þriðjudagur, júní 17, 2014

17. júní 2014 - Afturhvarf til fordóma?


Fyrir nokkru hafði kona ein samband við mig. Hún hafði farið í gegnum leiðréttingarferli á kyni fyrir um áratug síðan en tilkynnti ekki um breytta hagi sína til Íslands fyrr en á síðasta ári, enda bjó hún og býr enn erlendis. Nú var kominn tími til að skipta um vinnu þar sem hún býr í Bandaríkjum Norður-Ameríku og launagreiðandinn vildi fá fæðingarvottorð þar sem takmarkað gagn er að Social Security Number í Bandaríkjunum. Hún óskaði því eftir fæðingarvottorði til Þjóðskrár á Íslandi og fékk. Neðst í fæðingarvottorðinu var eftirfarandi athugasemd skráð:

On 11.11.2013 (nafn og kennitala), had a new gender registered in the national registry. Her previously registered gender was male.

Þar sem vinkona mín býr í sjálfu Guðseiginlandi,  gat hún gleymt öllum atvinnuumsóknum með þvílíka ferilskrá frá Þjóðskrá Íslands og var ekki sátt við þetta svokallaða fæðingarvottorð og óskaði liðsinnis míns við að fá fram réttlæti í málinu. Eins og hún sagði sjálf, svona fæðingarvottorð eru einungis gefin út í Texas og Utah, en benti einnig á að í mörgum ríkjum Bandaríkjanna er óheimilt að gefa út fæðingarvottorð þar sem svo gróflega er gengið á persónuvernd einstaklinga. 

Þetta mál kom mér gjörsamlega á óvart. Ég er vel minnug frábærrar þjónustu Þjóðskrár er ég fór í gegnum mitt ferli á tíunda áratug síðustu aldar og þá minnist ég þess að hafa séð útgefin fæðingarvottorð árið 2002 þar sem engar slíkar athugasemdir voru hafðar frammi. Ég hafði því samband við aðila sem eru lögfróðir í mannréttindamálum og í framhaldinu lagði ég fram fyrirspurn hjá Persónuvernd, en þar sem þetta var fyrirspurn en ekki formleg kæra gátu þau lítið annað gert en að vísa í lagagreinar sem styrktu málstað vinkonu minnar og skoðana minna. Það er hinsvegar erfitt að reka mál frá Bandaríkjum Norður-Ameríku og því ákvað ég að sækja sjálf um fæðingarvottorð til að flýta málinu.

Það liðu sextán dagar og í millitíðinni fékk ég tölvuskeyti frá Þjóðskrá þar sem ég var hvött til að sækja um persónuvottorð fremur en fæðingarvottorð.  Ég svaraði því til að í mörgum ríkjum er krafist fæðingarvottorðs og ég vildi fá slíkt en minnti jafnframt á 8. tölulið 2. gr. laga nr 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga.  Enn liðu nokkrir dagar og einn daginn beið ég bréfberans í von um að fá umrætt fæðingarvottorð, en ekkert kom. Seinnihluta sama dags fékk ég tölvuskeyti frá deildarstjóra hjá Þjóðskrá sem reyndi að sannfæra mig um að ég hefði engin not fyrir fæðingarvottorð, hvort ég vildi ekki heldur fá persónuvottorð?

Þetta fór að verða þreytandi. Um leið skil ég þessar persónur vel, fulltrúann og yfirmann hennar. Báðar vilja þær sýna jákvæðni í garð hinsegin fólks en gera sér grein fyrir takmörkum sínum þar sem æðra yfirvald með fordóma ræður öllu, en ákvörðun minni var ekki hnikað og ég svaraði með kvörtun yfir hve langan tíma tæki að fá fæðingarvottorð frá Þjóðskrá (Vafalaust hafa þær stöllur hjá Þjóðskrá vitað til hvers ég ætlaði að nota fæðingarvottorðið).

Enn liðu nokkrir dagar áður en ég fékk fæðingarvottorðið í hendur. Í millitíðinni fékk ég skriflegt umboð frá vinkonu minni í Bandaríkjunum í ábyrgðarpósti og því var ekkert lengur til fyrirstöðu að kæra málið án þess að blanda nýju fæðingarvottorði í málið. Ég ákvað samt að bíða eftir mínu fæðingarvottorði sem reyndist innihalda samskonar klásúlu og vottorð vinkonu minnar. Með þessi tvö fæðingarvottorð að vopni fór ég til Persónuverndar og lagði fram formlega kvörtun vegna afgreiðslu Þjóðskrár á erindum okkar og er beðið svara frá Þjóðskrá eftir óskir Persónuverndar þar um.

Fáeinum dögum eftir að ég lagði inn kvörtunina fékk ég í hendur ljósrit af fæðingarvottorði annarrar vinkonu minnar sem er á leið í hjónaband í sumar. Sýslumaður hafði krafist þess að hún skilaði inn fæðingarvottorði og hún fékk sömu afgreiðslu og við hinar. Hún spurði til baka hvort persónuvottorð nægði fyrir umræddan sýslumann, en því gat starfsfólk Þjóðskrár ekki svarað og því var fæðingarvottorðið hið einasta sem gilti þrátt fyrir fyrri ummæli Þjóðskrár.

Ég ætla ekki að ásaka starfsfólk Þjóðskrár fyrir vafasöm vinnubrögð. Ég veit að þau eru öll af vilja gerð að leysa hvers manns vanda, og sjálf hefi ég mjög góða reynslu af Þjóðskrá eins og áður hefur komið fram, en það er einhver þeim æðri sem stýrir þessari stofnun. Sá aðili þarf að skoða stöðu sína gagnvart hinsegin fólki og sérstaklega gagnvart transfólki, en um leið gagnvart eigin stöðu sem nýr yfirmaður Þjóðskrár Íslands frá 2011.

Það breytir ekki því að ég tel notkun Þjóðskrár Íslands á fæðingarvottorðum brjóta á 8. kafla Mannréttindayfirlýsingar Evrópu sem Ísland er aðili að auk íslenskra laga nr 77/2000.  Þá veit ég að bæði Svíþjóð og Þýskaland eru með ákvæði i lögum sínum sem banna slíka notkun á viðkvæmum persónuupplýsingum í vottorðum að viðlagðri betrunarhúsvist.

Á þessari stundu veit ég ekki hver málalok verða af hálfu Persónuverndar og síðan Þjóðskrár, en ég er tilbúin til að fara með þetta mál alla leið ef þess gerist þörf, enda veit ég að Mannréttindadómstóll Evrópu mun ekki samþykkja slíka afgreiðslu mála sem Þjóðskrá hefur gert gagnvart íslensku transfólki frá árinu 2011.  


0 ummæli:







Skrifa ummæli