föstudagur, febrúar 17, 2012

17. febrúar 2012 – Hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð

Á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2001 lagði Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra það til að náttúrugripasafni yrði komið fyrir í hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð og Perlunni. Þetta var furðuleg tillaga þegar haft er í huga að Björn Bjarnason er alinn upp í næsta nágrenni við tankana í Öskjuhlíð, en gömlu tankarnir voru teknir í notkun ári áður en hann fæddist.

Árið 2007 kom Mörður Árnason fram með sömu tillögu og fyrir fáeinum dögum kom Katrín Jakobsdóttir núverandi menntamálaráðherra með hugmynd um að nýta allt að tvo tanka í Perlunni undir náttúrugripasafn, en henni var snarlega bent á að tankarnir væru í notkun og yrðu í notkun um ófyrirsjáanlega framtíð. Katrín er skynsöm manneskja og skilst mér að hún hafi ýtt hugmyndinni útaf borðinu þegar henni varð það ljóst að tankarnir eru í notkun og einnig þörf fyrir rýmið sem geymir dúkkusafn. Nú vilja fimm samtök kennara og náttúruverndarsamtaka hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.

Mér finnst hugmyndin galin.

Glerhýsi hentar engan veginn undir náttúrugripasafn. Margir gripanna þola ekki dagsljósið og myndu eyðileggjast á stuttum tíma við slíka geymslu. Þá gætu margir gripir eyðilagst, þar á meðal verðmætustu gripirnir ef eitthvað kæmi fyrir einhvern tankinn og leki kæmi að honum. Vafalaust hefur hugmynd þeirra sem komu fram með þessa tillögu verið sú að nýta hitaveitutankana fyrir safnið, en það er tómt mál því þeir eru í notkun, í þeirri notkun sem þeim var ætlað í upphafi, að geyma heitt vatn til notkunar fyrir "lattélepjandi lopatreflana" í 101 Reykjavík og 107 Reykjavík.

Einn tankurinn var tekinn af Reykvíkingum fyrir dúkkusafn fyrir fáeinum árum. Sú ráðstöfun skerti rekstraröryggi íbúa miðbæjar og vesturbæjar um fjórðung. Síðan hafa risið mörg stórhýsi í miðborginni sem sömuleiðis hafa skert rekstraröryggið og fyrirhuguð uppbygging í miðbænum mun skerða það enn frekar. Ég hefi heyrt því fleygt að búið sé að segja dúkkusafninu upp leigunni og mun það því geta flutt í hentugra húsnæði með skömmum fyrirvara og breyting á tanknum til fyrra horfs og endurnýjaðs rekstraröryggis er einfalt mál enda allar lagnir enn til staðar í „katakombunum“ undir Perlunni.

En hvað er þá til ráða? Einfaldast er auðvitað að nýta Perluna áfram á þann hátt sem gert var eftir byggingu hennar fyrir rúmum tveimur áratugum, sem miðlunargeyma fyrir heitt vatn, sem blöndunarstöð fyrir háhitavatn frá Bolholti, Elliðaárdal og Mosfellssveit og sem miðlun fyrir ylströndina í Nauthólsvík. Veitingahúsin má reka áfram og vafalaust er hægt að finna hagkvæmari not fyrir miðrýmið en nú er. Til vara má vissulega taka hluta hitaveitutankanna undir safnastarfsemi, en þá má heldur ekkert bregðast því slíkt mun valda miklum erfiðleikum í hvert sinn sem tankarnir tæmast af einhverjum orsökum og loft kemst inn á hitaveitukerfið.

Ein hugmynd gæti verið að reisa nýja tanka á öðrum stað. Það var gert þegar hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð voru endurnýjaðir á árunum fyrir 1990 og gömlu tankarnir frá styrjaldarárunum voru rifnir og Perlan reist í þeirra stað. Þá voru tveir tankar með samtals 18000 tonna geymsluplássi byggðir við hlið dælustöðvarinnar í Öskjuhlíð, en umframvatnið sem nú nýtist meðal annars fyrir ylströndina og til uppblöndunar látið renna í „Læragjá“ meðan á framkvæmdum stóð. Eftir að Perlan var risin voru tankarnir fluttir upp á Reynisvatnsheiði og nýttir þar fyrir heitt vatn frá Nesjavöllum. Þess má geta að þeir þrír tankar sem í dag eru notaðir undir heitt vatn rýma einungis 12000 tonn, en tveir eru notaðir undir bakrennsli og sá sjötti undir dúkkusafnið. Af hverju skyldu verkfræðingarnir hafa reiknað með 18000 tonna rými í bráðabirgðatönkunum, en ekki bara einum tank með 9000 tonnum eða jafnvel enn minna? Þá má ímynda sér hve útsýni til Perlunnar myndi rýrna mikið ef reistir yrðu nýir hitaveitutankar í stað þeirra sem eru í Perlunni. Allar þessar hugmyndir að breytingum eiga það sameiginlegt að kosta gífurlega fjármuni fyrir Orkuveituna sem á ekki mikið af aurum á þessum síðustu og verstu tímum og það eitt er nægilegt til að ýta þeim út af borðinu.

Loks er ein lausn enn til í spilunum. Hún er sú að skella í lás. Láta Náttúrugripasafnið fá Perluna og hitaveitutankana og hætta að dæla heitu vatni til íbúanna í 101 og 107 Reykjavík. Þá yrði ástandið fljótlega eins og það var á árunum kringum 1940 þegar þykk og dökk mengunarský lágu yfir Reykjavík á köldum vetrarmorgnum. Þá yrðu örugglega góð not fyrir lopatreflana fyrir þá sem lepja latté alla daga :o)


http://velstyran.blogspot.com/2007/03/5-mars-2007-hitaveitutankarnir-skjuhl.html

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/02/16/natturugripasafnid_fari_i_perluna/


0 ummæli:







Skrifa ummæli