Allt frá því á eftirmiðdaginn 17. júní loga bloggheimar af hrifningu á manni sem missti húsið sitt á uppboði. Hann mætti síðan með gröfu að húsinu, reif það að stærstum hluta, gróf gröf sem hann henti bílnum sínum ofaní og fór svo í burtu. Þetta kallar fólk hetjuskap. Ekki ég.
Um leið og hamarinn sló, var húsið ekki lengur í eigu mannsins sem hafði átt það, heldur bankans sem bauð í það. Með því að rífa húsið, er maðurinn að vinna skemmdarverk á eigum annarra og mun því þurfa að sitja af sér hæfilega refsingu fyrir skemmdarverk og hugsanlega tryggingarsvik, þ.e. ef húsið er tryggt. Hann er því ekki einvörðungu að tvöfalda skuldir sínar, heldur er hann einnig að kalla yfir sig refsingu í samræmi við hegningarlög. Hann á því enn síður viðreisnar von í framtíðinni með skemmdarverkin á samviskunni.
Það er þó annað verra sem hann gerir. Skemmdarverk hans gera það að verkum að ekki er hægt að treysta því að fólk sem missir húsnæði sitt á uppboð, geti búið áfram í húsnæðinu eftir að hamarinn sló. Þeir sem eignast hús á uppboði munu því í vaxandi mæli gera þá kröfu, að húsnæði verði rýmd þegar í stað og íbúarnir bornir út. Það er ekki neinum til fagnaðar.
Þeir aðilar sem lenda í slíku geta því hugsað manninum á Álftanesi þegjandi þörfina.
miðvikudagur, júní 17, 2009
18. júní 2009 - Að rífa hús annarra!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:28
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli