Þegar ég var á leiðinni út áðan tók ég eftir því að búið var að troða bunka af miðum í póstkassann hjá mér. Ég fór að athuga miðana og reyndust þeir allir eins, þ.e. áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna um greiðsluverkfall. Ég hirti einn miðanna til athugunar, en henti hinum.
Mig vantar meira kjöt á beinin frá þessum furðusamtökum. Af hverju á ég að taka þátt í uppreisn gegn kerfinu án neinna hugsjóna? Það má auðvitað fara í uppreisn til að krefjast niðurfellingar skulda minna, en það er ekki hugsjón heldur útópía og dagdraumar. Það dettur engri heilvita manneskju til hugar að fá heilu húsin og bílana frítt. Hitt atriðið sem kemur fram í áskorun þessara hagsmunasamtaka er óskin um uppsögn greiðsluþjónustu og á greiðslukortum bankanna. Til hvers? Er þetta til að koma óskipulagi á fjármál mín? Ég er mjög sátt við greiðsluþjónustu bankans míns sem og kortin mín og sé enga ástæðu til að breyta neinu þar þótt ég geti vel hugsað mér einhverja vaxtalækkun á skuldirnar mínar.
Af einhverjum ástæðum fæ ég það á tilfinninguna að Hagsmunasamtök heimilanna séu að reyna að skapa enn meiri upplausn í þjóðfélaginu en orðið er sem leiðir af sér tækifæri fyrir hrunflokkana að taka yfir, eða þá grundvöll fyrir öfgahópa á sama hátt og átti sér stað í Þýskalandi á þriðja áratug síðustu aldar.
Nei takk, ekki ég!
þriðjudagur, september 29, 2009
29. september 2009 - Greiðsluverkfall?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 16:35
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli