Ég las frétt Morgunblaðsins um ökuníðinginn sem skaut á annan og rifjaðist þá upp fyrir mér atvik sem kom fyrir sænskan vinnufélaga minn í Stokkhólmi fyrir fjölda ára síðan.
Hann var úti að aka einhversstaðar á Bergslagsvägen í vesturborginni þar sem tvær akreinar eru í hvora átt og þar sem hann var að flýta sér renndi hann á vinstri akrein framhjá röð bíla sem fóru hægt yfir á hægri akrein og síðan þegar kom að þrengingu á veginum, tróð hann sér inn á milli bíla rétt eins og maður sér oft á dag hér á Íslandi. Bílstjórinn sem hann þrengdi sér framfyrir var aldeilis ekki glaður, flautaði og sýndi af sér að hann kynni illa við háttalag kunningja míns.
Svo kom að því að kunninginn þurfti að stoppa á rauðu ljósi og sá æsti í næsta bíl fyrir aftan. Sá steig þá útúr bíl sínum og gekk að bíl kunningja míns, reif upp bílstjórahurðina, dró hann útúr bílnum og stakk í magann með hníf og það fyrir framan augun á fjölda vitna. Kunningi minn lenti á spítala, en komst fljótt aftur á fætur og til vinnu, en sá sem stakk hann lenti á bak við lás og slá.
Það sem þótti merkilegast við þessa árás var að maðurinn sem stakk kunningja minn var um fertugt, og með tandurhreint sakavottorð.
Það getur verið varasamt að fara vitlausu megin framúr á morgnanna.
laugardagur, mars 31, 2007
31. mars 2007 - Ökumaður stakk annan ökumann!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli