Ég skráði mig inn á Moggabloggið í september síðastliðnum í þeim tilgangi einum að geta hæðst að Moggabloggurum undir nafni og mynd. Það var svo í hinni árlegu friðargöngu á Þorláksmessu þar sem ég sá marga góðbloggara, að ég sá einn eða tvo Moggabloggara á ferð, en eins og allir vita, eru Moggabloggarar hinir verstu hægripúkar og óalandi og óferjandi. Ég skaut því inn smáskoti á Moggabloggið á sjálft Moggabloggið og með því fylgdi sjálf jólahugvekjan mín sem einnig birtist á aðalsíðunni minni á Blogspot. Um jólin sem og dagana á eftir komu létt skot á Moggabloggið á Moggabloggi, en ekki leið á löngu uns ég var skotin í kaf af sjálfum frænda mínum frá Leirvogstungu.
Eftir þetta fór ég að hegða mér skikkanlega, en færði inn færslurnar mínar daglega á bæði Blogspot og Moggablogg. Um miðjan janúar var ég við að gefast upp á tvöföldum færslum, því til hvers átti ég að skrá inn færslur á Moggabloggið með 50 lesendur þegar 200-300 lesendur lásu mig daglega á Blogspot?
Þá skyndilega óx lesendafjöldi minn á Moggabloggi úr 50 í 500 á dag og suma daga fór ég yfir þúsund á dag. Ég steinhætti við að hætta við Moggabloggið og færðist nú öll í aukanna, óð upp vinsældalistann á Moggabloggi og komst sem hæst í sjötta sæti. Síðan þá hefi ég verið á róli á milli þessa ágæta sjötta sætis og farið sem neðst niður í 25 sæti. Ekki get ég farið að hætta á Moggabloggi með slíkar aðsóknartölur. Þá ber þess að gæta að ég hefi sem mest fengið um 480 flettingar á Blogspot á einum degi, en fékk 2800 heimsóknir á Moggabloggið þegar ég fann mig knúna til að skrifa um árin í Reykjahlíð eftir nauðgun fjölmiðla á æskuminningum mínum. Viðbrögðin hafa heldur ekki látið á sér standa og ég er sífellt að hitta fólk sem er að vitna í bloggið mitt og jafnvel séð ástæðu til að kalla mig fyrir vegna skoðana minna og vitnar í mig á öðrum vígstöðvum þjóðfélagsins.
Á afmælisdegi dótturdóttur minnar síðastliðinn föstudag, komst heildarfjöldi heimsókna á Moggabloggið mitt upp fyrir heildarfjölda flettinga á Blogspot þrátt fyrir einungis þrjá mánuði á Moggabloggi en fimmtán mánuði á Blogspot eða samtals rúmlega 76000 heimsóknir.
Ég er löngu hætt við að hætta á Moggabloggi.
-----oOo-----
Og svo er það fótboltinn. Þótt ekkert hafi heyrst úr Lundarreykjadalnum um gengið í kvenfélagsdeildinni, er ekki sömu sögu að segja af spútnikliðinu United of Manchester .
Í gær burstaði það Dómínókubbana með fjórum mörkum gegn engu og eru nú komnir með afgerandi forystu og átta stig umfram næsta lið og þrjá leiki til góða í efstu Vestfjarðadeild.
Þá eru þeir með 90 mörk í plús en næsti keppinautur með 60 mörk í plús.
Hvað eru hetjurnar mínar að gera í svona lélegri deild?
sunnudagur, mars 25, 2007
25. mars 2007 - Þetta hræðilega Moggablogg!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:38
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli