mánudagur, september 14, 2009

14. september 2009 - Hlaupadagar

Eftir að ég hætti að reykja fyrir níu árum byrjaði ég að fitna svo um munaði og á tveimur árum þyngdist ég um 26 kg. Ég mátti alveg bæta við mig nokkrum af þessum 26 kílóumen það var algjör óþarfi að fara yfir 90 kg og ég ákvað að gera eitthvað í málinu.

Nærri þremur árum eftir að ég hætti að reykja, hætti ég líka að vinna, kannski ekki vinna beint, en síðan árið 2003 hefur aðalstarfið falist í þægilegri innivinnu þar sem öllu er stýrt í gegnum tölvur og ég bætti enn meira við þyngdina. Síðan hefi ég barist við aukakílóin án mikils árangurs.

Ég fór að ganga og ég fór að ganga á fjöll, en þolið var orðið afleitt og lítið gekk að bæta þolið. Ef ég fór á Esjuna taldist ég góð ef ég komst upp fyrir hamrabeltið á Þverfellshorni á tveimur og hálfum klukkutíma og Selvogsgatan var gengin á minnst tíu tímum, gjarnan meira.

Að undanförnu hefi ég breytt um aðferð við að ná upp þolinu. Í stað þess að ganga langar og erfiðar göngur, kannski einu sinni í viku eða sjaldnar, geng ég nú stuttar vegalengdir og eitthvað á hverjum degi, ekkert endilega á mínum hraða, en reyni að fylgja eftir öðru fólki sem gengur hraðar jafnvel svo að ég neyðist til að hlaupa með til að geta fylgt fólkinu eftir. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Um helgina komst ég í fyrsta sinn stóra Elliðaárdalshringinn á innan við 100 mínútum og finn að ég get farið þennan hring á 90 mínútum eftir nokkrar æfingar í viðbót með því að hlaupa hluta hringsins.

Nú gengur allt út á að keyra mig meira og meira áfram uns ég næ vart andanum eins og lekur fýsibelgur og ég finn hve árangurinn eykst með hverjum deginum sem líður. Kannski næ ég því að bræða aukakílóin af mér með hlaupunum, en þolið er allt að koma og ég finn hve heilsan er miklu betri en hefur verið um margra ára skeið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli