Í vor var ég orðin svo leið á neikvæðum athugasemdum við bloggfærslur mínar að ég ákvað að taka mér góða hvíld frá bloggi og þar til rynni af fólki mesta reiðin vegna mála sem íslenska þjóðin ræður ekki við að breyta í verulegum atriðum. Ég fann að ef ég ætlaði ekki að missa mig í hamagangi við að mótmæla öllu ruglinu, væri skynsamlegast að þegja um sinn og láta fólk missa sig á öðrum sviðum.
Síðan þetta var hefi ég ítrekað verið beðin um að byrja aftur að blogga. Ekki fylgir alltaf hugur máli eins og hjá einum sem fór að hrósa mér fyrir bloggið mitt á Moggabloggi og reyndist ekki hafa lesið bloggið mitt í heilt ár. Aðrir hvöttu mig áfram af einlægni og þeirra vegna og sjálfrar mín vegna byrja ég aftur að blogga, þó einvörðungu á blogspot fyrst um sinn.
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fólk sem bloggar getur ekki borið endalausa ábyrgð á athugasemdum sem settar eru fram við bloggfærslurnar. Það er því nauðsynlegt að bloggarinn hafi fullt vald til að eyða þeim athugasemdum sem settar eru fram, oft nafnlausar eða undir dulnefnum, í þeim tilgangi að rægja bloggara eða þá aðila sem fjallað er um í blogginu. Nýjasta dæmið um rógsherferð er skýrt dæmi um hve langt er hægt að ganga í þeim tilgangi að eyðileggja mannorð einhvers. Þar er mikill munur á hvort fólk hefur neikvæðar skoðanir á athöfnum viðkomandi eða þegar ráðist er beint að persónunni á þann hátt að flokkist undir meiðyrði. Ég get haft neikvæðar skoðanir á athöfnum manna á borð við Björgólf Guðmundsson og fleiri kappa, eða þá Björgvin Guðmundsson alþingismann sem hefur það eitt til saka unnið, að hafa verið í vitlausu embætti á vitlausum tíma, en vei mér ef ég fer að ráðast að persónu þessara manna sem ég met mikils fyrir mörg verka sinna. Svo er um fleiri í svipaðri aðstöðu þótt ég geti látið eitt og annað falla í hita leiksins í persónulegum samtölum.
Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðustu mánuðina sem liðnir eru síðan ég tók mér frí frá bloggi, skrapp á sjóinn í nokkrar vikur og skipti vinstrigræna eðalvagninum út fyrir Willysjeppa. Þá eignaðist ég enn einn erfingjann í morgun svo nú eru barnabörnin orðin fimm.
Ég vil loks ítreka að ég mun áskilja mér allan rétt til að eyða öllum þeim athugasemdum sem ekki eru mér að skapi og hvet þá sem hafa slíkar neikvæðar skoðanir á mér og mínum skoðunum að gera sínar eigin bloggsíður og láta mínar bloggfærslur vera ólesnar. Þetta gildir þó ekki um heiðarleg skoðanaskipti þar sem kunnugt er um persónu þess sem gerir athugasemdirnar.
sunnudagur, september 06, 2009
6. september 2009 - Hér með tilkynnist mínum kæru lesöndum að ég er komin úr bloggleyfi.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:58
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli