laugardagur, mars 17, 2007

18. mars 2007 - Af kynleiðréttingum

Það var haustið 1994 sem ég fór á fund þáverandi landlæknis Ólafs Ólafssonar og óskaði þess að eitthvað yrði gert til að bæta stöðu þess fólks sem bjó á Íslandi og þjáðist af kynáttunarvanda, þ.e. fólks sem óskaði þess heitast af öllu að komast í aðgerð til leiðrétingar á kyni sínu. Ólafur tók mér vel. Við höfðum átt í nokkrum samskiptum áður gegnum síma og bréfleiðis, en nú var ég stödd á Íslandi og vildi sjá eitthvað gert hér á landi, eitthvað annað en þegar ég neyddist til að yfirgefa landið nokkrum árum áður.

Á þessum tíma var ég formaður sænskra samtaka transsexual fólks og sjálf langt komin í aðgerðarferli í Svíþjóð. Um leið vissi ég af hóp Íslendinga sem var í sömu aðstöðu og ég hafði verið áður fyrr, manneskjur sem treystu sér ekki til að flýja land og lifðu hér í vertíðarþjóðfélagi sem enn hugsaði eins og væru hér miðaldir.

Á fundinum með Ólafi var sett á stofn óformleg nefnd til að sjá um þessi mál og árangurinn blasir við okkur í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þótt ég vilji ekki kasta rýrð á einstöku nefndarmenn sem sumir hverjir hafa unnið að málinu af miklum heilindum, er ljóst að viðmiðun nefndarinnar af störfum Preben Hertoft geðlæknis í Danmörku voru slæm mistök, enda er Preben þessi Hertoft illa þokkaður af því fólki sem þráir ekkert frekar en að komast í leiðréttingarferli sem hér um ræðir.

Frá því nefndin hóf störf, hafa einungis tvær manneskjur lokið aðgerðarferli hér á landi. Á sama tíma hafa Íslendingar farið í gegnum aðgerð í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Thailandi, Danmörku og kannski víðar. Flest það fólk sem ekki treysti sér til að komast til útlanda í aðgerð 1994 hefur enn ekki komist í aðgerð og líður jafnilla í dag og það gerði þá.

Á síðasta áratug hefur Danmörk dregist stórlega aftur úr þróun þjóða Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á sviði kynleiðréttinga og Ísland hefur fylgt Danmörku eftir í afturhaldseminni. Er ekki kominn tími til að snúa við blaðinu?

Ég hélt að læknaeiðurinn gengi út á að bæta lífsgæði fólks, ekki gera þau verri.

http://www.althingi.is/altext/133/s/1218.html


0 ummæli:







Skrifa ummæli