Í pappírsMogga dagsins er sagt frá ferðum skipa Landhelgisgæslunnar til Færeyja til olíukaupa vegna þess að þá sleppa skipin við greiðslu virðisaukaskatts. Er þetta ekki dálítið öfugsnúið?
Í dag er Gæslan með einungis tvö skip í fullum rekstri, Ægi og Tý, en auk þeirra hefur Óðinn gamli verið í takmörkuðum rekstri hluta úr ári. Það er því iðulega að koma upp sú staða að einungis eitt skip er á Íslandsmiðum í einu sem er allsendis ófullnægjandi ef upp kemur alvarleg staða við strendur landsins. Þá eru enn tvö ár í að nýtt skip komi í flota Gæslunnar til stuðnings þessum tveimur gömlu jálkum, hinum 39 ára Ægi og 32 ára Tý.
Ég efa það ekki að það sé ákveðin hvíld fyrir áhafnir skipanna að komast til Færeyja öðru hverju og jafnvel verða sér úti um ódýran tollvarning, en er ekki ódýrara að hækka kaupið til að gleðja áhafnirnar? Þversögnin í þessu öllu er þó sú að hin fjársvelta Landhelgisgæsla verður að fara langar leiðir eftir ódýrri olíu, en hún hefur ekki efni á að kaupa olíu á Íslandi, vegna virðisaukaskattsins sem rennur beint í vasa ríkisins sem á Landhelgisgæsluna!
Þetta lagast vonandi eftir kosningarnar í vor!
þriðjudagur, mars 13, 2007
13. mars 2007 - II - Úr öðrum vasanum í hinn!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 14:21
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli