Einar Gíslason sem kenndur var við Betel í Vestmannaeyjum þótti hinn ágætasti maður. Hann var fylginn sér, skemmtilegur og hann var einhver besti ræðumaður sem Eyjamenn hafa átt og hann lét ekkert koma sér á óvart.
Ein saga er fræg af þeim bræðrum Einari og Óskari Gíslasonum. Einhverju sinni var barnamessa, Einar prédikaði og Óskar bróðir var meðhjálpari. Á ákveðnu augnabliki í messunni hrópaði Einar:
„Guð almáttugur færðu börnunum epli,“ og það var sem við manninn mælt, eplin hrundu niður gegnum lúgu í lofti samkomusalarins. Einar hélt áfram ræðunni eins og ekkert hefði í skorist uns kom að því að honum fundust eplin sem duttu niður fullmörg og hann hrópaði, „þetta er nóg Óskar bróðir, þetta er nóg“ og hættu þá eplin að falla til jarðar, en Einar hélt áfram prédikuninni eins og ekkert hefði í skorist.
Sonur Óskars í Betel heitir Snorri og er helst frægur fyrir fyrirlitningu sína á samkynhneigðum. Þessi fyrirlitning hans hefur búið lengi í honum samanber viðtal við hann í DV fyrir nokkrum árum þar sem
hann talaði gegn því að samkynhneigðir ælu upp börn því þeir myndu geta smitað þau af AIDS. Nú síðast kallaði hann samkynhneigð synd og líkti samkynhneigðum við bankaræningja. Þessu til staðfestingar kallar hann til vitnis náunga einn sem hét Sál en kallaði sig Pál postula sem hafði uppi svipaðar kenningar gagnvart samkynhneigðum og og gömlu gyðingarnir sem skrifuðu Gamla testamentið. Páll postuli var ekki einn af postulunum tólf og sennilega fæddur löngu eftir að Jesús beið bana á krossinum, en hann fékk síðar postulanafnbót rétt eins og þrettándi jólasveinninn.
Sjálf ætla ég ekki að fara út í umræður um kristna trú. Ég bý að minni barnatrú þar sem fyrirgefningin stýrir lífi okkar, þar sem kærleiksboðskapurinn kennir okkur að við skulum elska náungann eins og okkur sjálf. Nú þegar rætt er um að víkja Snorra í Betel úr starfi vegna skoðana sinna sem hann hefur fært í letur á bloggi sínu, er ég ekki viss um að rétt sé að beitt verði aðferðum gyðinganna og Snorra sem prédika auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, heldur frekar að fyrirgefningu kristinna manna verði beitt.
Því eins og ég trúi því að Snorri muni sjá að sér og frá villu síns vegar, tel ég rétt að beita aðferðum Jesú Krists sem notaði fyrirgefninguna. Því vil ég beina þessum orðum til Drottins allsherjar:
Drottinn, fyrirgef þessum manni því hann veit ekki hvað hann er að gera.
sunnudagur, febrúar 12, 2012
12. febrúar 2012 - Um Snorra í Betel
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:17
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli