fimmtudagur, júní 18, 2009

19. júní 2009 - Hvalkjöt!

Við vorum í slipp á Akureyri og á meðan borðuðum við gjarnan í mötuneyti Slippfélagsins í hádeginu. Einn daginn hafði einhver okkar rekið augun í að það yrði hrossakjöt í matinn í hádeginu. Vitandi að skipstjórinn okkar borðaði ekki hrossakjöt, fórum við um borð með þau tíðindi til hans að dýrindis hvalkjöt yrði á boðstólum í hádeginu.

Svo kom hádegi og við slöfruðum í okkur hvalkjötinu, líka skipstjórinn, og engum varð meint af fremur en allar aldir áður.

Einum eða tveimur dögum síðar varð einhver svo kvikindislegur að viðurkenna fyrir skipstjóranum að við hefðum skrökvað að honum. Eftir það fór hann sjálfur upp í mötuneyti að athuga hvað væri á matseðlinum.

Nokkrum dögum síðar hitti svo skemmtilega á að hvalkjöt var á matseðli dagsins. Við mættum að sjálfsögðu í mat að venju nema skipstjórinn sem borðaði ekki þetta helvítis hrossakjöt sem væri á boðstólum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli