkonu minnar sem er á leið í hjónaband í sumar. Sýslumaður hafði krafist þess að hún skilaði inn fæðingarvottorði og hún fékk sömu afgreiðslu og við hinar. Hún spurði til baka hvort persónuvottorð nægði fyrir umræddan sýslumann, en því gat starfsfólk Þjóðskrár ekki svarað og því var fæðingarvottorðið hið einasta sem gilti þrátt fyrir fyrri ummæli Þjóðskrár.

Ég ætla ekki að ásaka starfsfólk Þjóðskrár fyrir vafasöm vinnubrögð. Ég veit að þau eru öll af vilja gerð að leysa hvers manns vanda, og sjálf hefi ég mjög góða reynslu af Þjóðskrá eins og áður hefur komið fram, en það er einhver þeim æðri sem stýrir þessari stofnun. Sá aðili þarf að skoða stöðu sína gagnvart hinsegin fólki og sérstaklega gagnvart transfólki, en um leið gagnvart eigin stöðu sem nýr yfirmaður Þjóðskrár Íslands frá 2011.

Það breytir ekki því að ég tel notkun Þjóðskrár Íslands á fæðingarvottorðum brjóta á 8. kafla Mannréttindayfirlýsingar Evrópu sem Ísland er aðili að auk íslenskra laga nr 77/2000.  Þá veit ég að bæði Svíþjóð og Þýskaland eru með ákvæði i lögum sínum sem banna slíka notkun á viðkvæmum persónuupplýsingum í vottorðum að viðlagðri betrunarhúsvist.

Á þessari stundu veit ég ekki hver málalok verða af hálfu Persónuverndar og síðan Þjóðskrár, en ég er tilbúin til að fara með þetta mál alla leið ef þess gerist þörf, enda veit ég að Mannréttindadómstóll Evrópu mun ekki samþykkja slíka afgreiðslu mála sem Þjóðskrá hefur gert gagnvart íslensku transfólki frá árinu 2011.  

laugardagur, júní 14, 2014

14. júní 2014 - Músaveiðar og samviskubit.


Það var hringt dyrabjöllunni hjá mér um daginn. Nágrannakona mín hafði séð mús á svölunum hjá sér og hafði lokað öllu og bað um hjálp. Ég gat engu hjálpað enda með gesti og þyrfti að sinna þeim fyrst en skyldi athuga málið þegar þeir færu. Svo hélt ég áfram að tala við gestina sem sátu í stofunni hjá mér og kisurnar mínar nutu nærveru þeirra.

Þar sem ég var með opið út á svalir birtist músin allt í einu í svaladyrunum, kom inn í stofuna og horfði á mannsöfnuðinn. Horfði beint í augun á mér, síðan á gestina og kettina og sá að hún yrði örugglega ekki velkomin inn á þetta heimili, sneri við og þaut aftur út á svalirnar með tvær kisur á eftir sér. Í framhaldinu ákvað ég að loka svaladyrunum með kisur utandyra, en ég og gestirnir afgreiddum heimsmálin með hraði, þeir hurfu á brott án hræðslu við mýslu, en ég fór í Bykó og keypti músalímgildrur.

Þegar heim var komið var mikið fjör á svölunum. Músin hafði komið sér í felur undir timburpöllunum á svölunum og kettirnir að reyna að krafsa í hana ofan af pallinum. Ég losaði eina spýtuna í burtu og setti nokkrar límgildrur niður á milli banda og kom mér síðan inn og lokaði á eftir mér.

Klukkutíma síðar var eitt límspjaldið komið upp á pallinn og iðaði þar á hvolfi. Það fór ekkert á milli mála að það hafði náð í fórnarlamb, þ.e. ef hægt er að gefa lítilli mús lambsheiti  og fékk hún síðan náðarhöggið og fór með hraði til músahimna. Þetta var lítil og falleg húsamús sem aldrei hefði megnað að gera neinum neitt mein, sennilega ungi ef marka má stærðina og gáfnafarið sem fólst í að koma í heimsókn til mín og ég fékk örlítið samviskubit.



Daginn eftir var trépallurinn fjarlægður enda ljóst að úr því heilar mýs geta falið sig undir pallinum, má spyrja sig um önnur minni kvikindi eins og geitunga?

Næst vil ég þó frekar ná músunum lifandi svo unnt sé að sleppa þeim út aftur þar sem þær eiga betur heima.

föstudagur, júní 13, 2014

13. júní 2014 - Sjálfskipað píslarvætti


Ég hugsa aftur í tímann, um aldarfjórðung eða svo.  Allir voru vondir við mig, kannski ekki allir en ótrúlega margir, læknar,  embættismenn hins opinbera í tveimur ríkjum, almenningur og mér leið illa. Ekkert gekk eða rak í málum mínum og ég kom víðast hvar að lokuðum dyrum. Ég bar áhyggjur mínar á borð fyrir vini mína og fékk helling af samúð frá þeim flestum og ég vorkenndi sjálfri mér ennþá meira.  Ein vinkona mín var þó undantekningin. Öfugt við alla samúðina sem ég fékk frá hinum, þá stríddi hún mér og hæddist að sjálfsvorkunn minni:
„Hættu þessari sjálfsvorkunn þinni. Þú ert að verða eins og sjálfskipaður píslarvottur.“

Þetta var alveg rétt. Ég var orðin föst í píslarvættinu og á meðan ég sat föst í því gekk hvorki né rak í málum mínum hjá hinu opinbera.  Ég fór í naflaskoðun og fór að vinna með sjálfa mig, afneitaði píslarvættinu og allt fór að ganga betur.  Allsstaðar opnuðust dyr og ég lenti í að veita fólki í minni aðstöðu liðsinni í málum sínum og gerði svo í mörg ár á eftir.  Vissulega komu upp atvik og erfiðleikar en þetta voru vandamál til að leysa og sjaldnast óyfirstíganleg.

Í dag horfi ég á elsta stjórnmálaflokk Íslands fastan í sjálfskipuðu píslarvætti, píslarvætti sem var skapað af honum sjálfum með því að flokkurinn reyndi að kaupa sér atkvæði með því að biðla til rasista gegn minnihlutahóp í landinu.

Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.  Framsóknarflokkurinn fær enga samúð frá mér.