Ég kynntist ekki Kjartani Valgarðssyni fyrr en hann bauð sig fram til formanns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Árin á undan hafði hann starfað hjá Þróunarsamvinnustofnun suður í Afríku og því víðs fjarri þegar ég kom inn í stjórn SffR. Því vissi ég einungis af honum af afspurn
Eftir að Kjartan hafði verið kjörinn formaður SffR var ég dálítið gagnrýnin á störf hans. Mér fannst hann óvæginn og harður stjórnandi bæði við sjálfan sig og aðra, en þó aðallega sjálfan sig. Eftir því sem ég kynntist honum betur sá ég hve við vorum á svipaðri línu í pólitík, bæði úr gamla Alþýðubandalaginu og bæði hrifin af störfum Socialdemokraterna í Svíþjóð þótt ég hafi aldrei verið meðlimur þar eins og Kjartan. Ég hætti að gagnrýna Kjartan. Ég gekk úr stjórn SffR á aðalfundi fyrir tæpu ári vegna mikilla anna á öðrum sviðum, hefi mætt illa á félagsfundi og stærri samkomur, en hjartað verður þó áfram á sama stað og fyrrum.
Síðastliðinn miðvikudag var haldinn félagsfundur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík þar sem nokkrir tugir félagsmanna voru samankomnir þar á meðal ég sjálf. Þetta var óhefðbundinn félagsfundur án sérstakrar framsögu þar sem öllum viðstöddum var gefinn kostur á að tjá sig um atkvæðagreiðsluna á Alþingi nokkrum dögum áður þar sem frávísunartillögu Magnúsar Orra Schram og fleiri var hrundið, meðal annars með atkvæðum fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar. Næstum allir fundargestir lýstu yfir óánægju með atkvæði fjórmenninganna þótt einhverjir hafi í framhjáhlaupi varið stöðu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta Alþingis er hún samþykkti fyrir jólin að taka þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar á dagskrá á fyrstu dögum þingsins eftir áramót og get ég fyllilega fallist á þau sjónarmið.
Í upphafi fundarins sagði Kjartan frá einhverjum úrsögnum úr SffR vegna úrslita atkvæðagreiðslunnar á Alþingi og hefur verið skýrt frá fundinum í fjölmiðlum þá aðallega í DV og á Eyjunni.
Á föstudagskvöldið las ég að komin væri fram krafa um vantraust á Kjartan vegna einhverra nafnlausra tölvupósta sem hann á að hafa sent DV. Ég veit ekkert hvað er til í slíku, hefi ekki heyrt það fyrr og tek fyrirvara við öllum nýjum „fréttum“ á Eyjunni. Kjartan hefur krafist þess að Samfylkingin starfi meira í samræmi við störf systurflokkanna á Norðurlöndunum og Þýskalandi, hætti allri óþarfa persónudýrkun og kjördæmapoti og vinni í samræmi við ályktanir flokksins á landsfundum. Slíkt er hið versta mál fyrir kjördæmapotarana sem vilja að flokkurinn snúist um sig og sín mál en ekki um þjóðina.
Ef það er satt að komin sé krafa um vantraust á Kjartan Valgarðsson, skal ég vera fyrst til að mæta og lýsa yfir trausti mínu á hann. Um leið verður forystan að búast við stórfelldum úrsögnum úr Samfylkingunni, þar á meðal minni eigin verði slíkt vantraust samþykkt. Best er þó ef Kjartani verða falin frekari trúnaðarstörf á vegum Samfylkingarinnar og íslensku þjóðarinnar.
föstudagur, janúar 27, 2012
27. janúar 2012 - Um vantraust á hendur Kjartani Valgarðssyni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:11
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli