laugardagur, mars 24, 2007

24. mars 2007 - Óvænt afmælisveisla


Á föstudagseftirmiðdaginn plataði ég Gurrí Haralds, (þið vitið Kaffi-Gurrí, (sjá http://gurrihar.blog.is/ ) til að koma með mér á skómarkað á milli hitaveitutankanna í Öskjuhlíð. Eftir smáráp á milli skókassa kom Gurrí allt í einu með snilldarhugmynd: Það er frábær skómarkaður vestur í Sjóminjasafni á Grandagarði. Eigum við ekki að kíkja þangað?


Við vestur á Grandagarð á mínum víðfræga vinstrigræna Subaru. Þegar þangað var komið reyndist Gurrí hafa verið að plata því allt í einu vorum við komnar í stórafmæli matargúrúsins Nönnu Rögnvaldar og ég enn í hversdagsfötunum. Eins gott að ég var nýkomin úr klippingu.

Þrátt fyrir útganginn á mér var vel tekið á móti okkur og boðið upp á veitingar sem Nönnu einni er sæmandi. Ég gætti þess að vera ákaflega hófleg og láta ekki græðgina hlaupa með mig í gönur og þetta notfærði Gurrí sér óspart, fór fleiri ferðir að matarborðinu, benti á mig og þóttist vera að sækja ábót fyrir mig. Þetta skal ég launa henni þótt síðar verði.


Rétt eins og í öðrum veigamiklum afmælisveislum, var þarna mikill fjöldi frægðarfólks. Má þar nefna Guðrúnu Bóasdóttur af Stuðlaætt og Elvar vélfræðing eiginmann hennar, Hildigunni Rúnarsdóttur sem bjargaði æru minni þegar ég var tólf ára, Rósu Þorsteinsdóttur bókasafnsfræðing og skemmtilega skólavinkonu úr MH sem að auki er einungis átta mínútum yngri en Gurrí, Sigrúnu Magnúsdóttur fyrrum borgarfulltrúa og ekki má gleyma Ævari Erni Jósefssyni sem viðurkenndi fyrir mér að hann væri fastur laumulesandi bloggsins míns. Það er ljóst að glæpaverkin hafa tekið talsvert á Ævar því hann hefur lagt mikið af síðan ég sá hann síðast.

Greinilegt var að Gurrí skemmti sér ágætlega því ég varð að þvinga hana með valdi út í bíl og aka eins og vitleysingur með hana upp í Árbæ og í veg fyrir Akranesstrætó svo hún kæmist alla leiðina heim.


0 ummæli:







Skrifa ummæli