Gallup könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna var birt í gær og brá þá svo við að Vinstrigrænir voru orðnir næststærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt könnuninni og prósentinu stærri en Samfylkingin. Ekki er nema gott um það að segja, en samt fæ ég á tilfinninguna að þessi mæling á fylginu sé ekki alveg raunhæf.
Fyrir það fyrsta, þá er könnunin gerð 31. janúar til 27. febrúar. Hún er því gerð að stórum hluta áður en Steingrímur Jóhann boðaði hér stofnun netlöggu og öll áður en Ögmundur vildi láta Stasi stjórna matarverðinu á Íslandi með valdboði. Í öðru lagi, þá er enn ekki útséð með framboðsmálin. Það eru fleiri framboð í farvatninu, Margrét Sverrisdóttir, Ólafur F. Magnússon og Ómar Ragnarsson á leiðinni með sitt hægrigræna framboð og óvíst hversu mjög Jakobi Frímann mun takast að eyðileggja það með þátttöku sinni. Því verður að ætla að fólk sem einblínir á náttúruvernd án annarra pólitískra markmiða, muni í auknum mæli færa atkvæði sín til nýja framboðsins.
Ég ætla samt að vona að ný könnun verði gerð hjá Gallup um fylgi flokkanna áður en nýju framboðin koma fram svo hægt verði að mæla hversu mjög Steingrímur og Ögmundur hafa skemmt fyrir vinstrigrænum með heimskulegum málflutningi.
Það er ekki lengur mitt að velta því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að yngra fólki leysi Ögmund og Steingrím af hólmi og leiði Vinstri hreyfinguna grænt framboð inn í framtíðina, ungt fólk á borð við Svandísi Svavarsdóttur, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Katrínu Jakobsdóttur. (og að sjálfsögðu Hlyn Hallssyni)
föstudagur, mars 02, 2007
2. mars 2007 - Nú kætast vinstrigrænir!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:15
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli