Árið 2011 leið án þess að nokkur íslenskur sjómaður biði bana við störf sín. Þetta eru ánægjuleg tíðindi og í annað sinn í Íslandssögunni sem heilt ár líður án mannskaða. Áður var árið 2008 laust við banaslys, en aldrei áður í sögu Íslands hafði heilt ár liðið án mannskaða.
Það er af sem áður var. Það er ekki langt síðan staðan var önnur og verri. Ekki eru margir áratugir liðnir síðan tölu sjómanna sem fórust mátti telja í mörgum tugum á hverju ári. Má þar benda á tölur sem Hagstofa Íslands vann árið 1990 fyrir Rannsóknarnefnd sjóslysa sem sýndi á árunum 1900 til 1990 fórust 4016 af slysförum við Íslandsstrendur eða á hafi úti eða um 45 manns á ári til jafnaðar. Sum árin voru virkilega svört eins og 1959 þegar 42 íslenskir sjómenn fórust í tveimur sjóslysum í febrúar, en mikill fjöldi á því ári öllu. Einnig má nefna mikinn fjölda sem fórust árin 1955, 1963 og 1968. Ástandið var reyndar svo slæmt á þessum tíma að þegar ég hóf störf á sjó árið 1966 mátti ég búast við að slasast á sjó fimm sinnum á starfsævinni og að líkindin á því að farast voru allt að þriðjungur af starfsævinni. Það var svo sannarlega þörf á aðgerðum en flestir ypptu öxlum og töluðu um eðlilegar fórnir við störf á erfiðustu hafsvæðum heimsins.
Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem hlutir fóru að gerast á Íslandi. Með tilkomu Rannsóknarnefndar sjóslysa snemma á áttunda áratugnum og rannsóknum nefndarinnar á hinum ýmsu slysum kom berlega í ljós að víða var pottur brotinn í öryggismálum sjómanna á öllum sviðum, meðal þeirra sjálfra, útgerðarmanna, útbúnaði skipa og ekki síst í björgunarbúnaði í landi. Á meðan héldu sjóslysin áfram og á hverju ári fórust tugur eða tugir manna.
Um miðjan níunda áratuginn kemur þrennt til sögunnar. Landhelgisgæslan fær öfluga björgunarþyrlu í þjónustu sína, TF-SIF. Þá var Slysavarnarskóli sjómanna stofnaður og loks voru flotbúningar lögleiddir um borð í öllum íslenskum skipum. Árangurinn var ekki lengi að skila sér. Strax árið 1987 fórust innan við tugur manna á sjó og hefur slíkt verið árvisst frá því fyrir miðjan tíunda áratuginn og þá sérstaklega eftir aldamótin.
Eins og árið er getið var árið 2008 fyrsta árið án banaslysa á sjó. Með sjóslysum í desember 2009 og slysi árið 2010 var ljóst að ekki tækist að halda þeim árum banaslysalausum en það tókst í fyrra og að sjálfsögðu ber að fagna því.
Það er ljóst að allir þessir nýju öryggisþættir eiga sinn þátt í að svona er komið. Öryggisvitund sjómanna og Slysavarnarskóli sjómanna, betri björgunarþyrlur, Rannsóknarnefnd sjóslysa, flotbúningar og betri búnaður um borð í skipum. Það má þó hvergi slaka á kröfunum og það verður að gera þá kröfu til allra sem koma að þessum málum að allir haldi sér á tánum í öryggismálunum, annars mun ekki líða langur tími uns allt fer á verri veg að nýju. Þar horfi ég sérstaklega á þyrlurnar.
Stundum hefur aðeins ein þyrla til taks og einstöku sinnum engin þyrla. Slíkt má ekki gerast og gera verður þá kröfu til eiganda björgunarþyrlanna, þ.e. ríkisins, að ávallt verði til nægur þyrlufloti til að fara í björgunaraðgerðir hvar sem er og hvenær sem er innan tvö hundruð mílna landhelginnar. Ef litið er til björgunarþyrlusveitar Varnaliðsins sáluga, þá voru þeir lengi með fimm þyrlur í sinni björgunarsveit á Keflavíkurflugvelli, tvær í stöðugu viðbragði, aðrar tvær til vara og loks eina í viðhaldi. Björgunarþyrlusveit fyrir heila þjóð má vart vera minni ef takast á að bjarga öllum þeim sem þurfa á tafarlausri björgun að halda.
sunnudagur, janúar 01, 2012
1. janúar 2012 - Um sjóslys
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli