Með síðustu færslu minni komst upp um perraskapinn í mér. Hér með játa ég að ég var eitt sinn meðlimur í litlum BDSM klúbb sem heitir Hjärter Dam og var þá til húsa á Polhemsgatan, rétt hjá aðalstöðvum lögreglunnar í Stokkhólmi. Ég var þar meðlimur mér og öðrum til skemmtunar og án þess að nokkur alvara lægi þar á bakvið. Sagan á bakvið mætingar mínar í klúbbinn er eftirfarandi:
Þegar ég flutti til Svíþjóðar á seinnihluta níunda áratugs síðustu aldar kynntist ég stúlku sem allt vildi gera til að greiða götu mína í samfélagi sem mér fannst fjandsamlegt á þeim tíma. Þessi stúlka og þáverandi sambýliskona hennar reyndust mér góðar vinkonur og börðust með mér í hvert sinn sem ég þurfti að berjast og fögnuðu með mér er ástæða var til fagnaðar. Þær voru báðar í námi við háskólann í Stokkhólmi, önnur í sálfræði, hin í félagsfræði og báðar voru frá suðurhluta Finnlands.
Þótt ætla mætti að samband þeirra væri lesbískt, kom ýmislegt fleira á daginn. Sú sem stundaði nám í sálfræði, átti sér norskan karlmann að vini og vinkona mín í félagsfræðinni stundaði vændi sér til “skemmtunar” og aukatekna á Finnlandsferjunum, var mjög iðin við allt skemmtanalíf sem hafði með kynlíf að gera og var m.a. meðlimur í Hjärter Dam sem áður er getið. Ég hafði illan bifur á mörgu í hegðun hennar, en engin nánari afskipti af þeirra innri ástarmálum þótt mig gruni að tvíkynhneigð hafi verið ráðandi á heimili þeirra.
Ef mig langaði til að skreppa út á lífið, var fyrstnefnda vinkona mín ávallt til í að koma með og við brölluðum ýmislegt skemmtilegt saman. Þó kom fyrir að mér blöskraði greddan í henni eins og þegar við vorum á staddar á skemmtistað í Stokkhólmi og hittum fyrir íslenskan vin minn og hún fór fram á það við vininn að þau gerðu eitthvað saman á bakvið sófa!
Vinkonurnar luku svo saman prófi í námi í Stokkhólmi og eftir nokkra hvíld frá námi héldu þær áfram í framhaldsnámi. Við héldum svo áfram að hafa samband um sinn eftir að ég flutti aftur til Íslands og ég fylgdist spennt með úr fjarlægð er þær keyptu sér saman landareign í nálægð við Narfa í Eistlandi og ætluðu að setjast þar að, sögðu þær mér í tölvubréfi.
Eftir það heyrði ég ekkert frá þeim í nokkur ár, ekki fyrr en sameiginlegur vinur í Stokkhólmi hafði samband við mig og benti mér á að lesa Aftonbladet í dag! Ég gerði það og mér til furðu fjallaði forsíða netútgáfunnar um gamla vinkonu mína. Hún sat á bak við lás og slá ákærð fyrir sölu á vændi sem þá hafði verið bannað um tíma í Svíþjóð og reyndist hún vera með um 800 manns á skrá hjá sér sem viðskiptavini og hafa velt milljónum í rekstrinum. Nokkru síðar var hún dæmd í fjögurra ára fangelsi ásamt útvísun frá Svíþjóð í tíu ár fyrir rekstur á vændishúsum í Solna og Stokkhólmi. Var hún fyrst allra til að hljóta dóm fyrir slíkt athæfi.
Það eru komin nokkur ár frá því vinkona mín var dæmd fyrir brot sín og vafalaust er hún löngu búin að sitja af sér brot sín. Ég hefi algjörlega misst sambandið við hana og sambýliskonu hennar, en samt! Þrátt fyrir allt tal um klámvæðingu og vændi á Íslandi, get ég ekki annað en hugsað hlýlega til þeirra því þær bættu sjálfsvirðingu mína! Þær sýndu mér vináttu sem er nauðsynleg þegar sest er að í ókunnu landi og á ég þeim ævarandi skuld að gjalda. Um leið hugsa ég iðulega til þess, hvort ekki hefði verið betri hegðun þeirra, hefði ég rekið ögn meiri áróður fyrir betra líferni þeim til handa!
Um leið veit ég ekki hvort mér sé ætlað að skammast mín fyrir vináttu mína við konu sem er á svörtum lista sem “antifeministísk”!
Sjá Google.com: http://www.google.is/search?hl=is&q=%22Teresa+Lilius%22&btnG=Leita&lr=
-----oOo-----
Þrátt fyrir færsluna vil ég óska öllum konum til hamingju með alþjóða kvennadaginn!
miðvikudagur, mars 07, 2007
8. mars 2007 - Enn af perraskap þrátt fyrir daginn!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:45
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli