Ég man þá tíð er Morgunblaðið var málgagn Sjálfstæðisflokksins og studdi flokksbundna Sjálfstæðismenn framar öllu öðru nema ef vera skyldi stjórnvöld í Bandaríkjum Norður Ameríku. Morgunblaðið tók iðulega afstöðu gegn jafnaðarmennsku og sósíalisma og skipti þá engu hvað átti að réttlæta, Adolf Hitler eða Roosevelt, kjarnorkusprengjur eða napalm því allt var leyfilegt í baráttunni gegn hinum vondu kommúnistum og sósíalistum. Þannig má nefna afstöðu Morgunblaðsins gegn Þórbergi Þórðarsyni er hann hélt því fram að Adolf Hitler væri byrjaður að ofsækja og myrða þýska vinstrimenn árið 1933 og Moggi virtist fagna notkun kjarnorkusprengjunnar er henni var kastað á Hiroshima og napalmi í Vietnam.
Með falli flokksblaða á vinstri vængnum fór Morgunblaðið að færa sig meira inn að miðju og um það leyti sem Þjóðviljinn lagði upp laupanna var Mogginn orðinn að hófstilltu málgagni frjálslyndra skoðana, en ekkert endilega hörðu málgagni íhaldsins þótt vissulega færi ekkert á milli málanna að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum væri talið kostur fyrir starfsfólk og stefnu blaðsins.
Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum á yngri árum og til að kynna mér skoðanir á hægri vængnum, lét ég mér nægja Dagblaðið á síðari hluta áttunda áratugarins. Eitthvað var samt farið að hrikta í hollustunni við flokksmálgagnið á árunum eftir 1980 og var ég steinhætt að lesa Þjóðviljann löngu áður en ég flutti til Svíþjóðar árið 1989.
Er ég flutti heim aftur árið 1996 var Morgunblaðið orðið hófstillt og íhaldssamt morgunblað sem var frekar íhaldssöm stofnun en baráttuglatt málgagn hægrimanna og þannig kunni ég best við blaðið og gerðist áskrifandi fljótlega eftir að ég flutti heim aftur. Það gekk meira að segja svo langt að þegar allt hrundi, tók ég þátt í skráningu í hóp fólks sem vildi bjarga Morgunblaðinu með stofnun almenningshlutafélags sem yrði frjálst og óháð stjórnmálaflokkunum. Í stað þess að samþykkja breiðan eigendahóp að blaðinu, kaus bankinn frekar að færa hann örfáum aðilum sem vildu færa blaðið aftur í hendur gömlu flokksklíku Sjálfstæðisflokksins. Ég hélt samt áfram að greiða blaðið uns ritstjórinn var rekinn og harðir nýfrjálshyggjusinnar settir í ritstjórastólana. Þá sá ég ekki lengur ástæðu til að styðja blaðið frekar og sagði því upp.
Ákvörðun mín er ekkert endanleg. Hún gildir einungis uns núverandi ritstjórar verða látnir taka pokann sinn og hin nýja ritstjórnarstefna blaðsins verður lögð til hliðar.
föstudagur, september 25, 2009
25. september 2009 - Morgunblaðið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli