Þegar Davíð Oddsson hótaði áframhaldandi okurvöxtum ef álverið í Straumsvík yrði stækkað og annað byggt í Helguvík 29. mars síðastliðinn, gaf hann fjölda fólks sem er þreytt á okurvöxtunum skýr fyrirmæli um að berjast gegn stækkuninni í Straumsvík. Eins og heyra mátti af viðtölum í fjölmiðlum við fólk á kjörstað á laugardag, virtust orð hans hafa ráðið heilmiklu um afstöðu fólks gegn stækkuninni, en um leið gerði það fólk sem greiddi atkvæði eftir fyrirmælum hans sér ekki grein fyrir því, að með því að greiða atkvæði gegn stækkuninni var um leið verið að greiða atkvæði með boðun hinnar hörðu lendingar Davíðs og hugsanlegu kreppuástandi.
Sá hópurinn sem helst barðist gegn stækkuninni, sér heiminn rétt eins og félagi Davíðs fyrir westan. Sá heitir George Dobbljú Bush og sér heiminn í hvítu eða svörtu, afsakið gráu eða grænu. Rétt eins og bandaríska þjóðin fylkti sér um hina svarthvítu stefnu Bush eftir 2001, hefur stór hópur Íslendinga fylkt sér um hina svarthvítu stefnu Andra Snæs, Ómars Ragnarssonar og Steingríms Jóhanns sem gengur út á að keyra íslenskt efnahagslíf í gjaldþrot með aðgerðarleysi og baráttu gegn framförum.
Það verður fróðlegt að sjá hvort íslenska þjóðin losi sig við kreppuna aftur með fótunum eins og hún gerði 1968-1969. Í það skiptið bjargaði nýhafin álvinnsla í Straumsvík því að ekki fór enn verr.
Hafnfirðingar hafa kosið og sagt nei. Spurningin er hvort þessi höfnun verði ekki hvatning fyrir kröfur heimamanna um byggingu álvera í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Það er jafnvel hugsanlegt að hægt verði að ráða þrautþjálfað starfsfólk frá Hafnarfirði í ný störf á þessum stöðum.
laugardagur, mars 31, 2007
1. apríl 2007 - Samúðarkveðjur til Hafnarfjarðar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:30
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli