Ég veit að fólk er löngu búið að fá hundleið á þrasi mínu um hitaveitutankana í Öskjuhlíð, en um leið er full ástæða til að halda áfram að minna á þá. Um daginn skammaðist ég í Merði Árnasyni á blogginu mínu vegna vanhugsaðra ummæla hans um tankana, en í athugasemdum með færslunni, benti einn gamall (?ári yngri en ég!) og góður hitaveitumaður mér á að Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra hefði komið með sömu tillögu og Mörður á árssfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2001. Það finnst mér furðulegt að maður sem hefur búið í næsta nágrenni við hitaveitutankana mestallt sitt líf skuli koma með slíka tillögu.
Ég hefi oft gagnrýnt Guðlaug Þór Þórðarson á blogginu mínu, en í Fréttablaði sunnudagsins, bendir hann réttilega á að hitaveitutankarnir eru ekki til sölu. Sömuleiðis skil ég ekki alveg orð Dags B. Eggertssonar um kostnað borgarinnar við Perluna, enda stóð ég í þeirri trú að Orkuveita Reykjavíkur greiddi kostnaðinn við Perluna, en ekki borgarsjóður. Ég vil þó taka fram að ég er ekki mjög vel að mér í gjaldaskiptingu milli borgar og Orkuveitu, en tel nokkuð víst að Orkuveitan greiði aðstöðugjöld fyrir hitaveitutankana.
Það er fræðilegur möguleiki á því að hætta að geyma heitt vatn í hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð, nota þá í eitthvað annað og keyra allt hitaveitukerfið með dælingum, en dýrt yrði það auk þess sem rekstraröryggi yrði stórlega áfátt. Það yrði að byggja fleiri dælustöðvar, sem kosta mikla peninga í rekstri. Rekstur ylstrandarinnar í Nauthólsvík yrði nánast vonlaus. Sömu sögu er að segja af goshvernum í Öskjuhlíð þar sem uppblöndun vatns frá Bolholtssvæðinu yrði að fara fram í Bolholtsstöð í stað lokahúss í Öskjuhlíð.
Það má svo endalaust deila um þá notkun á lokaða torginu á milli hitaveitutankanna sem nú er oft notað undir hinar ýmsu kolaportsútsölur á bókum, fatnaði og hljómdiskum
Aldrei þessu vant getum við Guðlaugur Þór þó verið sammála um að ódýrasta notkun Perlunnar er að nota tankana áfram til þeirra nota sem þeir voru byggðir til. Svo er Perlan svo falleg.
mánudagur, mars 05, 2007
5. mars 2007 - Hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:50
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli