laugardagur, janúar 30, 2016

30. janúar 2016 - Ljósmyndir


mbl.is/Omar

Á föstudaginn langa árið 2011 voru félagar í Samtökunum 78 fengnir til að lesa Passíusálmana í Grafarvogskirkju og ég tók þátt í upplestrinum. Þegar ég hóf lesturinn á þeim köflum sem mér höfðu verið úthlutaðir, veitti ég athygli ljósmyndara sem hegðaði sér allt öðruvísi en ég átti að venjast af ljósmyndurum. Hann virtist taka myndir úr öllum mögulegum áttum, lagðist jafnvel í gólfið til að finna út rétta sjónarhornið. Daginn eftir var þessi fallega mynd af mér í Morgunblaðinu, ein af bestu myndum sem hafa verið teknar af mér, ásamt reyndar mynd Evu Bjarkar af mér í gleðigöngunni tveimur árum síðar.Ég komst síðar að því að ljósmyndari Morgunblaðsins héti Ómar og hefi oft séð til hans eftir þetta, meðal annars þar sem hann óð út í Reykjavíkurtjörn í vaðstígvélum til að ná sem bestu sjónarhorni fyrir myndatökur við kertafleytinguna í minningu við kjarnorkuárásirnar í ágúst 1945.

Þessi tvö sem ég hefi nefnt hér að ofan eru mér fyrirmyndir þegar ég er að basla við að taka myndir. Ég átti ágæta myndavél af gerðinni Asahi Pentax fyrir fjórum áratugum, en fór illa með hana við tilraunir til brælumyndatökur og á endanum hætti hún að vinna eðlilega, fékk mér þá Koniku en hún hvarf mér við skilnað árið 1984 og lengi eftir það átti ég enga myndavél og fjölmörg tækifæri til góðra mynda fóru fyrir bí, þar með talin öll árin mín í Svíþjóð.

Snemma á nýrri öld eignaðist ég digital myndavél, litla vél og lélega þrátt fyrir hátt verð, eignaðist svo aðra vél árið 2006 af gerðinni Canon Powershot A620 og þar með fékk ég áhugann á ný og myndatökuáhuginn hófst fyrir alvöru. Árið 2009 þurfti ein vinkona mín að losa sig við gamla Canon EOS 400d myndavél með tveimur linsum og fleiru og ég var blönk. Fór samt í bankann og fékk lánað fyrir vélinni og keypti hana.

Nú sit ég hér heima með ágæta Canon EOS 70d, 50 mm macro linsu, 10-22 mm gleiðlinsu, 17-40 mm gæðalinsu, 18-135 mm standard linsu og loks 100-400 mm aðdráttarlinsu og vantar eiginlega bara eina góða 70-200 mm linsu til að fullkomna settið þar til ég fer yfir í fullframe vél sem verður hugsanlega þarnæsta skref á þróunarbrautinni á eftir 70-200 mm linsunni.

Þó er eitt vandamál sem ég bý við. Ég er hræðilega lélegur ljósmyndari! Mér hefur vissulega tekist að ná frábærum ljósmyndum, af könguló að sækja bráð sína, af hringjaranum í Notre Dame og af togara sem birtist á frímerki. Spurningin er þó sú hvort þar sé ekki góðum græjum að þakka fremur en hæfileikum ljósmyndarans.

Ég bara spyr?


þriðjudagur, janúar 26, 2016

26. janúar 2016 - Bjölluhljómur á Alþingi



Það voru fréttir í útvarpinu í dag og þar var sagt frá ræðu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingkonu VG um kjör ljósmæðra í umræðum um störf þingsins, en lítið heyrðist í henni vegna þess að forseti lamdi í bjölluna án afláts í því hljóðbroti sem sent var út í fréttum. Þegar ég fór að hlusta eftir orðum hennar á Alþingisvefnum höfðu liðið  rúmar þrjár mínútur frá því Rósa kom í pontu og þar til forseti hóf að lemja bjölluna af miklum móð, en ekki veit ég hvort það var af ókunnugleika hennar á störfum þingsins eða einhverju öðru sem hún hóf ekki ræðu sína fyrr en hún var búin að koma sér vel fyrir við púltið og alltaf tifaði klukkan á meðan. Það má því deila um það hvort bjallan hafi hljómað of snemma eða hvort forseti hefði átt að gefa nýrri þingkonu örlítið meira ráðrúm til að ljúka máli sínu, en mikið skelfing var leiðinlegt að hlusta á bjöllu forseta í útvarpinu enda heyrðist lítið af ræðunni á meðan.

Ég fór að velta fyrir mér. Hvað hefur þessi bjalla mikil áhrif á virðingu fólks fyrir Alþingi? Við vitum að virðingin er alls óásættanleg, að hluta til vegna málþófs en einnig að hluta vegna þess að þingfréttamenn virðast vera alveg einstaklega lagnir við að útvarpa hljóðbrotum af bjöllu forseta en síður af efnisatriðum. Ég ætla svo ekkert að tjá mig um litla virðingu margra þingmanna fyrir sjálfum sér og öðrum. Því virðist af útvarpsupptökum að ræða sem að þingforseti sé í fullu starfi við að berja í klukkuna sem af einhverjum ástæðum virðist staðsett rétt við hljóðnema fyrir útvarpssendingar.

Af hverju er þetta svona? Af hverju heyrist aldrei í bjöllunni hjá þingforseta í öðrum þingræðisríkjum?

Vissulega á ræðumanni að vera vel kunnugt um takmarkaðan ræðutíma sinn. Við ræðupúltið eru ljósmerki, grænt ljós þegar allt er innan marka, blikkandi grænt þegar leyfilegum ræðutíma fer að ljúka og síðan rautt ljós og stendur forseti þá upp og byrjar að slá í bjölluna. Sumir forsetar eru vissulega duglegri við bjölluna en aðrir. Er samt ekki einfaldara að forseti slái bara einu sinni í bjölluna sem merki um að ræðutíma sé lokið eða gefi eitthvað annað merki til ræðumanns og síðan lokað fyrir hljóðnemann einhverjum sekúndum síðar?

Bara hugmynd sem er vert að hugleiða við næstu endurskoðun þingskaparlaga. Ekki veitir af að bæta virðingu Alþingis.

laugardagur, janúar 23, 2016

23. janúar 2016 - Þorramatur með afleiðingum



Bóndadagurinn og upphaf þorra voru á föstudaginn og samkvæmt venju gerði mötuneyti Orkuveitunnar deginum góð skil og bauð upp á þorramat í hádeginu. Þótt ég hefði verið í vinnu á suðurlandi mestalla vikuna gætti ég þess vandlega að ljúka verkefnum mínum svo ég næði í þorramatinn í mötuneytinu og að sjálfsögðu át ég yfir mig. Eitthvað meira borðaði ég um eftirmiðdaginn, skrapp á kaffihús og bætti á mig vöfflu með rjóma og hafði ekki meiri lyst á mat þann daginn.

Um kvöldið fór ég að finna fyrir magaverkjum, gleypti eina létta parkódín og fór að sofa eftir að hafa létt á mér á Facebook og bloggi. Ég vaknaði um klukkan fjögur um nóttina og hafði þá mikla verki, ekki í lungum eða hjarta, fremur í magaopi. Ég var ekki viss um hvað væri að, hversu alvarlegt þetta væri og vissi ekki hvað ég ætti að gera af mér. Átti ég að renna á bráðavaktina eða hringja í sjúkrabíl? Verkurinn versnaði bara og ég sá fyrir mér jarðarför og dauða og djöful, en samt sannfærð um að þetta væri eitthvað smámál.

Ég reyndi þvinga fram uppsölur, en það gekk illa. Ég skreið aftur upp í, reyndi að beita sjóveikistellingunni en hún hafði ekkert að segja. Það skipti engu máli hvernig ég lá, verkurinn hélt áfram. Ég óð um gólf í kvölum mínum og svo fann ég að eitthvað var að losna, ég fór á salernið og náði að kasta upp. Upp úr mér komu fleiri fituklumpar að mér fannst. Eftir að hafa skolað munninn vel skreið ég aftur upp í og steinsofnaði.

Ég vaknaði aftur um morguninn þegar Margrét og Felix hljómuðu í útvarpsvekjaranum mínum og allir verkir farnir, prestar og jarðarfarir voru víðsfjarri. Ég dreif mig í heitt bað, greinilega enn vansvefta því ég þvoði mér um hárið, skolaði, setti hárnæringu í hárið en gleymdi að skola, því þegar ég var komin niður í bæ tveimur tímum síðar uppgötvaði ég að hárið var enn stíft af hárnæringunni. Ég náði allavega að sofna yfir ágætum Spaugstofuþætti og varð loks að horfa á hann á plúsnum.

Ég fer að halda að ég sé ekki lengur tvítug að aldri.  

23. janúar 2016 - Frímerki og tveir Sjálfstæðismenn


Eins og fáeinir vinir mínir vita safna ég frímerkjum. Ég hóf þessa söfnun sem barn að aldri, kannski níu til tíu ára, varð mjög áhugasöm nokkru síðar og hélt því áfram fram að hjónabandi, en þá tóku aðrar skyldur og væntingar völdin og frímerkjasafnið mitt lenti í kössum þar sem það var að þvælast í áratugi. Það komu vissulega þau tímabil að ég tók upp safnið, bætti aðeins við safnið og síðan fór það allt ofan í kassa að nýju.

Fyrir rúmum ellefu árum síðan flutti ég í núverandi húsnæði með nægt pláss fyrir áhugamálin, ættfræðina og frímerkin og síðan hefur hvorutveggja verið sjáanlegt þeim sem heimsækja mig. Þótt ættfræðin hafi verið meira áberandi vegna ágæts bókakosts sem fer ekki framhjá neinum sem kemur í heimsókn sem og trúnaðarstarfa á því sviði hefur aldrei verið djúpt niður á frímerkin og stolt monta ég mig af því að vanta minna en tuttugu frímerki til að eiga Ísland komplett frá upphafi árið 1873 til nútíma, kannski að nýjustu árgöngum frátöldum.

Auk frímerkja Íslands á ég sæmilegt póstkortasafn, en þá er krafan sú að merkin skuli hafa þvælst á milli pósthúsa með tilheyrandi frímerkjum og stimplum og helst orðin gömul þó með þeirri undantekningu sem kallast skip. Helsti dýrgripurinn minn á því sviði er gamalt póstkort sem sent var frá Portúgal til náttúrufræðings sem starfaði í Barbaríinu í lok nítjándu aldar því hvað er merkilegra fyrir Íslendinga en sjálft Barbaríið sem í dag heitir Lýbía.

Á fimmtudagskvöldið var fundur í Félagi frímerkjasafnara þar sem kynntur var hluti af miklu frímerkjasafni eins þekktasta frímerkjasafnara Íslands, Indriða heitins Pálssonar forstjóra og stjórnarformanns Eimskipafélagsins, en safn hans er á leið á uppboð eftir andlát hans og er safnið metið á marga tugi milljóna. Eins og venjan er á félagsfundum Félags frímerkjasafnara enda fundirnir með frímerkjauppboði og þá var stór hluti frímerkjasafns annars þekkts Íslendings boðinn upp. Þar var um að ræða Matthías Bjarnason bóksala, alþingismann til 32 ára og ráðherra í fleiri ríkisstjórnum, en hann lést fyrir tæpum tveimur árum.

Ég bauð í hluta safnsins og fékk eitthvað af safninu, aðallega afklippinga og þess háttar, fór með þetta heim og hóf að grúska í safninu á föstudagskvöldi. Skyndilega fann ég fyrir manneskunni Matthíasi Bjarnasyni.

Eins og gefur að skilja vorum við Matthías aldrei samherjar í pólitík, þvert á móti. Ég var lengi ósátt við embættisverk hans, sjálf lengst til vinstri í pólitík og háði baráttu gegn verkum hans eins og bráðabirgðalögunum frá 6. september 1975 og fylltist heift þegar ég var á þingpöllum að fylgjast með umræðum og Matthías tilkynnti þingheimi að hann hefði ekki tíma fyrir þessar umræður, hann þyrfti að fara upp í sjónvarp í viðtal.

Þar sem ég fór í gegnum fleiri kassa af frímerkjagögnum fann ég blaðsnepil þar sem spurningar fréttamanns voru til ráðherra og allt í einu skynjaði ég manneskjuna Matthías Bjarnason og ég sá fyrir mér brosandi ritarann í ráðuneytinu sem rétti frímerkjasafnaranum og ráðherranum umslag með afklipptum frímerkjum því slík umslög voru mörg í þessu safni. Þá fer ekkert á milli mála að Matthías dundaði sér við að flokka afklippurnar og skráði vandlega með sinni fallegu rithönd á umslögin sem geymdu frímerkin númer frímerkjanna, útgáfudag og tilefni útgáfunnar.

Þarna voru mörg frímerkt umslög til Matthíasar Bjarnasonar, til alþingismannsins Matthíasar, til ráðherrans Matthíasar og til persónunnar Matthíasar Bjarnasonar, Norðurdal í Trostansfirði. Í dag sit ég uppi með tvö kíló af afklipptum frímerkum flokkuðum af Matthíasi Bjarnasyni og fjögur kíló að auki af óflokkuðum afklipptum frímerkjum auk mikils safns umslaga.

Þótt ég hafi alla tíð verið pólitískur andstæðingur Matthíasar Bjarnasonar er afstaða mín gagnvart honum gjörbreytt. Allt í einu er manneskjan Matthías Bjarnason orðinn vinur minn í gegnum frímerkin sín löngu eftir andlátið.

miðvikudagur, janúar 13, 2016

13. janúar 2016 - Tóbaksmenning



Kunningi minn, skipstjóri í Vestmannaeyjum, hætti að taka í nefið um áramótin. Ég get vel skilið tilfinningar hans dagana á eftir og skil vel að hann skyldi hafa fallið á þrettándanum og sló tóbaksbindindinu á frest.

Þótt liðin séu meira en fimmtán ár síðan ég hætti að reykja man ég enn hve erfitt það var að hætta og margar tilraunir gerðar til að hætta áður en það tókst að lokum um aldamótin. Það má segja að líf mitt snérist um tóbak, enda reykti ég að meðaltali 30 sígarettur á dag í þrjátíu ár. Það að hætta var þó nánast barnaleikur samanborið við allar þær aðstæður sem ég lenti í þar sem ekki mátti reykja. Ég var að sjálfsögðu löngu hætt að fara í kvikmyndahús þar sem ekki mátti reykja og það var sem martröð að fara með flugi á milli landa eftir að bannað var að reykja í áætlunarflugi. Þá gætti ég þess að tryggja mér sæti sem næst útgöngudyrum til að styttra væri að komast úr vélinni og á reyksvæði flugvallar eða út úr flugstöðinni í sama tilgangi. Allt frá því komið var inn í flugvélina og þar til farið var úr henni var sem víti, mér fannst allir vera ömurlegir og leiðinlegir og vond fýla af þeim og ég varð þeirri stund fegnust er dyrnar opnuðust og ég ruddist framhjá öllum út úr vélinni til að komast á næsta reyksvæði.

Ég er auðvitað löngu frelsuð, hætt að hugsa um tóbakið daglega og get ekki annað en brosað í laumi ef ég er með gesti sem eru í dag svo kurteisir að þeir biðja um að fá að fara út á svalir til að reykja og engum dettur lengur til hugar að taka upp sígarettuna og kveikja í henni án þess að biðja um leyfi þótt það sé utan míns umráðasvæðis. Þá eru flugferðir orðnar að hinnu bestu skemmtun þegar hægt er að njóta útsýnis og þjónustu og fylgjast með gangi vélarinnar allt frá flugtaki til lendingar. Þrátt fyrir þetta eiga reykjandi flugfarþegar þó enn alla mína samúð.

Ein vinkona mín var að fara til vesturstrandar Bandaríkjanna með flugi og ég skutlaði henni á flugvöllinn. Hún er frekar óvön flugstöðvum og þekkir ekki vel aðstæður á Keflavíkurflugvelli. Á leiðinni til Keflavíkur bað hún mig lengstra orða gefa sér smátíma til að fá sér smók áður en farið væri inn í flugstöðina. Allt í lagi, sagði ég og svo komum við á flugvöllinn, tókum  töskurnar hennar úr bílnum og við fórum beint inn þar sem ég var búin að bjóðast til að vera henni til aðstoðar við innritunina. Tilhlökkunin var mikil og ég kvaddi hana og hélt heim á leið.

Þar sem ég ók eftir Reykjanesbrautinni og komin langleiðina til Reykjavíkur mundi ég allt í einu eftir því að vinkona mín hafði ekki fengið síðasta smókinn sinn við flugstöðina. Uppfull samviskubits lagði ég bílnum utan við veg, hringdi í hana og gaf henni leiðbeiningar um hvernig hún kæmist inn á reykherbergi í flugstöðinni áður en farið yrði í loftið. Hún tók leiðbeiningunum feginsamlega og ég losnaði við samviskubitið.

Mikið er nú gott að vera hætt að draga þennan tóbaksdjöful á eftir sér.