laugardagur, mars 03, 2007

3. mars 2007 - United of Manchester

Sagt er að Malcolm Glazer hafi aldrei farið á völlinn til að sjá fótboltafélagið sitt vinna annað lið í knattspyrnu. Þó á hann meirihlutann í öflugasta enska knattspyrnuliðinu Manchester United. Þegar honum tókst að eignast meirihlutann í félaginu, urðu margir heitustu stuðningsmennirnir reiðir, gengu út og stofnuðu eigið knattspyrnulið!

Eins og flestir lesendur mínir vita, þá telst ég seint forfallinn aðdáandi knattspyrnuleikja. Mér er að vísu kunnugt um nokkur þeirra, Rassenal, Lifrarpoll, Efratún og Seltjörn. Ég hefi heimsótt tvö ensk knattspyrnulið, hetjurnar miklu í Halifaxhreppi sem berjast nú fyrir tilveru sinni í kvenfélagsdeildinni og svo Sameinaða Mannshesta á Old Trafford. Þó er þriðja liðið sem á hug minn og hjarta ef hjarta mitt er þá ekki úr steini og það er hið geðþekka en nýlega stofnaða knattspyrnulið Samvinnufélagið United of Manchester.

Það var 19. maí árið 2005 að blásið var til fundar meðal dyggustu stuðningsmanna Manchester United og voru þeir ósáttir við að gamall bissnessmaður vestur í nýlendunum hefði keypt uppáhaldsliðið þeirra á markaði eins og hvern annan búfénað vikunni fyrr. Upphaflega var ætlunin sú að funda til mótmæla gegn yfirtökunni, en brátt var ljóst að einungis ein leið var úr mótmælunum, en það var stofnun nýs Manchester United og var knattspyrnuliðið Football Club, United of Manchester stofnað formlega í júní 2005.

Með stofnun félagsins hófst sigurganga sem ekki hefur séð sinn líka í fjölda ára. Þótt liðið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum og gert eitt jafntefli, hóf það keppni í neðstu Vestfjarðadeild (NorthWest Counties division two) haustið 2005 og vann sig upp í efri deild þegar þann vetur og í vetur hefur það spilað í efri Vestfjarðadeild (NorthWest Counties Division one) þar sem það það er efst í deildinni með jafnmörg stig og næstefsta lið, en á fimm leiki til góða. Það er því ljóst að eftirleikurinn ætlar að verða auðveldur og áttunda deild blasir við sem kennd er við Midlands.

Eitt er það sem gefur lífinu gildi og gleði. Það er erfitt að kaupa félagið. Það byggir á samvinnufélagsforminu og einn félagi er eitt atkvæði og þá án tillits til þess hversu mjög viðkomandi hefur greitt til félagsins. Ekki er það verra að skemmtilegra er að fagna með liði sem vinnur sig hratt og örugglega upp frá botninum en að halda með einhverju liði á niðurleið úr efstu deild, því eins og einhver sagði, af toppnum er aðeins ein leið fær og hún er niður. Af botninum er aðeins ein leið fær og hún er upp á við.

-----oOo-----

Á föstudagsmorguninn var hringt í mig og ónefndur Framsóknarmaður bauð mér að mæta á opnunarhátíð Landsfundar Framsóknarflokksins, gamla samvinnuformsins. Þegar haft er í huga að ég er þegar orðin yfirlýst Samfylkingarmanneskja og að ég var á leiðinni í rúmið eftir næturvaktina, þá afþakkaði ég gott boð, en samt, mér hlýnaði um hjartarætur!


0 ummæli:







Skrifa ummæli