föstudagur, mars 16, 2007

16. mars 2007 - Að halda út í fjögur ár!

Fyrir tveimur áratugum féll grunur á nokkra skipsfélaga mína, að við hefðum flutt nokkrar flöskur af áfengi ólöglega til landsins. Svo hart var gengið að einum fyrrum skipsfélaga mínum að hann sá sitt óvænna og játaði allar syndir alheimsins og var þá sleppt, þó eftir að játning hans hafði verið skjalfest. Mál hans fór þó aldrei til dóms því hann hafði verið rekinn fyrir áfengissmygl skömmu áður en umrætt smyglmál kom til sögunnar. Sjálf var ég sýknuð eftir fleiri ára málaþras þar sem engar sannanir lágu fyrir hugsanlegri sekt minni né annarra skipverja.

Ég get ekki annað en dáðst að pólitíska fanganum Khalid Sheikh Mohammed. Eftir fjögurra ára fangavist og illa meðferð Bandaríkjamanna hefur hann nú verið þvingaður til að játa á sig brot sem hann hefur trúlega aldrei framið. Heimurinn mun sennilega aldrei trúa játningu hans.

Fyrir aldarfjórðungi voru nokkur ungmenni á villigötum í lífinu látin játa á sig tvö morð á Íslandi. Síðar drógu þau öll játningar sínar til baka, sum eftir að hafa eytt blóma ævinnar á bak við lás og slá. Sum þeirra hafa aldrei náð að rétta úr kútnum sbr. Sævar Cielsielski sem þjóðfélagið hafnaði, þótt hann hafi hugsanlega aldrei framið þann glæp sem hann var dæmdur fyrir.

Þeir menn sem skipulögðu árásirnar 11. september 2001 eru dauðir. Þeir frömdu sjálfsvíg með árásunum. Játning Mohammeds er einungis gerð til að réttlæta þann glæp Bandaríkjanna gegn mannréttindum, að halda fólki í fangelsi við verstu aðstæður án dóms og laga uns það játar hvað sem er. Með einkennilegri játningu sinni er hann búinn að finna sér stöðu sem píslarvottur í augum þess fólks sem hatar Bandaríkin og hernaðarhyggju þeirra. Ef hann verður líflátinn fyrir hugsanlega upplognar sakir, tryggir hann sér stöðuna sem píslarvottur!


0 ummæli:







Skrifa ummæli