Um daginn heyrði ég af umferðarslysi í Hvalfjarðargöngunum þar sem bíll ók yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl sem kom á móti, en sem betur fór án alvarlegra meiðsla. Þetta var samt þriggja bíla árekstur þar sem einn bíllinn var nánast ónýtur eftir áreksturinn, en tveir aðrir bílar minna skemmdir.
Síðar heyrði ég sögusagnir þess efnis að sá sem ók yfir á öfugan vegarhelming hefði lent í blossa af hraðamyndavél í göngunum og hefði það hugsanlega valdið því að maðurinn blindaðist augnablik, nóg til að missa sjónar á miðlínunni og fór yfir á rangan vegarhelming.
Ég bar þetta undir fulltrúa hjá Vegagerðinni sem taldi þetta af og frá því þeirra myndavélar væru með innrauðu ljósi sem gefa ekki svona skæran blossa frá sér. Því er einvörðungu um að ræða hraðamyndavélar Spalar sem geta orsakað slíka augnabliksblindu.
Vinkona mín gleymdi sér eitt augnablik um daginn og álpaðist upp í 76 km hraða á röngum stað og var mynduð, nákvæmlega á þann hátt sem lýst er, með skærum blossa sem blindar eitt augnablik. Þar sem hún ók á þægilegum hraða, hélt hún ró sinni, hægði á sér sem nam þessum sex kílómetrum sem hún hafði farið umfram 70 km, en allt kom fyrir ekki. Nokkrum dögum síðar fékk hún sektarboð þar sem henni var gert að greiða 5000 krónur í sekt, en með möguleikum á afslætti ef hún greiddi strax.
Vinkona mín varð öskrandi reið og veit ekki í hvorn fótinn hún skal stíga, hvort hún eigi að greiða þessa sekt eða sitja hana af sér, enda atvinnulaus og með nægan tíma til að kynna sér fangelsismál innan frá, enda með háskólagráðu í mannlegum samskiptum.
Ég vil hinsvegar fá að vita, til hvers þarf tvöfalt hraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngunum, bæði myndavélar frá Speli og Vegagerðinni? Þó eru Hvalfjarðargöngin sá staður á öllu Íslandi þar sem minnst er um hraðaakstur. Má ekki sleppa gömlu myndavélunum eða auka lýsinguna til að minnka hættuna á slysum eins og átti sér stað á dögunum?
Að lokum vil ég taka fram að ég hafi ávallt átt mjög góð samskipti við starfsfólk Spalar og kann þeim bestu þökk fyrir þjónustu þeirra, en þetta er bara allt annar hlutur sem skrifast á ábyrgð yfirstjórnenda Hvalfjarðarganganna ef satt er.
fimmtudagur, september 10, 2009
10. september 2009 - Um hraðamyndavélar í Hvalfjarðargöngunum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:35
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli