fimmtudagur, september 10, 2009

10. september 2009 - Orkumál í grænu hagkerfi



Á miðvikudagskvöldið var haldinn fundur um orkumál hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík þar sem fram komu Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Skúli helgason formaður iðnaðarnefndar Alþingis og Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi og stjórnarmaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundarstjóri var Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi.

Þar var rætt á breiðum grundvelli um eignarhald á íslenskum orkuauðlindum, sölu á hlut OR í HS-Orku til Magma Energy og um lög og stefnumál meirihluta Alþingis í grænu hagkerfi framtíðar. Margt athyglisvert kom í ljós á þessum fundi, meðal annars sú staðreynd að verulegt og að hluta til ófyrirsjáanlegt tap verður af sölu OR á hlut sínum í HS-Orku til Magma Energy, tap sem ætti að nægja til að hætta þegar í stað við söluna á meðan leitað er annarra leiða til að losa hlut OR í fyrirtækinu.

Einnig kom skýrt fram á fundinum á hvern hátt salan á hlutnum er ólögleg, sé litið til anda laganna frá 1991. Sjálf beið ég af mestum áhuga eftir orðum Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, en hann ræddi orkumál í víðu samhengi og benti meðal annars á þá einföldu staðreynd að það er ekki til neitt sem er fullkomlega endurnýjanleg orkuauðlind og sem hann rökstuddi faglega.

Margt kom fram á fundinum sem of langt er upp að telja, en það var gaman að fylgjast með rökræðum Guðna og Ómars Ragnarssonar eftir fundinn og hvernig þeir náðu saman í umræðum sín á milli.

Einhvernveginn var ég vonbetri um orkuframtíð Íslands eftir fundinn en áður, þrátt fyrir skugga einkavæðingar Magma á HS-Orku sem hvíldi yfir fundinum.

P.s. Á myndinn eru frá vinstri, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, félagi Sigurður Ásbjörnsson og Ómar Ragnarsson baráttumaður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli