Það strandaði skip við Austfirði á miðvikudagskvöldið, annað erlenda
skipið sem strandar við Íslandsstrendur á skömmum tíma. Ef þetta er ekki tilefni kenninga um vonda
útlenda sjómenn verð ég illa svikin. Af
hverju eru Íslendingar ekki á skipum sem eru í ferðum við Íslandsstrendur?
Ég fór að gamni mínu að skoða stöðu mála umhverfis Ísland þessa stundina.
Í Reykjavík er Dettifoss frá Antigua með íslenskri áhöfn. Á Grundartanga er Helgafell frá Færeyjum með
íslenska áhöfn og suður af Reykjanesi er Lagarfoss frá Antigua með íslenska
áhöfn. Þetta eru skipin með íslenskar áhafnir við Íslandsstrendur á miðnætti á
miðvikudagskvöldið þegar Green Freezer er fastur með afturendann uppi í fjöru á
Fáskrúðsfirði. Auk þeirra er Reykjafoss frá Gíbraltar í Sundahöfn en áhöfnin
þar er að mestu útlendingar. Í Straumsvík er Lowlands Sky frá Panama, á
Akureyri er Horst B frá Antigua og ekki má gleyma Maritime Prosperity frá
Panama í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði, sennilega að losa súrál eins og Lowlands
Sky. Blessunin hún Alma sem fór
hringferð um jörðina síðasta vetur með hvalkjöt til Japan er á Neskaupstað,
væntanlega að lesta frosinn fisk. Þá má
ekki gleyma því að Samskip Akrafell frá Antigua er enn í höfn fyrir austan,
illa laskað eftir strand. Það var í
föstum áætlanasiglingum milli Íslands og annarra landa rétt eins og Horst B,
Reykjafoss og Franscisca frá Hollandi sem er sunnan við Reykjanes með unnið ál
frá Straumsvík til Rotterdam. Sunnan við
Reykjanesi ð er einnig Wilson Caronte frá Antigua á leið frá Hafnarfirði til
Vlissingen. Fyrir austan land er einnig
frystiskipið Silver River nýfarið frá Þórshöfn á Langanesi á leið til
Vlissingen í Hollandi. Skipið var til skamms tíma undir stjórn Skagamannsins
Einars Vignis Einarssonar, en þetta er eitt þeirra skipa sem var smíðað fyrir
Eimskip-CTG í Noregi en sem félagið
missti í hruninu. Norröna frá Færeyjum er nýlega farin frá Seyðisfirði áleiðis til
heimahafnar og loks ber að nefna flutningaskipið Bulk Juliana frá Panama sem er
úti fyrir suðausturlandi á leið sinni frá Narvík í Noregi til Nýfundnalands. Þetta er sá floti flutningaskipa sem er nærri
Íslandsströndum á miðnætti á miðvikudagskvöld, þrjú skip með íslenskum áhöfnum,
fjögur önnur í föstum áætlunarsiglingum milli Íslands og annarra landa en önnur
skip í tilfallandi ferðum til og frá Íslandi.
Ég rifja upp í huganum þá tíma þegar Eimskip var með 26 skip í rekstri þar af
25 undir íslenskum fána og öll með íslenskum áhöfnum, Sambandið með nokkur
skip, sömuleiðis Hafskip, Nesskip, Ríkisskip, Víkurskip og fleiri. Þetta er
liðin tíð. Þá ætla ég ekki að halda því fram að þessi skipsströnd séu vondum útlendum
sjómönnum að kenna né fleiri skipsströnd eins og Wilson Muuga á sínum tíma. Það
eru einfaldlega engir íslenskir sjómenn lengur til staðar til að sigla skipunum
í strand.
Í dag eru sjö farskip með íslenskum áhöfnum, fimm hjá Eimskip, tvö hjá Samskip. Það gengur
illa að manna þessi skip réttindafólki. Ameríkuskipin eru mönnuð
útlendingum sem og skipin sem eru í
trampinu og það er ekki til íslenskur mannskapur til að manna þessi skip.
Íslendingarnir sigla ennþá á rjómanum af áætlunarsiglingunum, þ.e. á milli
Íslands, Bretlands og meginlands Evrópu en það er að verða liðin tíð. Margir áhafnarmeðlimir eru að komast á aldur
og það eru engir til að taka við af þeim. Íslenskir vélstjórar fara til Noregs
með 60% hærri laun og góð fríðindi þótt þeir búi áfram á Íslandi. Ungir menn sem byrja hjá skipafélögunum sjá
ruglið í launakjörunum og hætta fljótlega og fara til erlendra útgerða. Þeir bíða ekkert eftir atkvæðagreiðslum hjá félaginu um 2,8% launahækkun heldur greiða atkvæði með fótunum. Þeir
sem enn sigla hjá Eimskip eða Samskip eru í ástarsambandi við útgerðirnar og
geta ekki hugsað sér að fara til Noregs þrátt fyrir mun lakari kjör hér á
landi. Þeir eru bara svo fáir sem eftir eru og fækkar stöðugt.
Ætli ég megi ekki telja sjálfa mig í hópi þessara fáu vélstjóra sem enn eru ástarsambandi við
Eimskip þótt ég hafi ekki verið í föstu
starfi hjá félaginu um margra ára skeið. Af hreinni tryggð við Eimskip fagna ég
því þegar hringt er í mig og ég beðin um
fara eina og eina ferð með skipum félagsins. Ég mæti um borð og þeir sem
eru fyrir um borð eru venjulega gamlir félagar frá því á áttunda eða níunda
áratug síðustu aldar og verða þar oft fagnaðarfundir. Það er aldrei nýtt fólk um borð, bara gömlu
félagarnir og við minnumst þeirra sem eru farnir á eftirlaun eða yfir móðuna
miklu. Íslensk farmennska er að renna sitt skeið á enda.
Undanfarið hefi ég viðað að mér bókum um dönsk skipafélög, Mærsk, Lauritzen og
DFDS. Þegar ég horfi á gengi þessara skipafélaga í gegnum árin furða ég mig á
þeirri skammsýni sem réði ríkjum á Íslandi á níunda og tíunda áratug síðustu
aldar þegar stefnan var að flagga skipunum út og ráða útlendinga í störfin,
öfugt við það sem umrædd skipafélög gerðu. Þess vegna er íslensk farmennska að
líða undir lok. Það er hugsanlega of seint að bjarga henni .
fimmtudagur, september 18, 2014
18. september 2014 - Hugleiðing um farmennsku eftir strand.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli