mánudagur, júní 08, 2009

8. júní 2009 - Nauðasamningur!

Það þykir vondur kostur að geta ekki greitt greitt reikningana sína. Þó getur fjöldi fólks ekki borgað þá af einhverjum ástæðum, verður að sækja um frest, greiðsluaðlögun, niðurfellingu skulda eða hreinlega óskað eftir nauðasamningum um blandaðan pakka af öllu þessu. Hið versta sem við gerum í slíku ástandi er að ganga út og tilkynna að við borgum ekki.

Þegar útrásarvíkingarnir dunduðu sér við að kaupa heilu verslanakeðjurnar, bankana og fasteignirnar í útlöndum höfðu þeir lítið á bakvið sig annað en veð í sjálfri íslensku þjóðinni, í íslenska ríkinu. Ríkisvaldinu fannst þetta gott og fulltrúar þess voru glaðir því það komu peningar á móti inn í ríkiskassann í formi skatta og ríkissjóði tókst að greiða allar skuldir skuldir sínar. Þessu til staðfestingar mátti sjá fulltrúa ríkisvaldsins ganga á torg og hylla úttrásarvíkingana og verðlauna þá á ýmsan hátt, forsetann, forætisráðherrann ríkisstjórnina og fjölda annarra sem áttu að gæta þjóðarauðsins. Svo hrundi allt.

Hinn skuldlausi ríkiskassi varð allt í einu einn sá skuldugasti í heimi því útrásarvíkingarnir voru búnir að offjárfesta og eigendur skuldanna vildu ganga að veðinu, íslenska þjóðarauðnum. Einhverjir þeir fulltrúar ríkisvaldsins sem hæst höfðu látið um hyllingu útrásarvíkinganna snéru við blaðinu og lýstu því yfir að við borgum ekki skuldir óreiðumanna. Vandamálið var bara það að óreiðumennirnir höfðu veðsett þjóðarauðinn og skuldareigendur settu Ísland á svartan lista yfir hryðjuverkasamtök.

Ísland neyddist til að ganga til nauðasamninga, skríða á fjórum fótum að fótum fulltrúa skuldareigenda og reyna að semja sig frá þessum óförum. Sumum finnst sem fara hefði átt einhverja aðra leið, fara leið Davíðs og neita að borga eða þá að fara í mál sem hefði þýtt fleiri ára réttarhöld og vera stimpluð hryðjuverkaríki á meðan með öllum þeim erfiðleikum sem slíku fylgja.

Að ganga til nauðasamninga við Breta er vissulega beiskur biti að kyngja, en sannanlega betri en að vera dæmd svikahrappar og óþjóðalýður um aldur og ævi. Við verðum bara að horfast í augu við að hinir raunverulegu svikahrappar fengu of frjálsar hendur og nýttu sér það út í ystu æsar og nú þurfum við að borga brúsann.

Því tel ég ekki um annað að ræða úr því sem komið er, en að skrifa undir með harm í hjarta og gæta þess að útrásarvíkingarnir komist ekki aftur til valda.


0 ummæli:







Skrifa ummæli