ÆÆ, hér sit ég og finn ekki prentuð gögn mín um forvera Caster Semeneya. Því verður fólk að sætta sig sig við orð mín eins og hverja aðra gróusögu þar til ég finn gögnin og studd með nöfnum hlutaðeigandi aðila.
Til að byrja með, þá er Caster Semeneya suðurafríska stúlkan sem var grunuð um að vera karl í heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í síðasta mánuði. Nú hefur einhver rannsókn leitt í ljós að hún er kona á ytra borði, en með karlkyns líffæri hið innra. Einhverntímann heyrði ég þetta fyrirbæri kallað „dold hermafrodit“ upp á ástkæra ylhýra sænskuna eða „falin tvíkynja“.
Það var fyrir vetrarólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi árið 1968. Vegna grunsemda um breytingar á líkömum austur-evrópskra íþróttakvenna, var ákveðið að framkvæma litningapróf á keppendum til að úrskurða um kyn þeirra. Ein fyrsta manneskjan sem féll á prófinu og send heim með hraði fyrir leikana var austurrísk skíðadrottning (sem mig vantar nafnið á að sinni). Hún var sannanlega með kvenkyns kynfæri, en litningaprófið gaf henni einkunnina karlkyns (sennilega YXX).
Eftir þessi miklu vonbrigði fór hún í rannsókn í Vínarborg og þar reyndust hin ytri kynfæri vera fölsk, þ.e. það var engin tenging í innri kvenkynfæri, en innra með henni voru fullvirk karlkyns kynfæri. Það var því fátt annað eftir en að framkvæma á henni kynleiðréttingu, koma henni í gegnum nauðsynlegt ferli og sleppa út sprellanum. Þetta tókst með afbrigðum vel. Skíðadrottningin fyrrverandi tók upp nýtt nafn í samræmi við kynferðið, kvæntist stúlku og átti tvö börn samkvæmt þeirri grein sem ég las um hann fyrir mörgum árum og starfaði hann þá sem skíðakennari í austurrísku Ölpunum.
Sagan af austurrísku skíðadrottningunni endaði vel fyrir alla aðila. Nú er bara að vona að sagan af Caster Semeneya endi líka vel fyrir hana sjálfa og að hún láti ekki bugast gagnvart almenningsálitinu.
föstudagur, september 11, 2009
11. september – Saga Caster Semeneya er ekkert einsdæmi
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 15:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli