þriðjudagur, mars 06, 2007

6. mars 2007 – II – Ruglið í kjördæmaskipuninni

Þá er ljóst að breyta þarf mörkum Reykjavíkurkjördæmanna fyrir kosningarnar í vor, ef marka má hádegisfréttir Ríkisútvarpsins. Kjósendur norðurkjördæmis miðað við skiptinguna við síðustu alþingiskosningar eru orðnir mun fleiri en kjósendur Reykjavíkursuðurkjördæmis og því þarf að flytja hóp kjósenda nauðungarflutningi suður fyrir kjördæmamörk. Þeir kjósendur þurfa að vísu ekkert að óttast, enda talið mun betra að vera í Reykjavík-suður, betri frambjóðendur og skemmtilegri kjósendur.

Ég hefi aldrei skilið tilganginn með þessari tvískiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Kannski var tilgangurinn að hafa sex jafnfjölmenn kjördæmi, en ég skil ekki af hverju mátti ekki hafa eitt stórt með helmingi fleiri þingmenn. Er hættan kannski sú að verið sé að koma í veg fyrir að smáframboð komi inn manni? Ég hélt að slíkt væri mun einfaldara með kröfum um lágmarksfylgi, t.d. 4% eins og í Svíþjóð eða 5% eins og í Þýskalandi.

Eftir fjögur ár breytast kjördæmin að nýju. Með stórfelldri uppbyggingu í Norðlingaholti og Úlfarsfelli þarf að flytja kjósendur Reykjavíkursuður nauðungarflutningi yfir í norðurkjördæmið árið 2011 og með hugsanlegri uppbyggingu á Geldinganesi þarf svo að flytja þá til baka 2015.

Mér finnst núverandi kjördæmaskipulag glatað, en hvað ég veit um þær hugsanir sem fara fram á milli eyrna háttvirtra alþingismanna?


0 ummæli:







Skrifa ummæli