Skömmu eftir miðnættið þann 28. september 1994 fórst Estonia (skömmu eftir klukkan 22.00 að kvöldi 27. september sé miðað við íslenskan tíma).
Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Ég var á næturvakt í orkuverinu þar sem ég vann í Stokkhólmi, fyrstu næturvaktinni eftir að hafa farið með ferjunni yfir til Eystrasaltslandanna þar sem ég ásamt nokkrum vinum mínum eyddum nokkrum góðum dögum í Lettlandi og Eistlandi áður en haldið var heim með gamalli rússneskri ferju. Þar sem ég var á ketilvaktinni var í nógu að snúast í umhirðu risastórra katlanna en eftir að hafa sinnt öllum verkefnum fór ég upp í stjórnstöð. Þar sátu menn þegjandi og horfðu á sjónvarpið. Enginn sagði neitt. Myndin í sjónvarpinu hlaut að hafa verið nýbúin því textaremsan rann eftir skjánum. Ég fór að horfa á textann og sá þá að þetta voru ekki lokaorð eftir kvikmynd, heldur textaremsa frá fréttastofu Sveriges television þar sem sagt var frá því allra nýjasta í Eystrasaltinu og vinnufélagarnir voru nánast miður sín af því að sjá þessar fréttir. Estonia hafði farist og allt að þúsund manns voru að berjast fyrir lífi sínu í köldum sjónum.
Dagana á eftir bárust í sífellu nýjar og nýjar fréttir af þessum hörmulega atburði, sumar sem sögðu frá því hvernig fólk hefði bjargast með naumindum. Erfiðast var þó að heyra í manni einum sem lýsti björgun sinni alveg miskunnarlaust, hvernig hann hefði vaðið áfram framhjá illa höldnu og slösuðu fólki og engu skeytt um aðra og komst með naumindum út á síðu hins sökkvandi skips og síðan í sjóinn þar sem honum var bjargað af þyrlu sem kom á vettvang. Aðspurður benti maðurinn á að fólkið sem hefði stoppað til að hjálpa öðrum hefði farist. Þetta var grimmur sannleikur. Það er erfitt að viðurkenna að þeir sem reyndu að hjálpa náunganum í neyð fórust flestir um leið og sumir þeir sem hikuðu ekki við að stíga á puttana á slösuðum samferðamönnum á leið sinni frá borði komust lifandi af.
Þetta langstærsta sjóslys í sögu Norðurlandanna á friðartímum hefur vissulega leitt til bættra öryggisreglna og bætts öryggis um borð og má í því sambandi benda á að á dögunum var sett sérstakt skilrúm á mitt bíladekkið á Herjólfi til að minnka líkurnar á stórslysi, vissulega mörgum árum seinna, en mikið öryggismál fyrir farþega og áhöfn skipsins, en slíkt skilrúm hefði örugglega seinkað því að Estonia legðist á hliðina og síðan sokkið.
Opinberar tölur um Estoniaslysið segja að 852 manns hafi farist en 137 komist af. Ýmsir hafa viljað véfengja þessar tölur, telja að mun fleiri hafi verið um borð og farist, en það er ekki mitt að vera með slíkar vangaveltur. Sjálf kannaðist ég lítillega við eina konu sem fórst með skipinu, en hún var nágranni minn og starfsmaður lögreglunnar í Jakobsberg norðvestan Stokkhólms þar sem ég bjó á þessum tíma. Ég hafði einmitt verið á löngu spjalli við hana um ferðir okkar til Eystrasaltslandanna nokkrum dögum áður, en hún fór með starfsfólki lögreglunnar í Stokkhólmsléni í ráðstefnuferð með Estonia og er enn ókomin úr þeirri ferð.
Ég hefi þekkt marga sem hafa farist við Íslandsstrendur og vissulega er sárt um örlög hver einasta manns sem ferst á sjó. Það sem gerir Estonia slysið öðru fremur átakanlegt er þó ekki endilega fjöldinn sem fórst með skipinu heldur það miskunnarleysi sem einkenndi slysið þar sem hetjurnar dóu.
0 ummæli:
Skrifa ummæli