Talsverðar umræður hafa átt sér stað í fjölmiðlum núna eftir áramótin
eftir að Reykjavíkurborg fækkaði losunardögum á almennu sorpi úr einu sinni á
tíu daga fresti í einu sinni á fjórtán daga fresti, bjóða upp á plasttunnu,
væntanlega gegn gjaldi og þess háttar óáran.
Aðspurður sagði Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi á Stöð 2 að þetta væri kerfi
sem umbunar þeim sem eru duglegir að flokka. Ég er honum ósammála.
Þegar ég flutti í núverandi húsnæði, blokk í Hraunbænum þar sem eru átta íbúðir
í stigagangi, voru sex gráar tunnur frá Reykjavíkurborg í ruslageymslunni og
þær losaðar vikulega. Um tveimur árum síðar byrjaði ein gráa tunnan að leka og
við ákváðum þá, í stað þess að fá nýja gráa tunnu, að taka inn eina
endurvinnslutunnu frá Gámaþjónustunni. Nokkru síðar fór önnur tunna að leka og sökum
góðrar reynslu af fyrri endurvinnslutunnu, skiptum við þeirri tunnu einnig út
fyrir endurvinnslutunnu. Þetta gerði ekkert til því þótt gráu tunnunum fækkaði
um tvær, voru fjórar gráar tunnur nægilegar fyrir vikulega losun. Að auki
bættum við sjöundu tunnunni við með því að taka inn eina bláa tunnu fyrir
pappír um leið og sú þjónusta bauðst.
Þetta gekk ljómandi vel, einungis á stórhátíðum eins og jólum safnaðist fyrir
svo mikið sorp að allar gráu tunnurnar fylltust. Að vísu voru
endurvinnslutunnurnar einungis losaðar einu sinni í mánuði, en með því að stýra
mesta pappírnum í bláu tunnuna gekk þetta skammlaust fyrir sig og gerir enn.
Einn daginn kom Reykjavíkurborg og sagði. Nú losum við bara á tíu daga fresti.
Það þýddi um leið að fjórar gráar tunnur eru næstum alltaf fullar þegar kemur að
losun þrátt fyrir flokkun íbúanna. Einhvern tókst það oftast nær, þurftum
reyndar að fara stöku sinnum með aukapappír út í grenndargám eða bíða með að
fara með endurvinnsluruslið í ruslageymsluna þar til búið væri að losa eða
setja ruslið í ruslapoka ofan á viðkomandi tunnu, endurvinnslu-, gráa-, eða
bláa- eftir atvikum.
Nú hefur verið tilkynnt að gráu tunnurnar verði einungis losaðar á tveggja
vikna fresti. „Þetta er kerfi sem umbunar þeim sem eru duglegir að flokka“,
sagði borgarfulltrúinn. Ég lít á þetta sem refsingu fyrir að hafa flokkað í
mörg ár.
Víða á landsbyggðinni hefur lífrænt rusl verið flokkað í mörg ár. Ekki í
Reykjavík. Þegar áðurnefndur borgarfulltrúi var spurður um slíkt síðastliðið
sumar sagði hann að ekki yrði byrjað á slíku fyrr en 2019. Af hverju þarf
Reykjavík að vera svona langt á eftir landsbyggðinni í sorphirðu?
Ég segi stundum í hálfgerðu glensi að ég vilji færa hreppamörk
Reykjavíkurhrepps og Mosfellshrepps til þess sem mörkin voru fyrir 1923 (eða
var það 1921). Eftir því sem maður sér betur skammsýni borgarfulltrúanna sem flestir
búa í 101 Reykjavík, verð ég þess sannfærðari að þetta er ágætis hugmynd og
ætti að komast til framkvæmda hið fyrsta.
þriðjudagur, janúar 05, 2016
5. janúar 2016 - Um sorphirðu í Reykjavík
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli