Eins og ég hefi stundum montað mig af, á ég ákaflega indæla nágranna, fyrir ofan mig, til hliðar við mig og fyrir neðan mig. Eru þar fáir ef nokkrir undanskildir. Meðal nágranna minna eru sómakær heiðurshjón á eftirlaunaaldri sem sjaldan bregða skapi og geislar yfirleitt af þeim lífsgleðin, .... nema.....
Í íbúðinni á móti eldri hjónunum búa hjón með börn og tvo unga fressketti. Annar kötturinn er oft úti að leika sér, en hinn er heimakær og heldur sig á heimavígstöðvunum og á það til að skreppa í heimsókn til hjónanna á móti. Þeim finnast þessar heimsóknir fremur hvimleiðar og hafa reynt ýmislegt til að fæla kettina í burtu án mikils árangurs, hótað þeim með kústi, byggt mikinn plexíglervegg á milli svalanna og nú síðast bætt víggirðingu ofan á plexíglerið og virtist það duga til að halda kisa í burtu.
Um daginn skruppu hjónin í búð sem oftar og skildu svaladyrnar eftir opnar á meðan þau fóru frá stutta stund. Venjulega er það í góðu lagi, enda er nágrannavarslan með ágætum þegar um utanaðkomandi aðila er að ræða. En er þau komu heim aftur sáu þau merki þess að óboðinn gestur hafði komið inn á meðan og skilið eftir merki um komu sína. Kisi hafði einfaldlega hoppað yfir, skitið á mitt stofugólfið og farið heim til sín aftur.
þriðjudagur, september 15, 2009
15. september 2009 - Kisur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 14:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli