þriðjudagur, janúar 03, 2012

3. janúar 2012 - Eru vatnssalerni hátækni?

Frægt hátæknisjúkrahús hefur verið lengi í umræðunni þótt engir peningar séu til svo hægt sé að byggja það í Vatnsmýrinni neðan við gamla Landspítalann. Persónulega er ég á móti því að það sé byggt á þessum stað, hefði frekar kosið að sjá það nær stórum umferðaræðum í Fossvogi, nær Sæbraut/Reykjanesbraut og Kringlumýrarbraut, en til vara á einhverjum mun kyrrlátari stað fjær miðborgarmenguninni.

Þær breytingar sem þarf að gera á umferðinni svo hægt verði að byggja sjúkrahúsið á fyrirhuguðum stað mun skipta mörgum milljörðum sem bætast ofan á þá 40 milljara sem steinkumbaldinn mun kosta skattgreiðendur. Það er um leið alls ekki öruggt að hægt verði að koma allri þeirri umferð fyrir á gamla Landspítalasvæðinu, en umhverfi Landspítalans er þegar erfitt umferðinni á álagstímum. Það má svo deila um hvort monster af þeirri gerð sem fyrirhugað hátæknisjúkrahús sé ekki að verða úrelt þar sem margar aðgerðir verða sífellt auðveldari viðureignar og minni þörf á langleguplássum á sjúkrahúsum.

Stuðningsmenn hátæknisjúkrahúss neðan við gamla Landspítalann hafa bent á ýmis rök máli sínu til stuðnings, meðal annars fengið einhvern Norðmann til að reikna sparnað spítalans við rekstur á einum stað allt að 2,6 milljörðum króna á ári. Ég hefi enga aðstöðu til að rengja þessa upphæð þótt mér finnist hún ótrúlega há, en spyr mig um leið hverjir séu vextirnir af 40 milljörðunum sem hátæknisjúkrahúsið mun kosta auk kostnaðar vegna breytinga á umferðinni þegar engir peningar eru til í ríkisstjóði eftir hrunið 2008?

Nú hafa stuðningsmenn hátæknisjúkrahússins komið með nýtt vopn sem ég á engin svör við. Í viðtali við útvarpið í morgun benti lækningaforstjóri Landspítalans á nauðsyn þess að fjölga salernum á spítalanum til að koma í veg fyrir Noro sýkingu og því myndi vandamálið vegna Noro veirunnar leysast þegar spítalinn kæmist inn í hið nýja sjúkrahús þótt ekki nefndi notaði hann orðið hátækni í þessu sambandi. Þegar haft er í huga hversu mikil áhersla var á að nýi spítalinn yrði kallaður hátæknisjúkrahús get ég ekki skilið orð hans á annan veg en þann að hátæknin sé fólgin í fjölgun vatnssalerna.

Niðurstaðan er því þessi: Vatnssalerni eru hátækni!


0 ummæli:







Skrifa ummæli