Kunningi kvartaði sáran á blogginu sínu um daginn yfir vatnssósa kjúklingi sem hann hafði keypt sér ásamt hæfilegri kvörtun yfir brotnu Ritz-kexi sem hann fann í pakka sem hann hafði keypt. Æ, þetta er bara hann Þórður sem er of góðu vanur úr vinnunni sinni, hugsaði ég og skeytti ekki meira um þessa kvörtun kunningjans.
Um daginn keypti ég niðurbrytjaðan kjúkling á bakka sem ég ákvað að steikja mér í dag. Ég tók kjúklinginn úr pakkanum og kom honum fyrir á steikingabakka. Þessi hlýtur að duga mér alla helgina og eitthvað frameftir vikunni hugsaði ég með mér þegar ég sá magnið sem ég setti í ofninn. Þegar steikingartíminn var liðinn slökkti ég á ofninum og varð þá fyrir nokkrum vonbrigðum.
Vatnið sem eftir var í steikingarbakkanum þegar ég hafði tekið kjúklinginn upp úr, reyndist vera nærri 20 cl, nóg til að sjóða kjúklinginn í stað þess að steikja hann. Bragðið var líka af soðnum kjúklingi, en ekki steiktum og rýrnunin orðin slík að kjúklingurinn nægði einvörðungu í máltíð fyrir eina manneskju, en þá varð líka að hafa mikið af kartöflum með.
Ég hefði betur hlustað á Þórð, en það er ljóst að ég hugsa mig tvisvar um áður en ég kaupi aftur kjúkling frá Íslenskum matvælum hf.
laugardagur, september 12, 2009
12. september 2009 - Safaríkur kjúklingur!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli