Það
var hringt dyrabjöllunni hjá mér um daginn. Nágrannakona mín hafði séð mús á
svölunum hjá sér og hafði lokað öllu og bað um hjálp. Ég gat engu hjálpað enda
með gesti og þyrfti að sinna þeim fyrst en skyldi athuga málið þegar þeir færu.
Svo hélt ég áfram að tala við gestina sem sátu í stofunni hjá mér og kisurnar
mínar nutu nærveru þeirra.
Þar sem ég var með opið út á svalir birtist músin allt í einu í svaladyrunum,
kom inn í stofuna og horfði á mannsöfnuðinn. Horfði beint í augun á mér, síðan
á gestina og kettina og sá að hún yrði örugglega ekki velkomin inn á þetta
heimili, sneri við og þaut aftur út á svalirnar með tvær kisur á eftir sér. Í
framhaldinu ákvað ég að loka svaladyrunum með kisur utandyra, en ég og
gestirnir afgreiddum heimsmálin með hraði, þeir hurfu á brott án hræðslu við
mýslu, en ég fór í Bykó og keypti músalímgildrur.
Þegar heim var komið var mikið fjör á svölunum. Músin hafði komið sér í felur
undir timburpöllunum á svölunum og kettirnir að reyna að krafsa í hana ofan af
pallinum. Ég losaði eina spýtuna í burtu og setti nokkrar límgildrur niður á
milli banda og kom mér síðan inn og lokaði á eftir mér.
Klukkutíma síðar var eitt límspjaldið komið upp á pallinn og iðaði þar á
hvolfi. Það fór ekkert á milli mála að það hafði náð í fórnarlamb, þ.e. ef hægt
er að gefa lítilli mús lambsheiti og fékk
hún síðan náðarhöggið og fór með hraði til músahimna. Þetta var lítil og falleg
húsamús sem aldrei hefði megnað að gera neinum neitt mein, sennilega ungi ef
marka má stærðina og gáfnafarið sem fólst í að koma í heimsókn til mín og ég fékk
örlítið samviskubit.
Daginn eftir var trépallurinn fjarlægður enda ljóst að úr því heilar mýs geta
falið sig undir pallinum, má spyrja sig um önnur minni kvikindi eins og
geitunga?
Næst vil ég þó frekar ná músunum lifandi svo unnt sé að sleppa þeim út aftur
þar sem þær eiga betur heima.
laugardagur, júní 14, 2014
14. júní 2014 - Músaveiðar og samviskubit.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:17
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli