laugardagur, febrúar 20, 2016

20. febrúar 2016 - Risagámaskip



©marinetraffic.com
Í byrjun febrúar var sagt frá því í fréttum að kínverska gámaskipið CSCL Indian Ocean hefði strandað á sandi á Elbunni skammt fyrir neðan Hamborg. Þetta þótti talsverð frétt því skipið er ásamt fjórum systurskipum í hópi stærstu gámaskipa í heimi og getur lestað 19100 gámaeiningar, aðeins minna en MSC Oscar og fimm systurskip hans en stærra en Triple-E gerðin hjá Mærsk. Öll þessi skip eru reyndar svipuð að lengd og breidd , en einungis meiri djúprista skilur á milli stærða þeirra. Eftir sex daga tókst að losa skipið með hjálp fjölda dráttarbáta og gat það haldið för sinni áfram enda nánast óskemmt eftir baráttuna við sandinn. Fyrir viku síðan strandaði annað stórt gámaskip, í þetta sinn utan við Southampton í Englandi. Þar var um að ræða skipið APL Vanda sem skráð er í Singapore en í eigu American President Lines. Það skip sem náðist fljótlega út aftur án skemmda er nokkru minna en CSCL Indian Ocean eða 366 metrar á lengd og um 51 metrar á breidd og lestar aðeins 13892 gámaeiningar eða nífalt það sem Goðafoss og Dettifoss lesta af gámum.

©marinetraffic.com

Það er erfitt fyrir leikmenn að átta sig á stærð þessara risastóru gámaskipa, en í dag eru um 60 skip í rekstri sem teljast vera Post-NewPanamax og þarafleiðandi of stór til að komast í gegnum Panamaskurðinn eftir stækkun hans í byrjun næsta árs, en þessi skip eru 390 til 400 metrar á lengd og 54 til 60 metrar á breidd, en um 180 skip eru að auki í rekstri sem teljast vera NewPanamax að stærð, eða um 366 metrar á lengd og skrokkbreiddin um 49 metrar.
Stærstu skipin eru því um fjórir fótboltavellir að lengd og breidd eða svo tekið sé mið af aðstæðum í Reykjavík, ef eitt slíkt skip sem sett yrði niður á Laugaveginn í Reykjavík, væri þannig að stefnið yrði við Klapparstíg, yrði skuturinn við Vitastíg, en breidd skipanna væri eins og á milli Laugavegs og Hverfisgötu. Hæðin að meðtöldum yfirbyggingum skipanna væri næstum eins og Hallgrímskirkja eða rúmir 70 metrar.

Samanlagt vélaafl þessara skipa eru frá 60 til 80 MW. eða um 80 til 110 þúsund hestöfl

Ég fór að velta fyrir mér öryggi þessara skipa. Ég hefi séð myndir sem teknar voru á dekkinu á Skagen Mærsk, 347 metra löngu skipi sem lestar allt að 9500 gámaeiningar. Skipið er í brælu og sést ágætlega hvernig það vindur upp á sig þegar sjóirnir lenda á því. Það er í reynd ótrúlegt að þessi risaskip skuli ekki hreinlega liðast í sundur við slík átök, en við verðum að treysta því að skipaverkfræðingarnir viti hvað þeir eru að gera. Reyndar er vitað um tilfelli þar sem gámaskip liðaðist í sundur og sökk. Þar er um að ræða gámaskipið MOL Comfort skráð í Nassau og smíðað 2008 í Japan, 317 metrar á lengd og lestaði sem mest 8540 gámaeiningar. Skipið var á leið frá Singapore til Jeddah með rúmar 7000 gámaeiningar um borð sumarið 2013 er það brotnaði í sundur um 200 sjómílum frá ströndum Yemen og sukku báðir hlutarnir nokkru síðar þrátt fyrir tilraunir til að draga þá að landi. Sem betur fer varð mannbjörg, en hversu mikil verðmæti fóru þar forgörðum?

©vesselfinder.com
Einhverntímann sá ég tölur um verðmæti farms í fulllestuðu Triple-E skipi og þar var talan um 100 milljarðar króna. Þegar haft er í huga að Post-NewPanamamax gámaskipin eru orðin um 60 og skip sem lesta yfir 12500 gámaeiningar eru orðin um 240 er ekki lengur spurning um hvort, heldur hvenær slíkt skip ferst með öllum farmi.

Þessar voru vangaveltur mínar meðan á útsendingu Söngvakeppni sjónvarpsins stóð á laugardagskvöldi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli