laugardagur, janúar 23, 2016

23. janúar 2016 - Frímerki og tveir Sjálfstæðismenn


Eins og fáeinir vinir mínir vita safna ég frímerkjum. Ég hóf þessa söfnun sem barn að aldri, kannski níu til tíu ára, varð mjög áhugasöm nokkru síðar og hélt því áfram fram að hjónabandi, en þá tóku aðrar skyldur og væntingar völdin og frímerkjasafnið mitt lenti í kössum þar sem það var að þvælast í áratugi. Það komu vissulega þau tímabil að ég tók upp safnið, bætti aðeins við safnið og síðan fór það allt ofan í kassa að nýju.

Fyrir rúmum ellefu árum síðan flutti ég í núverandi húsnæði með nægt pláss fyrir áhugamálin, ættfræðina og frímerkin og síðan hefur hvorutveggja verið sjáanlegt þeim sem heimsækja mig. Þótt ættfræðin hafi verið meira áberandi vegna ágæts bókakosts sem fer ekki framhjá neinum sem kemur í heimsókn sem og trúnaðarstarfa á því sviði hefur aldrei verið djúpt niður á frímerkin og stolt monta ég mig af því að vanta minna en tuttugu frímerki til að eiga Ísland komplett frá upphafi árið 1873 til nútíma, kannski að nýjustu árgöngum frátöldum.

Auk frímerkja Íslands á ég sæmilegt póstkortasafn, en þá er krafan sú að merkin skuli hafa þvælst á milli pósthúsa með tilheyrandi frímerkjum og stimplum og helst orðin gömul þó með þeirri undantekningu sem kallast skip. Helsti dýrgripurinn minn á því sviði er gamalt póstkort sem sent var frá Portúgal til náttúrufræðings sem starfaði í Barbaríinu í lok nítjándu aldar því hvað er merkilegra fyrir Íslendinga en sjálft Barbaríið sem í dag heitir Lýbía.

Á fimmtudagskvöldið var fundur í Félagi frímerkjasafnara þar sem kynntur var hluti af miklu frímerkjasafni eins þekktasta frímerkjasafnara Íslands, Indriða heitins Pálssonar forstjóra og stjórnarformanns Eimskipafélagsins, en safn hans er á leið á uppboð eftir andlát hans og er safnið metið á marga tugi milljóna. Eins og venjan er á félagsfundum Félags frímerkjasafnara enda fundirnir með frímerkjauppboði og þá var stór hluti frímerkjasafns annars þekkts Íslendings boðinn upp. Þar var um að ræða Matthías Bjarnason bóksala, alþingismann til 32 ára og ráðherra í fleiri ríkisstjórnum, en hann lést fyrir tæpum tveimur árum.

Ég bauð í hluta safnsins og fékk eitthvað af safninu, aðallega afklippinga og þess háttar, fór með þetta heim og hóf að grúska í safninu á föstudagskvöldi. Skyndilega fann ég fyrir manneskunni Matthíasi Bjarnasyni.

Eins og gefur að skilja vorum við Matthías aldrei samherjar í pólitík, þvert á móti. Ég var lengi ósátt við embættisverk hans, sjálf lengst til vinstri í pólitík og háði baráttu gegn verkum hans eins og bráðabirgðalögunum frá 6. september 1975 og fylltist heift þegar ég var á þingpöllum að fylgjast með umræðum og Matthías tilkynnti þingheimi að hann hefði ekki tíma fyrir þessar umræður, hann þyrfti að fara upp í sjónvarp í viðtal.

Þar sem ég fór í gegnum fleiri kassa af frímerkjagögnum fann ég blaðsnepil þar sem spurningar fréttamanns voru til ráðherra og allt í einu skynjaði ég manneskjuna Matthías Bjarnason og ég sá fyrir mér brosandi ritarann í ráðuneytinu sem rétti frímerkjasafnaranum og ráðherranum umslag með afklipptum frímerkjum því slík umslög voru mörg í þessu safni. Þá fer ekkert á milli mála að Matthías dundaði sér við að flokka afklippurnar og skráði vandlega með sinni fallegu rithönd á umslögin sem geymdu frímerkin númer frímerkjanna, útgáfudag og tilefni útgáfunnar.

Þarna voru mörg frímerkt umslög til Matthíasar Bjarnasonar, til alþingismannsins Matthíasar, til ráðherrans Matthíasar og til persónunnar Matthíasar Bjarnasonar, Norðurdal í Trostansfirði. Í dag sit ég uppi með tvö kíló af afklipptum frímerkum flokkuðum af Matthíasi Bjarnasyni og fjögur kíló að auki af óflokkuðum afklipptum frímerkjum auk mikils safns umslaga.

Þótt ég hafi alla tíð verið pólitískur andstæðingur Matthíasar Bjarnasonar er afstaða mín gagnvart honum gjörbreytt. Allt í einu er manneskjan Matthías Bjarnason orðinn vinur minn í gegnum frímerkin sín löngu eftir andlátið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli