Ég byrjaði til sjós á togara árið 1966 á fimmtánda ári og þar sem Lífeyrissjóður togarasjómanna hafði verið til í nokkur ár hóf ég fljótlega að greiða í sjóðinn. Síðan eru liðin nærri 46 ár eða þokkaleg starfsævi meirihluta Íslendinga. Ég er þó hvergi nærri því hætt að vinna enda rétt orðin sextug.
Þegar ég skoða inneign mína í lífeyrissjóðum kemur fljótlega í ljós að greiðslur mínar í lífeyrissjóð frá upphafi til þess tíma er verðtryggingu var komið á eru glataðar. Verðbólgan sá til þess að krónurnar brunnu hraðar en þeirra var aflað. Mér reiknast svo til að greiðslur mínar í lífeyrissjóði fyrir 1980 veiti mér einungis um 5000 krónur í mánaðartekjur og er þá gróflega reiknað og miðað við stöðuna eins og hún var fyrir hrunið haustið 2008.
Framlag mitt í Lífeyrissjóð Eimskips á níunda áratug síðustu aldar leit sæmilega út framanaf, en lífeyrissjóðurinn sameinaðist nokkrum öðrum lokuðum lífeyrissjóðum í Kjöl um miðjan síðasta áratug og síðasta yfirlit frá Lífeyrissjóðnum Kili í apríl 2008 benti til að ég fengi greiddar um 67000 krónur á mánuði. Síðan þá hafa allar fréttir bent til hruns í útgreiðslum sjóðsins, en þess má geta að á neyðarfundi í desember 2008 hélt formaður sjóðsins því fram að innlendar fjárfestingar væru tryggðar í mjög traustum fyrirtækjum, en vildi ekki gefa þau upp. Mér var þó kunnugt um hver þessi fyrirtæki voru , en þau eru nú flest farin á hausinn. Reyndar er löngu búið að skipa skilanefnd yfir sjóðnum og víkja frá þáverandi stjórn. Ég veit þó ekki stöðuna á sjóðnum í dag, en veit það eitt að útgreiðslurnar eru einungis brot af því sem ætla mátti á sínum tíma.
Þegar einn vinnufélaginn lést fyrir skömmu var til þess tekið að annar félaginn sem nú er á eftirlaunum neitaði að heilsa fyrrum stjórnarformanninum eftir jarðarförina og segir það allt sem segja þarf um stöðu mála.
Svipað er á komið með aðra lífeyrissjóði sem ég hefi greitt í undanfarin ár. Tómt tap. Vegna þeirrar rýrnunar á peningum sem ég hafði lagt í lífeyrissjóði frá því ég hóf að vinna og til ársins 1989 hóf ég að greiða í séreignarsjóði árið 1999. Fyrst í Íslenska lífeyrissjóðinn, en bætti fljótlega við Certus lífeyristryggingu, en síðar bættist Lífeyrisbók Landsbankans einnig í safnið. Einasti sjóðurinn sem stóð undir nafni var Lífeyrisbók Landsbankans því þótt hann gæfi minnstu vextina var hann sá eini sem var verðtryggður. Íslenski lífeyrissjóðurinn hrundi um leið og Kjölur og Certus reyndist horfinn að mestu. Því lokaði ég honum og lét flytja inneignina að mestu úr Íslenska lífeyrissjóðnum yfir í Lífeyrisbók Landsbankans sem gerir þó ekki meira en að geyma raunupphæðina sem ég hefi lagt inn.
Í desember síðastliðnum fékk ég bréf frá Lífeyrissjóðnum Gildi (áður Lífeyrissjóð sjómanna og þar áður Lífeyrissjóð togarasjómanna) þar sem ég er minnt á þá skerðingu sem ég verð fyrir ef ég nýti mér eftirlaunarétt sjómanna, en hún miðast við að eftir 25 ára störf á sjó hefi ég unnið mér rétt til að fara á eftirlaun við sextugt. Ég hló þegar ég sá bréfið. Ég hafði ávallt ætlað mér að hætta að vinna við 67 ára aldur, en nú má ég þakka fyrir að geta hætt við sjötugt.
Ég sit uppi með þá staðreynd að það er búið að ræna mig ætluðum lífeyri mínum, ekki einu sinni heldur tvisvar. Ofan á allt fæ ég að sjá að mennirnir sem tóku við lífeyrisgreiðslum mínum notuðu þá í vafasömum tilgangi án þess að ég hefði nokkuð um það að segja. Ég var gerð að fífli með því að samþykkja að greiða í lífeyrissjóð án andmæla.
Er ekki kominn tími til að stokka upp lífeyrissjóðakerfið og setja þjófana sem stálu peningunum mínum í fangelsi með útrásarræningjunum?
mánudagur, febrúar 06, 2012
6. febrúar 2012 - Hugleiðing um lífeyrissjóði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:41
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli