Á dögunum þurfti einhver kínverskur sendiherra að skreppa heim til sín. Hvort hann var að heimsækja aldraða ömmu sína eða fara í jarðaför til móðursystur sinnar skal ósagt látið, en þetta kom upp á þegar íslenska blaðamenn vantaði efni til skrifa um og tíbetskur búddamunkur var staddur á Íslandi.
Allir vita hverja afstöðu kínversk stjórnvöld hafa til Dalai Lama og allir vita hver afstaða kínverskra stjórnvalda er til stjórnvalda á Taiwan. Allir vissu að Kínverjar væru ekki sáttir við að Dalai Lama væri að þvælast á Íslandi og biðu þess að Kínverjar mótmæltu komu hans til Íslands. Dalai Lama kom til Íslands og Kínverjar mótmæltu eins og reiknað var með, en um leið fór kínverski sendiherrann heim til Kína.
Íslenskir fjölmiðlar gerðu nákvæmlega það sem kínversk stjórnvöld ætluðust til af þeim, túlkuðu brottför kínverska sendiherrans sem mótmæli við komu Dalai Lama til Íslands. Með þessu tókst Kínverjum að slá tvær flugur í einu höggi, skiptu um einhvern diplómat og fengu aðra til að túlka málið á versta veg. Hrein snilld.
fimmtudagur, júní 04, 2009
4. júní 2009 – Sendiherra kallaður heim.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:31
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli